Hennar keisaralega hátign, Takamado prinsessa frá Japan

Prinsessa heilsar upp á íslenska fugla

Fuglavernd fékk þann heiður síðastliðinn föstudag að fara með hennar keisaralegu hátign Takamado, prinsessu frá Japan, í fuglaskoðun um Reykjanesskaga. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar, ásamt Sigurjóni Einarssyni fuglaljósmyndara og Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi, slógust í för með prinsessunni og sáu ýmislegt forvitnilegt á ferð sinni um skagann. 

Prinsessan var stödd á Íslandi vegna þings Hringborðs norðurslóða sem haldið var í síðustu viku þar sem yfir 2.000 þátttakendur frá nær 70 löndum tóku þátt en hún flutti ávarp við upphaf þingsins.

Áhugasamur fuglaljósmyndari

Takamado prinsessa er heiðursforseti Alþjóðlegu fuglaverndunarsamtakanna (BirdLife International) og er sendiherra fugla og náttúru. Hún hefur verið ötull stuðningsmaður samtakanna í Asíu og víðar. Sjálf er hún fuglaljósmyndari og hefur gefið út fjölda bóka um viðfangsefnið. 

Föruneyti prinsessunnar fór um Hafnir, Sandgerði, Garðskagavita og Fitjar í Njarðvíkum. Það sem helst vakti athygli prinsessunnar voru rjúpur á vappi á milli Hafna og Sandgerðis þar sem hún náði mynd af þeim í vetrarbúningi. Einnig náði prinsessan að taka myndir af svartbökum og ungum bjartmáfum, sem og rauðhöfðaöndum og hettumáfum í Fitjum og hópi heiðlóa í vetrarbúningi, sem hverfur brátt á braut til heitari landa.

Mynd af hennar hátign, Takamado: Sigurjón Einarsson

 

Prinsessan Takamado fór í fuglaskoðun um Reykjanesskaga með Fuglavernd. Hér stillir hún sér upp með Hólmfríði Arnardóttur framkvæmdastjóra Fuglaverndar, Sigurjóni Einarssyni fuglaljósmyndara og Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi.

Stikuupptaka

Tveir félagar fóru í Friðland í Flóa í stikuupptöku á dögunum. Þá er verið að taka upp þær stikur sem vísa veginn um stíginn í Friðlandinu. Það gengur fé á beit í Friðlandinu sumarlangt og það nýtir stikurnar óspart sem klórur og brýtur oft og tíðum stikurnar óviljandi. Einnig er hreyfing í mýri þessari sem m.a. flóð og fjara valda sem e.t.v. brjóta stikurnar. Af þeim 45 stikum sem voru teknar upp voru 29 brotnar og 16 heilar. 50 stikur voru settar niður 1. maí s.l.  5 stikur höfðu verið brotnar og fjarlægðar á undanförnum 5 mánuðum. T.a.m. þegar farið var í fuglaskoðun með hópa í júní voru brotnar stikur hirtar.

Fátt var um fugla þennan stikuupptökudag, slatti af stokköndum voru á flugi og einn og einn stórmáfur sem var ekki greindur til tegundar.

 

 

Fuglaskoðun 11. október 2025 Mynd: Bára Huld Beck

Vel heppnuð fuglaskoðun að baki

Fuglavernd stóð fyrir fuglaskoðun á Alþjóðlegum degi farfugla 11. október síðastliðinn. Fuglaskoðarar hittust á bílastæðinu hjá Garðskagavita á Reykjanesi þar sem margt var um manninn. Til tíðinda dró þegar aðrir fuglaskoðarar mættu á svæðið vígbúnir sjónaukum og myndavélum og greindu frá því að vaðlatíta (Calidris fuscicollis) hefði sést á svæðinu. Þeir bentu á tvær vaðlatítur sem vöppuðu í fjörunni ásamt sanderlum, tildrum og sendlingum. Vaðlatítur verpa í Kanada og Alaska en eiga hins vegar vetursetu í Suður-Ameríku. Þær flækjast hingað til lands endrum og sinnum svo fuglaskoðarar duttu í lukkupottinn við þessa sjón. 

Gengið var að vitanum og meðfram ströndinni þar sem sjá mátti hvítmáfa, silfurmáfa og súlnakast í fjarska.

Næst var förinni heitið á Hvalsnes í hádegismat og þar á eftir í Sandgerði þar sem meðal annars mátti sjá heiðlóur í vetrarbúningi undirbúa sig fyrir farflugið yfir Atlantshafið. Fuglaskoðuninni lauk í Fitjum í Njarðvíkum. Þar er fuglaskoðunarhús sem Fuglavernd mælir með að fuglaskoðarar nýti. Þar mátti sjá álftir með uppkomna unga og mikið af rauðhöfðaöndum.

