Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur undirrituðu formlega friðlýsingu Akureyjar á Kollafirði við Eiðsgranda í dag, 3. maí 2019.
Þetta er fyrsta friðlýsing sem Guðmundur Ingi undirritar en nú stendur yfir átak friðlýsinga hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samvinnu við Umhverfisstofnun.
Búsvæðavernd
Akurey er að finna á nýjum vef, www.fuglavernd.is/sjofuglabyggðir en þar hefur Fuglavernd tekið saman upplýsingar um 37 sjófuglabyggðir við Ísland sem eru öll alþjóðlega mikilvæg, oftast vegna fjölda þeirra sjófugla sem reiða sig á þau.
Akurey er lítil, um 6,6 hektarar að stærð, láglend og flöt eins og aðrar eyjar á Kollafirði, hæsti punktur er 10 m.y.s. Eyjan er mjög gróskuleg og stórþýfð og einkennist af lundavarpinu sem þar er. Fjaran er stórgrýtt. Aðal varpfuglinn er lundi, um 20.000 pör í góðum árum, jafnframt verpur eitthvað af æðarfugli, fýl, hettumáfi, sílamáfi, svartabaki, teistu og kríu.
Í Akurey er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð, því þar verpa yfir 15.000 pör af lunda, um 0.7% af íslenska stofninum. Einnig verpa þar ýmsir sjófuglar í minna mæli, eins og sílamáfur, æður og teista.
Á válista fugla Náttúrufræðistofnunar Íslands eru tegundir sem verpa í Akurey flokkaðar; tegund í bráðri hættu (CR): lundi, tegundir í hættu (EN): fýll, svartbakur, teista og tegundir í nokkurri hættu (VU): kría, æðarfugl.
Næstu skref
Fuglavernd fagnar þessar friðlýsingu Akureyjar, en fyrst skoraði Fuglavernd á Reykjavíkurborg að friðlýsa Akurey og Lundey með bréfi þann 10. febrúar 2014, eins og sjá má undir /umsagnir.
Vernd mikilvægs búsvæðis tegundar í bráðri útrýmingarhættu er mjög mikilvægt skref, en á borði Umhverfis- og auðlindaráðherra liggur áskorun frá 12. nóvember 2018 um aðgerðir til varnar svartfuglum.