HAXI – Hagsmunafélag líffræðinema

HAXI – Hagsmunafélag líffræðinema kom í sína árlegu vísindaferð til Fuglaverndar.

20. febrúar kom HAXI – Hagsmunafélag líffræðinema í sína árlegu vísindaferð til Fuglaverndar. Það er alltaf ánægjulegt að taka á móti þessum verðandi líffræðingum og að sjálfsögðu vonum við að margir þeirra munu leggja fyrir sig rannsóknir og störf innan líffræðinnar sem að verða fuglum til framdráttar.

Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar kynnti starfsemi félagsins fyrir Haxverja og hér má skoða kynninguna hennar.

Aron Alexander Þorvarðarson líffræðingur og starfsmaður Fuglaverndar var með erindi um ERF- endurheimt votlendis verkefnið sem hann vinnur að fyrir Fuglavernd.

Að lokinni fræðslu bauð Fuglavernd upp á sushi og drykki og spunnust líflegar umræður um félagið, starfið og margt annað skemmtilegt.

Gott og skemmtilegt boð og Fuglavernd hlakkar til að taka á móti næsta hópi að ári liðnu.

valkvæmt

Hvernig færum við landið í fyrra horf?

Samstarfsverkefni náttúruverndarfélaga á Íslandi og í Póllandi.

Fuglavernd hefur um skeið unnið að endurheimt votlendis í nafni votlendisfugla og sumarið 2022 fékkst styrkur frá nokkrum erlendum aðilum til samstarfs á milli Póllands og Íslands um málefni votlendis og til miðlunar reynslu og þekkingar á málaflokknum. Héðan fóru nokkrir aðilar frá Landgræðslunni, Landbúnaðarháskólanum og Fuglavernd til Póllands til að skoða mismunandi endurheimtar verkefni, m.a. í Poleski þjóðgarðinum. Eitt verkefnanna í Póllandi beindist sérstaklega að því að endurheimta búsvæði fenjasöngvarans (aquatic warbler), einn sjaldgæfasti söngfugl Evrópu, sem greinilega hafði tekist vel þar sem gestirnir frá Íslandi fengu bæði að sjá og hlýða á fuglinn.

 

 

Seinna sama ár komu svo kollegar okkar frá Póllandi til að kynna sér aðstæður á Íslandi og ýmis áhugaverð svæði skoðuð, m.a. endurheimt votlendis í Friðlandinu í Flóa og að Sogni í Ölfusi. Af þessu samstarfi og samanburði á aðstæðum í Póllandi og Íslandi varð til skýrslan „ Hands-on manual on Re-Wetting“ sem þau Sunna Áskelsdóttir hjá Landi og skógi og Pawel Pawlaczyk frá pólsku samtökunum Klub Przyrodników skrifuðu. Skýrslan er nú komin út á netinu og má sjá hér en enn sem komið er bara á ensku: Hands-on Manual on Re-Wetting. Exchange of Icelandic and polish experience in peatland restoration for biodiversity and climate.

Við Sogn er að finna eldra grágrýti, þar sem basísk og ísúr gosberg auk setlaga eru ríkjandi. Jarðvegurinn, sem Sunna sýnir hópnum, er einkennandi fyrir svæðið, þar sem svartjörð og brúnjörð eru algengar. Svartjörð svipar mjög til mójarðar en inniheldur ekki jafn mikið af lífrænum efnum. Engu að síður er svæðið tilvalið fyrir votlendisendurheimtarverkefni, sem mun nýtast fuglum, auka líffræðilega fjölbreytni og draga úr losun frá landi.

 

Vetrarfuglatalning — hvað er nú það?

 

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar stendur eftirfarandi um vetrarfuglatalningu:

„Vetrarfuglatalningar eru ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda. Frá upphafi hafa áhugamenn unnið þetta verk í sjálfboðavinnu og á annað hundrað manns taka þátt. Talningar fara fram á föstum dögum í kringum áramót. Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningar eru staðlaðar og nýtast til vöktunar einstakra stofna.”

Það er hægt að fræðast meira um vetrarfuglatalningar á heimasíðu NÍ.

Aron Þorvarðarson tímabundinn starfsmaður Fuglaverndar í ERF verkefnum  tók þátt í vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar (NÍ) 7.janúar 2025. Aron og starfsmenn Náttúrufræðistofnunar hittust og skiptu með sér verkum. Aroni var úthlutað  partur svæðis 038 Saltvík – Bakki (ós Blikadalsár)

Hluti strandlengju  Íslands hefur verið skipt upp í svæði eða búta og er talningarmönnum dreift á þau. Þátttakendur er fólk sem þekkir fugla vel og getur greint milli tegunda og talið fjölda hverrar tegundar.