Þrátt fyrir haustveður og sunnanátt þá skemmtu fuglaskoðarar sér konunglega og þakkar Fuglavernd öllum þeim sem mættu. 

 

Bára Huld Beck hóf störf hjá Fuglavernd 1. september 2025

Nýr kynningar- og samskiptastjóri hjá Fuglavernd

Bára Huld Beck hefur verið ráðin kynningar- og samskiptastjóri Fuglaverndar fyrir LIFE-verkefni um endurheimt votlendis sem unnið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, Land og skóg, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB).

Bára Huld hefur víðtæka reynslu en hún starfaði í fjölmiðlum um árabil. Hún hefur jafnframt setið í stjórn Blaðamannafélags Íslands síðustu fimm ár og í framkvæmdastjórn árin 2022-2023 og 2024-2025. Hún er með B.A.-gráðu í heimspeki og M.A.-gráðu í umhverfis- og náttúrusiðfræði og blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Hún hóf störf hjá Fuglavernd þann 1. september síðastliðinn.

Verkefnið sem um ræðir ber heitið Peatland LIFEline og miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Áhersla verður m.a. lögð á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi. Það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar. Verkefnið er formlega hafið og mun standa yfir til byrjun árs 2031.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið og starfsemi Fuglaverndar hjá Báru Huld í síma 697-3469 og í gegnum tölvupóstfangið barahuld hjá fuglavernd.is.

Við hjá Fuglavernd bjóðum Báru Huld velkomna til starfa.

Margt var um manninn á fyrsta fundi Peatland LIFEline.is verkefnisins

Milljarður frá ESB í endurheimt votlendis á Íslandi

Fuglavernd hefur, ásamt sex samstarfsaðilum, hlotið styrk frá LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Peatland LIFEline.is er metnaðarfullt verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Samstarfsaðilar Fuglaverndar eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB). Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands.

Áhersla lögð á þrjár fuglategundir

Verkefnið hófst formlega þann 1. september síðastliðinn og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um 6 milljónir evra (sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna).

Markmið verkefnisins Peatland LIFEline.is er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla verður lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll – sem og á evrópska álinn sem er í útrýmingarhættu. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Sendiherra ESB mætti á Hvanneyri

Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn dagana 22.–24. september 2025 á Hvanneyri í Borgarfirði og mættu um 50 þátttakendur. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar og Bára Huld Beck kynningarstjóri verkefnisins hjá Fuglavernd sóttu fundinn en megintilgangur hans var að ræða skipulag og framtíðarplön og leggja línurnar fyrir þau verkefni sem framundan eru.

Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, tók þátt í setningardegi fundarins ásamt sendinefnd sinni: Samúel Ulfgard, aðstoðarforstöðumanni sendinefndarinnar, og starfsnemunum Þórhildi Kristínardóttur og Þórhildi Søbech Davíðsdóttur. Sendiherrann flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi Peatland LIFEline.is sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála.

Mynd frá fundi á Hvanneyri: James Einar Becker


Endurheimt votlendis á Mýrunum, Vesturlandi

 

Með styrk frá Mossy Earth eru Fuglavernd, Land og skógur og Hafrannsóknarstofnun: Haf og vatn að endurheimta votlendi á Mýrunum á Vesturlandi .

Á heimasíðu Mossy Earth má lesa í máli og myndum um verkefnið sem mun m.a. greiða álum leið um votlendið, auka fjölda fugla sem sækja í votlendi sem búsvæði og auka fjölbreytni lífríkis sem að þrífst í votlendi.

Hér er hægt að fræðast um verkefnið á heimasíðu Mossy Earth

 

Hér er frábært myndband um verkefnið á you tube 

 

Haförn. Ljsm. Sindri Skúlason

Lögverndarsjóður

Lögverndarsjóður náttúru og umhverfis var stofnaður af nokkrum náttúruverndarsamtökum árið 2002 í því skyni að veita fjárhagsstuðning til að fá úrlausn vegna lögfræðilegra álitamála er snerta náttúru- og umhverfisvernd.

Fuglavernd, Landvernd, NAUST – Náttúruverndarsamtök Austurlands, og SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi standa að baki sjóðnum. Þessi félög og aðrir velunnarar lögðu sjóðnum til ákveðið fjármagn á sínum tíma og hefur sjóðurinn þegar stutt nokkur verkefni með því fé og frjálsum framlögum.

Lögverndarsjóður hefur þann háttinn á við styrkveitingar að ef mál vinnst fyrir dómi og gagnaðili er dæmdur til að greiða málskostnað þá endurgreiðir styrkþegi styrkinn til sjóðsins. Sama á við ef gagnaðili er dæmdur til að greiða skaðabætur, þá verði styrkurinn einnig endurgreiddur til sjóðsins.

Nánar má fræðast um sjóðinn á heimasíðu hans

 

 

Þrátt fyrir bága stöðu svartfuglastofna er veiðitímabil óvenju langt á Íslandi

Þrátt fyrir bága stöðu margra svartfuglastofna er veiðitímabil þessara tegunda á Íslandi óvenju langt samanborið við önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Þar fyrir utan hafa rannsóknir leitt í ljós að tímabilið nær inn á varptíma tegundanna og að veiðar undir lok veiðitímans hafa mun neikvæðari áhrif á stofnstærð en veiðar að hausti. Talsvert er um magnveiði, einkum vegna þess að svartfuglar eru eftirsóttir á sumum matsölustöðum.

Ef litið er til stöðu svartfugla á íslenskum válista sést að stuttnefja, lundi og teista lenda í hættuflokkum og langvía telst vera í yfirvofandi hættu. Einungis álka virðist vera tegund sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af í dag en hún var þó í yfirvofandi hættu fyrir fáeinum árum.

Breyta þarf lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum í samræmi við tillögu Náttúruverndarstofnunar, til að hægt sé að grípa til verndandi aðgerða þótt veiðar flokkist sem hlunnindaveiðar.

Nánar er hægt að lesa um hvers vegna er brýnt að stytta veiðtíma svarfugla og tillögur Náttúrustofu Austurlands og Náttúrustofu Norðausturlands þess efnis í minnisblaði sent Náttúverndarstofnun í janúar s.l.

 

Hér er fréttin á heimasíðu Náttúruverndarstofnunar

 

 

 

 

Vorverk í Vatnsmýrinni

Gott starf var unnið í Vatnsmýrinni í Reykjavík laugardaginn 5. apríl þegar sjálfboðaliðar Fuglaverndar mættu á staðinn og tíndu rusl og röðuðu greinum á bökkum tjarna og síkja. Greinarnar hefta rof á bökkunum og veita andarungum skjól.  Nokkrir félagar fundu fornmuni í síki og var í framhaldinu haft samband við borgarminjavörð og er þetta á könnu hans.

Tekið var gott hlé í hádeginu og snædd dýrirndis súpa í boði Plöntunnar, veitingastaðar Norræna hússins ásamt brauði og áleggi í boði Fuglaverndar. þátttakendur kynntu sig hver fyrir öðrum á meðan borðhaldi stóð og mikið var rabbað um fugla, votlendi og fornminjar.

Vorverk í Vatnsmýri er ekki einungis vinna heldur einnig vettvangur til að hitta aðra félaga fuglaverndar og fuglavini.

 

 

Heiðlóa með unga. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Svífðu til liðs við Fuglavernd

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Fuglavernd byggir afkomu sína að mestu leyti á félagsgjöldum og með aðild að félaginu færð þú m.a. áskrift að tímaritinu FUGLAR og frían aðgang að fræðslufundum og fuglaskoðunum á vegum félagsins.

Gakktu (svífðu) til liðs við Fuglavernd.

Hægt er að skrá sig í félagið af heimasíðu félagsins eða með tölvupósti í netfangið fuglavernd[hjá]fuglavernd.is

 

Tegundavernd

Með tegundavernd viljum við beina kastljósi að ábyrgðartegundum okkar Íslendina, stöðu tegunda á válista fugla sem er mat á hættu þeirra í útrýmingarhættu og til hvaða aðgerða við getum gripið til þess að vernda fuglategundirnar.

Búsvæðavernd 

Með vernd búsvæða er átt við búsvæði fugla, þar sem þeir finna sér stað til fæðuöflunar, hvíldar og varps. Fjölskrúðugt fuglalíf er einn besti mælikvarði sem hægt er að leggja á svæði, þá er víst að þar þrífst heilbrigt vistkerfi.

Garðfuglar 

Fólk kemst oft í mest návígi við fugla sem að heimsækja garða þess.   Fuglavernd heldur utanum árlega garðfuglakönnun sem hefst á fyrsta vetrardag og endar í krignum sumardaginn fyrsta. Aðrír tíðir gestri í görðum eru kettir og er Fuglavernd með fróðleik og ráðleggingar um hvernig er hægt að minnka veiðar katta.

Sjálfboðaliðar

Sjálfboðaliðar Fuglaverndar eru dýrmæt auðlind. Þegar margar hendur vinna verk er það létt verk. Árlega, í apríl, koma sjálfboðaliðar Fuglaverndar saman til að tína rusl og bæta aðkomu fugla í Vatnsmýrinni í kringum Norræna húsið.  Þessi dagur er ekki einungis vinna heldur líka vettvangur til að hitta aðra félaga og spjalla saman, um fugla auðvitað. Einnig leggja sjálfboðaliðar hönd á viðhalda mannvirkja í Friðlandi í Flóa.

Fuglavernd er náttúruvernd.