Rita. Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.

Aðalfundur Fuglaverndar 2021 og frestir vegna hans

Stefnt er að því að halda aðalfund Fuglaverndar fyrir starfsárið 2020 fimmtudaginn 15. apríl nk. Staður og stund verða nánar auglýst síðar.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar.
Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annað hvert ár gengur formaður úr stjórn. Í ár er sæti formanns laust og þrjú sæti í stjórn, en öll gefa kost á sér áfram. Sjá: Skrifstofa og stjórn.

Tillögum að breytingum á samþykktum félagsins þarf að skila inn fyrir 15. febrúar.  Sjá: lög og siðareglur félagsins.

Framboðum í stjórn og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti á netfang Fuglaverndar eða bréfleiðis til stjórnar.

Tölvupóstfang Ólafs Karls Nielsen formanns er okn@ni.is og félagsins fuglavernd@fuglavernd.is.

Dyrhólaós

Stefnir Ísland á að grafa skurði umhverfis jörðina?

Í dag 2. febrúar er Alþjóðlegi votlendisdagurinn eða World Wetlands Day

Þennan dag árið 1971, var undirritaður alþjóðasamningur um verndun alþjóðlega mikilvægra votlendissvæða, einkum fyrir fuglalíf, og er hann kenndur við  borgina Ramsar í Íran. Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að setja verndun mikilvægra votlendissvæða í öndvegi.

Votlendissvæði eru afar mikivæg búsvæði margra fuglategunda, en stórfelld röskun þeirra um alla jörð hefur skaðað fuglalíf og stuðlað að mikilli aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland á líklega heimsmet í röskun votlendissvæða en um 70% votlendis á láglendi hefur verið raskað. Við höfum grafið skurði sem telja um 33.000 km, sem samsvarar rúmlega 80% af vegalengdinni umhverfis jörðina um miðbaug.

Enn eru uppi áform um stórfellda röskun á votlendi og má þar nefna Dyrhólaós í Mýrdal sem fyrirhugað er að rýra með nýrri vegarlagningu. Dyrhólaós og umhverfi hans er á Náttúruminjaskrá (svæði 708) og þar eru einu sjávarleirurnar sem finnast á Suðurlandi og því mikilvægt búsvæði fugla.

Fuglavernd leggst eindregið gegn þessum áformum og lýsir áhyggjum af því að veglagningin geti haft varanleg skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn eins og m.a. er bent á í nýlegri umsögn Fuglaverndar um fyrirhugaða færslu þjóðvegar (1) um Dyrhólaós í Mýrdal. Fuglavernd hvetur stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum framkvæmdum og huga frekar að stækkun og friðlýsingu náttúruminjasvæðisins eins og Náttúrufræðistofnun hefur lagt til.

Á 50 ára afmæli Ramsarsamningsins er Ísland enn á þeim stað að meira er raskað af votlendi en nemur því sem er endurheimt. Með sama áframhaldi er hætt við að þess verði ekki langt að bíða að íslenskir skurðir muni samanlagt ná umhverfis jörðina.

Auðnutittlingur. @Eyþór Ingi Jónsson

Garðfuglahelgin 2021 – Streymisfundur á Zoom

Streymisfundur um framkvæmd Garðfuglatalningar

Fimmtudaginn 28. janúar kl. 17 verður boðið upp á streymisfund þar sem farið verður stuttlega yfir framkvæmd garðfuglatalningar á Garðfuglahelginni 2021. Nánari upplýsingar um Garðfuglahelgina 2021 má finna hér.

Smelltu á hlekkinn til að tengjast:

https://us02web.zoom.us/j/88943208660?pwd=VnROYmJmblRkT2YwWjZTbnF1OGM1QT09

Hægt verður að koma með skriflegar spurningar.

Allir velkomnir meðan Zoomrúm leyfir!

Hafnarhólmi apríl 2018

Aðalfundi 2020 frestað

Fyrirhuguðum aðalfundi Fuglaverndar hefur verið frestað um óákveðinn tíma, vegna frekari takmarkana á samkomubanni. Vonir standa til þess að hægt verði að finna nýja dagsetningu og auglýsa fundinn með löglegum fyrirvara, fyrir sumardaginn fyrsta, sem er þann 23. apríl 2020.

Samkvæmt lögum félagsins hefur aðalfundur æðsta vald í málefnum félagsins.  Hann skal halda fyrir sumardaginn fyrsta ár hvert og skal dagskrá hans vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
  2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 7. gr.
  4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
  5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
  6. Ákvörðun árgjalds.
  7. Önnur mál.
Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum – opinn fundur

Fulltrúar Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Starfandi umhverfisráðherra og tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar voru í hópnum.

Mánudagskvöldið 16. október héldu Fuglavernd, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands opinn fund í Norræna húsinu um stefnu stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum.

Fundinum var streypt á vef Norræna hússins og á samfélagsmiðlum náttúruverndarsamtakanna. Í umræðu voru notuð #umhverfismál og #kosningar2017.

Öllum framboðum bauðst að taka þátt í fundinum, en ekki komu fulltrúar frá Alþýðufylkingunni,  Dögun, Flokki fólksins eða Miðflokknum.

Á fundinum í Norræna húsinu var stóriðjustefnan endanlega slegin af. Viðreisn, Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og VG, allir sammála um að stóriðjan hefði sungið sitt síðasta. Flestir flokkar voru lýstu sig hlynnta stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Allir voru jákvæðir fyrir stofnun þjóðgarðs.

Hér má horfa á upptöku af fundinum frá því á mánudagskvöld.

 

Umhverfisþing 20. október

Skráning er hafin á X. Umhverfisþing sem haldið verður föstudaginn 20. október 2017 í Silfurbergi í Hörpu í Reykjavík. Að þessu sinni verða loftslagsmál í brennidepli þingsins.

Á þinginu verða flutt erindi um hinar margvíslegu hliðar loftslagsbreytinga,  áhrif þeirra á Ísland og hvernig best verður tekist á við þær breytingar sem fylgja hlýnun jarðar. Þinginu lýkur með pallborðsumræðum.

Heiðursgestur þingsins verður Monica Araya frá Costa Rica. Hún er doktor í umhverfisfræði og mikill frumkvöðull í heimalandi sínu í öllu er varðar sjálfbærni, þróun hreinnar tækni og vistvænna orkugjafa. Erindi hennar mun fjalla um möguleika lítilla ríkja á að vera í fararbroddi í loftslagsmálum.

Þingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir, en nauðsynlegt er að þátttakendur skrái sig eigi síðar en 18. október nk.

Hægt verður að fylgjast með Umhverfisþingi í beinni útsendingu á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Skráning á umhverfisþing

Vel heppnað málþing: Veitir válisti vernd?

Föstudaginn 22. september héldu Fuglavernd, Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands málþingið Veitir válisti vernd?

Á málþinginu voru flutt fjölmörg áhugaverð erindi, um válista almennt, lagalega stöðu hér á landi og á nágrannalöndunum og um þær fuglategundir sem hafa laka stöðu, bæði fargesti og staðbundnar tegundir.

Craig Hilton-Taylor yfirmaður válista hjá IUCN Alþjóða náttúruverndarsamtökunum var sérstakur gestur fundarins. Umhverfis- og auðlindaráðherra Björt Ólafsdóttir ávarpaði fundinn. Þá átti Craig einnig fund með starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar sem starfa að verð válista, fyrir fugla, plöntur og spendýr en sá válisti er í bígerð á Íslandi í fyrsta sinn.

Hér eru nokkrar svipmyndir frá fundinum, en upptökur af erindunum verða einnig aðgengilega á vefnum en eru enn í vinnslu.

 

Veitir válisti vernd? – Svipmyndir

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2017

Í ár fer Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fram laugardaginn 19. ágúst.

Að þessu sinni eru 22 hlauparar búnir að velja Fuglavernd sem það góðgerðarfélag sem hlýtur þau áheit sem þeir safna. Við hjá Fuglavernd kunnum þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Við viljum sýna hlaupurunum stuðning á móti og þakka fyrir okkur. Það er meðal annars hægt að gera gegnum vefinn hlaupastyrkur.is. Þar er hægt að senda hlaupurunum skilaboð og hvetja þá áfram. Einnig er hægt að heita á hlauparana og eru margar leiðir í boði, senda SMS skilaboð eða borga með kortum eða Kass appinu.

Öllum hlaupurum óskum við góðs gengis á laugardaginn, því mörg verðug málefni njóta góðs af.

Æðarfugl

Námskeið í fuglaljósmyndun

Fuglavernd stendur fyrir námskeiði í stafrænni fuglaljósmyndun dagana 19. – 21. maí 2017.

Markmiðið er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun; tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fleiri tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað.
Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Skráning og frekari upplýsingar má finna hér. 

Æðarfugl prýðir þessa frétt en ljósmyndina tók Sindri Skúlason.