Hér má sjá kort af svæðum vetrarfuglatalningar

Alls taldi Aron 19 tegundir. Þar voru flestir æðarfuglar 884 og þær tegundir sem aðeins einn einstaklingur sást voru: Sendlingur, álka, hettumáfur og smyrill.

Allar tegundirnar, raðað eftir fjölda einstaklinga má sjá í töflu hér fyrir neðan.

 

 

 

 

Fuglavernd færir þingmönnum gjöf

FUGLAVERND FÆRIR ÞINGMÖNNUM GJÖF

Í síðast liðinni viku sendi Fuglavernd öllum þingmönnum Alþingis tvö glæsileg hefti af ritinu FUGLAR. Um er að ræða veglega útgáfu félagsins um málefni fugla og vernd þeirra. Tilefnið var að óska þingmönnum velfarnaðar í starfi, en vekja jafnframt athygli á að margir fugla Íslands standa höllum fæti vegna beinna og óbeinna áhrifa af umsvifum mannsins. Mikilvægt er að breyta um stefnu þegar kemur að landnýtingu, framkvæmdum og viðhorfum okkar til sumra fuglategunda, og vonast félagið eftir að þingmenn sjái sér fært að leggja náttúrunni lið í störfum sínum á Alþingi. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af rúmlega 40 kg bréfabunkanum og bréfinu sem að fylgdi tímaritunum tveimur. Fuglavernd vonar að sjálfsögðu að þingmenn lesi greinarnar sem við höfðum merkt fyrir þá og að skilningur þeirra á mikilvægi náttúruverndar aukist.

Greinin sem við merktum fyrir þá  í Fuglum nr. 13, 2021 má lesa hér  „Að vera, eða ekki vera ránfugl”

 

Glókollur - karlfugl

Fuglskoðun í Hólavallakirkjugarði, Reykjavík

Glókollur karlfugl, ljósmyndari Örn Óskarsson.

Laugardaginn 15. febrúar bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun í Hólavallakirkjugarði.

Á meðan að um 15 manns safnaðist saman við suðurhlið kirkjugarðins bauð Heimir Janusarson, umsjónarmaður garðsins, upp á kakó þar sem vindur næddi um þátttakendur og lofthiti var lágur og sól náði ekki að verma mannskapinn.

Anna Pratichi Gísladóttir, líffræðinemi, leiddi hópinn um garðinn og leitaði fugla. Það var ekki mikið um fugla í kirkjugarðinum þennan dag. Hópurinn heyrði í svartþröstum og skógarþröstum sem sátu í trjám og sungu.  Glókollar voru á ferðinni sem að sumir heyrðu í og öðrum tókst að sjá.

Það hafði verið urmull af auðnutittlingum í garðinum í haust enda mikið um birki og reynivið. Tveir smyrlar höfðu komið auga á þessa ágætu matarkistu og sátu um garðinn og veiddu sér til matar. Heimir hafði fundið hami og leifar auðnutittlinga í garðinum eftir veislurnar. Aðrir auðnutittlingar höfðu væntanlega flutt sig um set á hættuminni svæði, enda hefur enginn auðnutittlingur haldið til í Hólavallakirkjugarði síðan í haust.

 

 

 

Gráþröstur og epli. Ljósmyndari; Örn Óskarsson

Garðfuglahelgin, fyrstu niðurstöður

Athugunarstaðir garðfuglahelgar voru 49 þetta árið. Þátttakendur voru 57, sem sagt á sumum stöðum voru fleri en einn að telja. Það voru 15 tegundir skráðar en alls sáust 3028 fuglar.  Við þökkum þeim sem að tóku þátt í talningunni.

Í fyrra voru athugunarstaðir  alls 153 og sáust fuglar í 143 görðum (93,5%). Skráðir þátttakendur voru 202, sem var miklu betri þátttaka en á þessu ári.  Með aukinni þátttöku sjást fleiri fuglar og að sama skapi með minni þátttöku; færri fuglar. Í fyrra sáust  14.416 fuglar af 19 tegundum í görðum þátttakenda. Flestir fuglar sáust í garði á Stokkseyri (694) og flestar tegundir í garði í Árbæjarhverfi í Reykjavík. Snjótittlingar voru helmingur þeirra fugla sem voru skráð.

Þið sem að misstuð af garðfuglahelgi þessa árs, Fuglavernd hvetur ykkur til að taka þátt að ári liðnu eða hefja þátttöku í garðfuglakönnun á komandi hausti, veturlangt

 

 

 

 

 

 

 

Gráþröstur og epli. Ljósmyndari; Örn Óskarsson

Garðfuglahelgin 2025 – skilafrestur er til 15. febrúar

Garðfuglahelgin 2025 skilafrestur er til 15. febrúar.

Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina helgi. Allir sem hafa aðgang  að garði geta tekið þátt í garðfuglahelgi.

Venjulega er um að ræða síðustu helgina í janúar og nú er hún liðin sú síðasta helgi. Um var að ræða 24. – 27. janúar og hver og ein réð því hvaða dag hann taldi sinn klukkutíma.

Skilafrestur talninga er til 15. febrúar og Fuglavernd bíður spennt eftir niðustöðum frá öllum þátttakendum svo hægt verður að birta þær.

 

Hér má finna nánari upplýsingar um garðfuglahelgi svo og eyðublöðin og rafrænt skilaform. Skilafrestur er til 15. febrúar. 

 

 

Svífðu til liðs við Fuglavernd.

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Fuglavernd byggir afkomu sína að mestu leyti á félagsgjöldum og með aðild að félaginu færð þú m.a. áskrift að tímaritinu FUGLAR og frían aðgang að fræðslufundum og fuglaskoðunum á vegum félagsins.

Svífðu til liðs við Fuglavernd.

Hægt er að skrá sig í félagið af heimasíðu félagsins eða með tölvupósti í netfangið fuglavernd[hjá]fuglavernd.is

 

Tegundavernd

Með tegundavernd viljum við beina kastljósi að ábyrgðartegundum okkar Íslendina, stöðu tegunda á válista fugla sem er mat á hættu þeirra í útrýmingarhættu og til hvaða aðgerða við getum gripið til þess að vernda fuglategundirnar.

Búsvæðavernd 

Með vernd búsvæða er átt við búsvæði fugla, þar sem þeir finna sér stað til fæðuöflunar, hvíldar og varps. Fjölskrúðugt fuglalíf er einn besti mælikvarði sem hægt er að leggja á svæði, þá er víst að þar þrífst heilbrigt vistkerfi.

 

Sjálfboðaliðastarf

Fuglavernd treystir á krafta félaga í sjálboðaliðastörfum. Vettvangurinn snýst ekki eingöngu á vinnu heldur er þetta einnig kjörið tækifæri félganna til að hittast og deila áhugmáli sínu; fuglum.

Friðlandið í Vatnsmýrinni

Norræna húsið er við suðurenda Friðlands í Vatnsmýrinni. Þar koma félagar saman  í apríl árlega og tína rusl og bæta aðgengi fugla að tjörnunum.

Friðland í Flóa

Félagar hafa mætt til starfa í Friðlandi í Flóa við að stika göngustíg um svæðið sem er notaður til að skoða fugla. Enn fremur þarf að halda við fuglaskoðunarhúsinu sem og  palli og rampi en það hefur verið gert af sjálfboðaliðum.

 

Fuglaskoðun

Sjálfboðaliðar leiða fuglaskoðun t.d.  í Reykjavík og Friðlandi í Flóa sem og öðrum stöðum á landinu þar sem sjálfboðaliðar  eru til í að taka að sér fuglaskoðun.

 

Myndakvöld og fræðsluerindi.

Fuglavernd heldur myndakvöld og/eða fræðsluerindi um fugla nokkrum sinni að vetri. Félagar hafa frían aðgang að slíkum kvöldum en aðrir gestir greiða aðgangseyri.

Rauðhöfðakolla með þrjá stóra dúnunga á Hústjörn í Vatnsmýri 9. júlí 2023. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Fuglalíf Tjarnarinna árið 2023

Rauðhöfðakolla með þrjá stóra dúnunga á Hústjörn í Vatnsmýri 9. júlí 2023. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Árlega kemur út skýrslan Fuglalíf Tjarnarinnar á vegum Reykjavíkurborgar sem að Fuglavernd fær að birta með góðfúslegu leyfi. Tveir fyrrum formenn Fuglaverndar. Ólafur Karl Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson, rannsaka fuglalífið og taka saman í skýrslu fyrir borgina. Fuglavernd hvetur alla vini Tjarnarinnar í Reykjavík að lesa skýrsluna.

„Fuglafána Tjarnarinnar hefur verið vöktuð meira og minna samfellt frá 1973 eða í 51 ár. Fimm andategundir hafa verið árvissir varpfuglar lengstum á þessu tímabili: stokkönd, gargönd, duggönd, skúfönd og æður. Varpstofnum stokkandar, gargandar og duggandar hefur hnignað verulega og æðurin er horfin. Einn æðarbliki sást reyndar í vor, en síðasta æðarkollan sást vorið 2021 og síðast varð vart við æðarunga sumarið 2014. Það er aðeins skúfandastofninn sem ekki hefur gefið eftir til lengri tíma litið. Rauðhöfðaönd, nýr varpfugl, bættist við 2013, og svo urtönd 2015, toppönd er óreglulegur varpfugl. Langvarandi viðkomubrestur stendur andastofnunum fyrir þrifum. Þrjár meginskýringar eru á lélegri afkomu andarunga: (1) fæðuskortur; (2) afrán; og (3) hnignun búsvæða.”

Hér er hægt að opna og lesa skýrsluna; Fuglalíf Tjarnarinnar árið 2023 

 

Ljsm. Róbert A. Stefánsson. Kristinn Haukur og arnarungar. 2019.

Í minningu Kristins Hauks Skarphéðinssonar

Kristinn Haukur, dýravistfræðingur, er fallinn frá eftir skammvinn en snörp veikindi. Fuglavernd hefur um áratugaskeið notið krafta Kristins Hauks í baráttunni fyrir vernd fugla og búsvæða þeirra. Hann varð félagi í Fuglavernd strax á unglingsárum og alla tíð síðan öflugur liðsmaður og tilbúinn að leggja hönd á plóg ef eftir var leitað. Það munar um slíkan liðsauka! Af mörgu er að taka en ég vil nefna að Kristinn Haukur sat í stjórn félagsins um árabil, hann tók þátt í að skipuleggja 50 ára afmæli Fuglaverndar, hann var formaður undirbúningsnefndar ráðstefnu um vindorkuver og fugla 2023, hann ritaði margar greinar í tímarit félagsins, var um árabil fundarstjóri á aðalfundum félagsins og aðstoðaði við gagnasöfnun vegna skráningar á mikilvægum fuglasvæðum og gerð evrópska válistans fyrir fugla.
Verndun hafarnarins var Kristni Hauki hjartans mál og þar átti hann sterka samleið með Fuglavernd. Fuglavernd var stofnuð árið 1963 af Birni Guðbrandssyni og félögum hans. Meginmarkmið félagsins í upphafi var að tryggja framtíð hafarnastofnsins sem þá taldi aðeins um 20 varppör og því í útrýmingarhættu. Verndaraðgerðirnar sem félagið beitti voru einkum að fá landeigendur, þar sem ernir áttu sér óðul, til liðs við málstaðinn en einnig hvatti félagið stjórnvöld til að banna eiturútburð. Á þessum árum leyfðist að nota eitrað agn til að bana tófum og öðrum „meindýrum“. Þessar eitruðu beitur urðu örnum títt að grandi. Hvort tveggja gekk eftir, bæði jókst velvild í garð arnarins og eins var eiturútburður bannaður. Arnarstofninn svaraði og hefur vaxið hægt en þó jafnt og þétt frá um 1970 og telur nú meira en 90 óðalspör. Allt frá stofnun sinnti Fuglavernd líka vöktun arnarstofnsins. Kristinn Haukur tók þátt í því starfi og þegar frumherjarnir stigu til hliðar axlaði hann alfarið ábyrgðina og frá 1993 var vöktunin hluti af hans vinnu við Náttúrufræðistofnun. Félagar í Fuglavernd hafa allar götur síðan unnið með Kristni Hauki við vöktun arnastofnsins og þar hafa verið fremstir meðal jafningja Finnur L. Jóhannsson og Hallgrímur heitinn Gunnarsson. Í tilefni af 50 ára afmæli Fuglaverndar kom út ritið Haförninn. Kristinn Haukur ritaði textann og fjallar þar um sögu hafarnarins á Íslandi, vistfræði tegundarinnar og tengsl manna og arna. Utan vöktunar stofnsins voru arnarannsóknir Kristins og samstarfsaðila síðustu 6 árin einkum fólgnar í því að skrá með senditækjamerktum örnum ferðalög þeirra á milli sveita og landshluta.
Ný ógn, vindorkuver, steðjar að haferninum. Ætlunin er að reisa slík orkuver þvert í þjóðbraut arna. Reynsla erlendis frá sýnir að slíkt getur verið meiri háttar ógn við erni og nægir þar að nefna að á eyjunni Smöla fyrir ströndum Noregs hafa 150 ernir drepist eftir að hafa lent í spöðum vindmylla frá árinu 2002. Kortlagning Kristins og félaga á loftvegum arna eru grundvallarupplýsingar í umræðuna um staðsetningu vindorkuvera!
Með þakklæti og virðingu kveðjum við traustan félaga og vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Fuglaverndar,
Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri