Skurðir við Odda ERF svæði. Ljósmyndari RSPB Nick Williams

Hvar eru umhverfismálin í aðdraganda kosninga?

Ljósmyndin er eftir Nick Williams, starfsmann RSPB. Skurðir við Odda.

Á dögunum birti formaður Fuglaverndar, Menja von Schmalensee, grein í Heimildinni um umhverfismál og kosningar. Hér er hægt að lesa greinina.

Hvar eru umhverfismálin í aðdraganda kosninga?

Í aðdraganda kosninga er mikilvægt að stjórnmálaflokkar sendi kjósendum skýr skilaboð um afstöðu þeirra til aðkallandi mála fyrir land og þjóð, enda er það forsenda þess að áherslur lýðræðislega kjörinna fulltrúa endurspegli skoðanir kjósenda. Nú, þegar stutt er til kosninga, hefur helst borið á umræðu um efnahags-, húsnæðis-, heilbrigðis- og útlendingamál, en umhverfis- og náttúruverndarmál hefur lítið borið á góma. Það ætti þó ekki að hafa farið fram hjá neinum að umhverfismál og náttúruvernd eru mál málanna fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Síðustu aldir, en þó sérstaklega frá iðnvæðingu, hefur mannkynið gengið æ hraðar og með vaxandi offorsi fram gegn náttúrunni með skelfilegum afleiðingum og er nauðsynlegt að breyta um stefnu.

 

Nýlega kom út ein stærsta alþjóðlega, vísindalega úttekt sem gerð hefur verið á stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og þjónustu vistkerfa á heimsvísu [1] og fer þar ekki á milli mála að staðan er svört. Sjötíuogfimm prósent þurrlendis jarðar hefur verið verulega breytt af mönnum, 66% hafsvæða verður fyrir vaxandi neikvæðum áhrifum og meira en 85% votlendis jarðar hafa glatast. Athafnir manna valda því að tegundir deyja nú út að minnsta kosti 10-100 sinnum hraðar en sést hefur í jarðsögunni síðustu 10 milljón ár og mögulega stendur um ein milljón núlifandi tegunda frammi fyrir útdauða, margar þeirra á næstu áratugum, verði ekki gripið til verndandi aðgerða strax. Engu að síður vitum við að náttúran og heilbrigð vistkerfi eru undirstaða fyrir tilvist mannsins og lífsgæði okkar. Án þjónustu vistkerfa stæðum við frammi fyrir fæðuóöryggi, skorti á hreinu vatni og lofti, skertu niðurbroti úrgangsefna og tjóni á menningu svo eitthvað sé nefnt. Líffræðileg fjölbreytni á heimsvísu má segja að sé nokkurs konar mælikvarði á heilbrigði náttúrunnar. Stærstu ógnum við hana vegna athafna manna hefur verið skipt í fimm meginflokka: 1) Eyðing náttúrulegra búsvæða og breytt landnotkun, 2) Framandi ágengar tegundir, 3) Ósjálfbær nýting auðlinda, 4) Mengun og 5) Hamfarahlýnun [1].

 

Íslensk náttúra hefur síður en svo farið varhluta af þessari neikvæðu þróun, en fyrir tilstilli mannsins, beint og óbeint, hefur að minnsta kosti 55–75% votlendis á láglendi Íslands verið ræst fram og rúmlega helmingur gróðurþekjunnar og 95% af birkiskógum eyðst frá landnámi. Um 45% þeirra fuglategunda sem hafa verið metnar hérlendis (41 af 91) eru á íslenskum válista, sem þýðir að þeir eru útdauðir eða eiga á hættu á að deyja út vegna fækkunar [2]. Ísland fullgilti alþjóðlega samninginn um vernd líffræðilegrar fjölbreytni árið 1994, þ.e. fyrir þremur áratugum, en enn vantar heilmikið upp á að hérlendis sé vernd líffræðilegrar fjölbreytni höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Það verður dagljóst þegar staða mála á Íslandi er skoðuð með tilliti til fimm stærstu ógnanna við líffræðilega fjölbreytni:

 

Eyðing náttúrulegra búsvæða og breytt landnotkun

Maðurinn eyðir náttúrulegum búsvæðum með ýmsu móti. Þar vegur þungt breyting náttúrulegra svæða í ýmiss konar ræktar- og beitiland, en mannvirki vegna samgangna, húsbygginga, orkuframleiðslu og -flutnings eru einnig dæmi um plássfreka starfsemi sem gengur í auknum mæli á náttúruleg svæði.

 

Ein leið til að hægja á eða koma í veg fyrir þessa þróun er að skilgreina vistgerðir og landsvæði sem ekki má skemma. Er það oft gert með friðun svæða eða með því að veita þeim annars konar vernd samkvæmt lögum. Mjög fá svæði hérlendis njóta þó raunverulegrar friðunar eða verndar vegna lífríkis, og illa hefur gengið að fjölga þeim. Nefna má að ekki er enn búið að samþykkja á Alþingi tillögur Náttúrufræðistofnunar um svæði á B-hluta náttúruminjaskrár, þótt slíkar tillögur hafi verið settar fram 2018. Samkvæmt 13. gr. laga um náttúruvernd (nr. 60/2013) skal umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra gefa út náttúruminjaskrá eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Núgildandi náttúruminjaskrá er hins vegar frá árinu 1996 og unnin á grundvelli þágildandi náttúruverndarlaga nr. 47 frá árinu 1971. Þá hefur Ísland staðið sig með eindæmum illa í að koma mikilvægum votlendissvæðum á Ramsarskrána. Einungis 6 svæði hérlendis er að finna þar, en til samanburðar má nefna að 43 slík svæði er að finna í Danmörku (þar af 11 á Grænlandi og 3 á Færeyjum). Þó er ljóst að fjöldinn allur af svæðum hérlendis á fullt erindi á Ramsarskrána, þótt þau séu ekki þar í dag. Þá vekur athygli að svæði sem skilgreind hafa verið sem alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði samkvæmt kortlagningu Náttúrufræðistofnunar, sem og vistgerðir sem hafa hátt eða mjög hátt verndargildi samkvæmt Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (sem Ísland fullgilti 1993), virðast almennt ekki njóta neinnar sérstakrar verndunar hérlendis. Til dæmis gerir frumvarp um nýtingu vindorku, sem lagt var fram af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á núverandi þingi, ráð fyrir að leyfilegt gæti verið að byggja upp vindorkuver innan marka mikilvægra fuglasvæða. Eins virðist fátt hafa getað komið í veg fyrir eyðileggingu vistgerða sem hafa hátt verndargildi þegar varplönd fugla voru plægð upp á varptíma nærri Húsavík síðasta sumar í þeim tilgangi að rækta þar framandi tré. Lengi mætti tína til sams konar dæmi [3].

 

Almennt hafa þau svæði sem þó eru friðuð hérlendis fengið friðun vegna einhvers konar fágætis, en lítið er um að svæði séu raunverulega friðuð eða vernduð vegna mikilvægis þeirra í vistfræðilegum ferlum eða vegna ábyrgðar Íslands í alþjóðlegu samhengi. Tilraun var gerð til að vernda sum slík vistkerfi í náttúruverndarlögum, en samkvæmt þeim (61. gr.) njóta votlendi (20.000 m2 að flatarmáli eða stærri), stöðuvötn (1.000 m2 að flatarmáli eða stærri), sjávarfitjar, leirur og sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar sérstakrar verndar. Þessi grein virðist þó hafa haft takmarkað vægi, þar sem enn er gengið á þessar vistgerðir með óafturkræfum hætti án eftirmála. Til dæmis er enn meira votlendi framræst en endurheimt hér á landi [4] og lítið sem ekkert virðist koma í veg fyrir að firðir séu þveraðir með vegfyllingum að stærstum hluta, fyllt sé upp í leirur eða vegir lagðir og sumarhús byggð í birkiskógum. Í þokkabót hefur komið í ljós að stærðarmörk votlendis sem njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum eru allt of há, því lítil votlendissvæði geta verið mjög mikilvæg fyrir fuglalíf [5].

 

Ljóst er að mikil ásókn mun verða í óbyggt land með náttúrulegum búsvæðum hérlendis á næstu árum og áratugum. Stefnt er að aukinni ræktun ýmissa nytjaplantna og í nafni grænna orkuskipta er þrýst fast á að koma hér upp fjölda vindorkuvera, auk þess sem ræktun skóga til bindingar kolefnis virðist vera orðin arðsöm og eftirsótt starfsemi þótt óvíst sé um heildaráhrif þeirra. Eru þetta allt mjög plássfrek umsvif. Þá mun þensla byggðar, fjölgun sumarhúsa og bætt samgöngukerfi án efa taka til sín óraskað land að auki. Hér er því mikilvægt að staldra við. Vanda þarf til verka svo ekki sé gengið um of á mikilvæg vistkerfi og hafa verður í huga að starfsemin skerði ekki líffræðilega fjölbreytni. Nauðsynlegt er að taka strax frá svæði sem við viljum vernda fyrir umsvifum mannsins, því ekki gerum við það eftir á.

 

Framandi ágengar tegundir

Með framandi lífveru er átt við tegund eða stofn sem maðurinn hefur, viljandi eða óviljandi, flutt út fyrir sitt náttúrulega útbreiðslusvæði inn á nýtt svæði sem ólíklegt verður að teljast að tegundin hefði getað numið af sjálfsdáðum. Í einhverjum tilfellum dreifir tegund úr sér í nýjum heimshluta af sjálfsdáðum eftir að hafa verið flutt þangað, en telst þó enn framandi. Sumar framandi tegundir, sem náð hafa bólfestu í nýjum heimkynnum, valda tjóni á náttúrulegum tegundum (þ.e. tegundum sem þróast hafa á viðkomandi stað eða hafa komist þangað með náttúrulegum leiðum), náttúrulegum vistkerfum, fjárhagslegu tjóni eða ógna heilsufari manna og teljast þá ágengar.

 

Tilgangur þess að aðgreina framandi tegundir frá náttúrulegum er ekki að flokka tegundir í góðar og slæmar tegundir, heldur fer slík flokkun fram til að aðgreina umsvif manna frá náttúrulegum ferlum. Hafa þarf í huga að nútíma náttúruvernd snýst um að minnka áhrif mannsins á náttúruna. Að hætta að skipta okkur af náttúrulegum ferlum og þykjast vita betur. Að leyfa náttúrunni að þróast eftir eigin leiðum. Flutningur tegunda milli staða, þ.e. af svæðum sem þær þróuðust á, yfir langan tíma, inn á svæði sem þær koma ekki fyrir náttúrulega, ruglar í náttúrulegum ferlum og kerfum svo um munar.

 

Á heimsvísu er nú að finna meira en 37.000 tegundir utan náttúrulegra heimkynna vegna umsvifa mannsins, og meira en 3.500 (tæp 10%) þeirra teljast ágengar. Síðustu aldir hafa ágengar tegundir átt hlutdeild í 60% af útdauða tegunda, t.d. vegna samkeppni og afráns. Neikvæð áhrif á náttúru og fjárhagslegur kostnaður vegna þeirra eykst ár frá ári, enda er stöðug aukning á flutningi varnings og fólks á milli staða, sem veldur samsvarandi aukningu í flutningi tegunda. Auk þess fara stofnar framandi tegunda í einhverjum tilfellum stækkandi í nýjum heimkynnum og valda þá tjóni þótt þeir hafi ekki gert það áður. Þekkt dæmi um ágengar tegundir hér á landi eru minkur, alaskalúpína og skógarkerfill [6].

 

Skemmst er frá því að segja að málefni framandi, ágengra tegunda hér á landi eru í algjörum ólestri! Okkur vantar tilfinnanlega skýra opinbera stefnumótun, sem tekur sérstaklega til framandi tegunda. Hér er ekki að finna opinberan, uppfærðan lista yfir framandi ágengar og mögulega ágengar tegundir sem hafa numið land eða eru líklegar til að berast hingað. Slíkur listi verður að byggja á faglegu og vísindalegu áhrifa- og áhættumati sérfræðinga. Í því sambandi má benda á að Evrópusambandið hefur gefið út leiðbeiningar um áhættumat vegna framandi tegunda í sérstakri reglugerð og margar vísindalegar ritrýndar aðferðir eru til sem hægt er að notast við. Þessi listi má ekki vera pólitískur eða háður geðþótta hagaðila, heldur verður að byggja á gögnum, þar á meðal reynslu annarra þjóða. Hér á landi hefur engin ein stofnun þekkingu eða gögn til að gera þetta fyrir allar tegundir og því er samstarf vísindamanna á milli stofnana mjög mikilvægt. Þá er hér heldur ekki að finna neina aðgerðaáætlun varðandi framandi ágengar tegundir, en svoleiðis áætlun ætti að taka til atriða eins og hvernig skuli koma í veg fyrir að nýjar tegundir berist hingað og hvað eigi að gera til að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra ágengu tegunda sem hér er nú þegar að finna. Þá skortir sárlega viðbragðsáætlun, þ.e. hvernig á að bregðast við ef vart verður við nýja tegund, sem mögulegt er að gæti orðið ágeng. Hafa verður í huga að snemmbúnar aðgerðir eru árangursríkastar og ódýrastar. Eftirfylgni eftir að vart verður við nýja framandi tegund er engin, vöktun á framandi ágengum tegundum þarf að stórbæta hér á landi og hérlendis hefur aldrei verið ráðist í mótvægisaðgerðir vegna ágengra tegunda, þ.e.a.s. aðgerðir sem stutt gætu við þær tegundir sem verða fyrir tjóni vegna ágengra tegunda [7].

 

Þá er lagaumhverfið okkar er varðar framandi tegundir allt of veikt. Í XI. kafla náttúruverndarlaga er fjallað um framandi lífverur. Samkvæmt lögunum er óheimilt er að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Hins vegar er áhugavert að skoða 65. grein laganna um aðgæsluskyldu vegna framandi lífvera. Þar kemur fram að:

 

Sá sem ber ábyrgð á innflutningi lifandi framandi lífvera sem ekki er ætlað að dreifa skal gæta sérstakrar varúðar og grípa til allra þeirra ráðstafana sem sanngjarnt verður talið svo koma megi í veg fyrir að lífverurnar sleppi og dreifist.

 Sá sem ber ábyrgð á dreifingu lifandi lífvera skal gæta sérstakrar varúðar til að koma í veg fyrir að dreifingin dragi úr líffræðilegri fjölbreytni lífríkisins sem fyrir er.

 Sá sem stundar starfsemi sem getur haft í för með sér að til landsins berist óviljandi lifandi framandi lífverur, eða að þær dreifist út í náttúruna, skal grípa til ráðstafana sem sanngjarnt er að ætlast til í því skyni að koma í veg fyrir innflutning þeirra og dreifingu.“ (feitletrun höfundar).

 

Það má spyrja sig hvað átt sé nákvæmlega við með „sanngjörnum ráðstöfunum“ og „sérstakri varúð“. Þekkt er að minkar sleppi reglulega úr minkabúum og laxfiskar úr lagareldi. Landeigendur gróðursetja framandi plöntutegundir í miklum mæli út í íslenska náttúru og dreifa þar með framandi lífverum og gera fáir athugasemdir við það. Ekki er að sjá að aðilar sem stunda starfsemi þar sem lífverur gætu flust hingað fyrir slysni grípi til teljandi ráðstafana til að hindra að það gerist. Til hvaða ráðstafana gripu t.d. Running Tide þegar tugþúsundir tonna af trjákurli voru flutt til Íslands frá Kanada [8] eða verksmiðjur PCC á Bakka eða Elkem á Grundartanga, sem flytja hingað við í tugþúsundum tonna á hverju ári til brennslu? Þótt leitast sé við að flytja viðinn inn án barkar er enn mikil áhætta af slíkum innflutningi þegar magnið er svona mikið. Hvað gera fyrirtæki sem flytja inn mold og plöntur í pottum? Hvað gera fyrirtæki sem flytja inn ávexti og grænmeti? Hvernig koma allir þessir aðilar í veg fyrir að flutningnum fylgi óvart smádýr, sveppir og örverur? Ljóst er að þeir gera ekki nóg, sem endurspeglast í að ýmis skaðleg smádýr hafa borist hingað á allra síðustu árum, svo sem birkikemba og birkiþéla, sem valdið geta miklu tjóni á birki, og lúsmý, sem herjað hefur á landann. Allar líkur eru á því að þessar tegundir hafi borist hingað vegna starfsemi manna og eru þetta því dæmi um framandi ágengar tegundir. Þá hefur reglugerð um kjölfestuvatn skipa, sem sett var 2010, ekki verið fylgt eftir og talsvert af nýjum framandi tegundum í sjó hefur fundist við Ísland síðustu ár [9]. Óvíst er um áhrif þeirra á aðrar tegundir, en fyrir fiskveiðiþjóð er til mikils að vinna að tryggja heilbrigði strandvistkerfa með því að hindra að hingað berist ágengar sjávartegundir. Síðast en ekki síst hafa íslenskir vistfræðingar miklar áhyggjur af stórtækri notkun framandi trjátegunda í skógrækt en sumar þeirra, eins og stafafura og sitkagreni, hafa reynst ágengar í nágrannalöndum okkar og víðar, þar sem þær dreifa mikið úr sér og valda tjóni á náttúrulegum búsvæðum [10].

 

Athygli vekur að Ísland hefur staðið sig með eindæmum vel í að hindra að hingað berist sjúkdómar sem lagst geta á bústofn og gæludýr. Þessi metnaður þarf líka að ná til náttúrunnar. Mikið andvaraleysi ríkir hérlendis gagnvart framandi ágengum tegundir og úr því þarf að bæta.

 

Ósjálfbær nýting auðlinda

Ósjálfbær nýting auðlinda getur tekið á sig margar myndir. Hér er mikilvægt að hafa í huga að náttúruleg auðlind er aldrei til í tómarúmi, sama hvort hún er á lífrænu formi (t.d. dýr eða plöntur) eða ólífrænu (t.d. vatn eða jarðefni). Dýr og plöntur eru ávallt hluti af stærri heild og eiga í flóknu samspili við aðrar lífverur í vistkerfum. Þá er ólífræn auðlind eins og vatn undirstaða alls kyns ferla í líf- og vistkerfum. Þegar við mennirnir nýtum okkur náttúrulega auðlind, eins og fisk úr sjó, er vistkerfisnálgun því forsenda ábyrgrar stýringar auðlindarinnar. Þetta þýðir að ekki er einungis hægt að líta til þess hvort viðkomandi auðlind nái að endurnýja sig til að nýting sé sjálfbær, heldur má nýting einnar tegundar ekki hafa varanleg neikvæð áhrif á aðrar tegundir.

 

Ísland hefur lengi státað sig af ábyrgri fiskveiðistjórnun og vissulega stöndum við okkur betur en flestar aðrar þjóðir í þeim efnum. Vistkerfisnálgun verður þó að beita í meira mæli en nú er gert, en til dæmis drukknar mikill fjöldi fugla og sjávarspendýra á hverju ári í fiskinetum, og eigi fiskveiðar að vera sannarlega sjálfbærar verður að finna leiðir til að minnka meðafla [2]. Skilningur fyrir sjálfbærri nýtingu annarra tegunda en fiska hefur stundum verið ábótavant. Gott dæmi um þetta eru fuglaveiðar á Íslandi, þar sem lengi hefur tíðkast að leyfa veiðar úr stofnum sem sýna langvarandi neikvæða stofntilhneigingu og eru á íslenskum válista, þótt slíkar veiðar séu í raun í andstöðu við 7. gr. gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994), sem segir að „Ákvörðun um að aflétta friðun samkvæmt lögum þessum skal byggjast á því að viðkoma stofns sé nægileg til þess að vega upp á móti afföllum vegna veiða“. Raunar er staðan sú að veiðar eru leyfðar á 14 (!) fuglategundum sem sýnt hafa neikvæða stofnþróun síðustu ár og eru á válista [11]. Áhyggjuraddir og athugasemdir við núverandi veiðifyrirkomulag hafa ekki skilað sér í breytingum. Til dæmis fór fram veigamikil vinna nefndar umhverfisráðherra á árunum 2010-2013 sem tók til skoðunar lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fjölmargar úrbætur þyrfti að gera á íslensku regluverki varðandi þennan málaflokk og skilaði fjölda tillagna í 350 blaðsíðna skýrslu, sem átti að mynda undirstöðu að nýjum lögum um vernd, velferð og veiðar [2]. Nú, 11 árum síðar, bólar enn ekkert á nýjum lögum. Lítið er hlustað á náttúruverndarsamtök þegar kemur að fuglaveiðum. Til dæmis gerði Fuglavernd skriflegar athugasemdir við sjálfbærniforsendur nýs fyrirkomulags rjúpnaveiða, sem lítið var tekið tillit til, en núverandi veiðistjórnunarfyrirkomulag er einnar tegundar nálgun, sem m.a. lítur ekkert til neikvæðra afleiðinga rjúpnaveiða fyrir fálkann [12].

 

Hvalveiðar Íslendinga eru annað dæmi um veiðar sem sennilega væru metnar ósjálfbærar ef vistkerfisnálgun væri beitt, en vistfræðingar hafa margoft bent á mikilvægi hvala í hringrás næringarefna í hafinu og þar með mikilvægi þeirra fyrir vistferla hafsins og aðrar tegundir sem þar lifa [13]. Þá má einnig setja spurningarmerki við sjálfbærni æðarræktar hérlendis, sem vissulega er sjálfbær sé einungis litið til æðarfuglsins, en er það engan veginn ef tekið er tillit til dráps á öðrum náttúrulegum tegundum (aðrar tegundir en minkur) í þeim tilgangi að vernda æðarvörp gegn afráni. Nær allar þær fuglategundir sem drepnar eru hérlendis vegna hagsmuna æðarræktar eru á válista [14]. Loks má nefna að lagaleg staða sjávarspendýra er í algjörum ólestri hér á landi. Hvalir og selir hafa orðið leiksoppur pólitískra átaka til margra ára og er til að mynda óásættanlegt að skilgreind markmið stofnstjórnunar landsels og útsels taki mið af óeðlilega lágum stofnstærðum, sem voru afleiðing mikilla ofsókna gegn selum [2].

 

Mikilvægt er að bæta til muna stöðu fjölmargra tegunda hérlendis sem annað hvort eru nýttar sjálfar á ósjálfbæran hátt eða verða óbeint fyrir neikvæðum áhrifum vegna nýtingar annarra tegunda.

 

Mengun

Mengun er ótrúlega víðfeðmt hugtak og getur tekið til örvera, efna og efnasambanda, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar, varmaflæðis og ýmissa annarra eðlisfræðilegra þátta svo eitthvað sé nefnt, sem valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings eða spilla lofti, láði eða legi og valda þannig röskun lífríkis.

 

Íslendingar eru fámenn þjóð í fremur stóru landi, sem umkringt er úthafi með miklum vindi og straumum. Það hefur minnkað mjög sýnileika mengunar. Í gegnum tíðina hefur þetta mögulega stuðlað að óheilbrigðum viðhorfum til umhverfisins, líkt og endurspeglast í orðatiltækinu „lengi tekur sjórinn við“, sem algengt var að heyra á árum áður. Hvert og eitt okkar mengar þó alls ekki minna en íbúar annarra landa og þótt einhverjar framfarir hafi orðið í mengunarmálum hérlendis síðustu ár, má enn finna fjölmörg dæmi um mengandi starfsemi sem þarf að laga. Hér eru nefnd nokkur dæmi.

 

Fráveitumál eru víða í ólestri og er það svo að einungis tvö (Borgarnes og Dalvík) af þeim þéttbýlum landsins sem losa meira en 2.000 persónueiningar uppfylla reglugerð sem verið hefur í gildi í aldarfjórðung (reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp) [15]. Málaflokkurinn hefur ekki verið í forgangi, auk þess sem kostnaður við úrbætur er mikill í hlutfalli við stærð og tekjur margra sveitarfélaga. Á meðan ástandið er svona, þá fer skólp víðast hvar ómeðhöndlað út í náttúruna. Saurmengun getur valdið skaða, þar á meðal sýkingum í fólki og dýrum, og ýmis manngerð efni sem berast viljandi eða óviljandi í frárennsliskerfin valda skaða í viðtakanum (sjó eða stöðuvatni). Þetta eru t.d. eiturefni, málning, lyfjaleifar og örplast. Í einhverjum tilfellum er um að ræða þrávirk efni sem safnast upp í fæðukeðjum og raska hormóna- og ónæmiskerfi dýra (þar á meðal manna). Grófhreinsun (síun), sem er ríkjandi aðferð við meðhöndlun skólps þar sem hún er einhver, tekur aðeins hluta af þessum efnum úr skólpinu og er skref í rétta átt, en betur má ef duga skal.

 

Plastmengun er gríðarlegt vandamál á heimsvísu. Þótt það sé ekki jafn sýnilegt hér á landi og sums staðar erlendis, þar sem þéttbýli er meira og innviðum ábótavant, þá er plastmengun talsvert vandamál hér. Á það sérstaklega við um úrgang frá sjávarútvegi, þar á meðal veiðarfæri og ílát, sem þekja sums staðar fjörur. Þekkt er að veiðarfæri sem fallið hafa í sjóinn geta haldið áfram að drepa sjávardýr í langan tíma og algengt er að finna plast í mögum sjávarlífvera við Ísland með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á þær. Nota þarf hvata, eftirlit og sektir til að fá útgerðir til að gera betur í þessum málum.

 

Þrátt fyrir að flokkun sorps hafi aukist síðustu ár er urðun enn þau örlög sem alltof stór hluti sorpsins okkar hlýtur. Urðun er landfrek sóun auðlinda, sem auk þess veldur mengun vegna leka mengunarefna út í umhverfið og þess að plast fýkur. Nauðsynlegt er að breyta neyslu okkar mannanna í hringrásarhagkerfi [16], en það gerist ekki sjálfkrafa. Þörf er fyrir mikið og samstillt átak, ásamt aðhaldi hins opinbera í garð framleiðanda og innflytjenda varnings, til að tryggja að vörur verði að fullu endurnýtanlegar.

 

Loks má nefna að fiskeldi er mjög ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi en þeirri starfsemi getur fylgt talsverð mengun. Í kringum og undir fiskeldiskvíum getur orðið lífræn mengun og eitur gegn laxalús berst út í umhverfið, hefur þar eituráhrif og drepur náttúruleg krabbadýr. Einnig má nefna að erfðamengun, þ.e. að eldislaxar sleppa og æxlast við náttúrulega stofna og breyta þar með erfðasamsetningu þeirra, er mikill áhættuþáttur vegna fiskeldis. Bæta þarf regluverk varðandi lagareldi og setja slíkri starfsemi skýr mörk.

 

Af þessum dæmum sést að mikilvægt er að gefa mengun aukinn gaum hérlendis!

 

Hamfarahlýnun

Varla þarf að útskýra hvað átt er við með hamfarahlýnun, sem áður var kölluð loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þetta er sú umhverfisvá sem fengið hefur hvað mesta umfjöllun síðustu ár, sennilega á kostnað umfjöllunar um hinar fjórar ógnirnar sem hér hefur verið greint frá. Hamfarahlýnun hefur þegar valdið einhverjum breytingum á lífríki og lífsgæðum fólks víða um heim, en mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að sú slæma staða náttúrunnar sem við sjáum í dag er fyrst og fremst til komin vegna hinna ógnanna fjögurra, enda hefur áhrifa þeirra gætt lengur. Áhrif hamfarahlýnunar munu þó margfaldast á komandi árum og áratugum og valda grundvallarbreytingum á lífríki, veðurfari og lífsháttum manna [17].

 

Við höfum tækifæri til að hægja á eða stöðva hamfarahlýnun með því að breyta verulega lífsháttum okkar og draga úr losun koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpinn, en samhengi aukins styrks þeirra og loftslags hefur lengi verið þekkt. Því lengur sem við bíðum með slíkar breytingar, því dýrari verða þær okkur og öllu lífi á jörðinni. Þrátt fyrir það hafa ríki heims brugðist afar seint og illa við ógninni. Ísland er þar engin undantekning [18]. Þrátt fyrir að hérlendis sé notaður jarðhiti og vatnsafl til húshitunar og rafmagnsframleiðslu er hlutfallslegt kolefnisspor Íslendinga með því hæsta á meðal þjóða heimsins [19]. Staða landsins í miðju Atlantshafinu, alltof mikil neysla okkar og slæmt ástand jarðvegs og gróðurs í landinu eru helstu skýringar þessa.

 

Sumarið 2024 kom fram uppfærð aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum [20]. Þar má finna fjöldann allan af aðgerðum en loftslagsáhrif flestra þeirra hafa þó ekki enn verið metin og stór hluti aðgerðanna er enn á hugmyndastigi. Markmið Íslands um samdrátt í losun fylgja sameiginlegu markmiði ESB og Noregs um 55% samdrátt losunar árið 2030 miðað við árið 1990 og jafnframt er stefnt á að kolefnishlutleysi (jafnvægi losunar og bindingar) verði náð árið 2040 [21]. Þetta eru göfug markmið en þó hafa verið færð góð rök fyrir því að Íslendingar og aðrir Vesturlandabúar beri meiri ábyrgð á stöðunni en aðrir jarðarbúar og hafi auk þess meiri getu til breytinga. Þeir ættu því að taka á sig mun meiri samdrátt í losun en aðrir [22]. Fátt bendir þó til að Ísland nái markmiðum sínum um 55% samdrátt frá 1990 á þessum áratug, ekki síst í ljósi þess að miðað við gögn frá 2022 hefur losunin ekki minnkað heldur aukist um 9% frá 1990. Það er reyndar ekki einsdæmi því losun eykst enn á alþjóðavísu [23]. Losunarmarkmið nást aðeins með kerfisbreytingum á mjög stuttum tíma og tryggja þarf meiri og mun hraðari fjármögnun aðgerðanna sem aðgerðaáætlunin fjallar um.

 

Grundvallaratriði þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum er að þær valdi ekki meira tjóni á náttúru en þeim er ætlað að koma í veg fyrir, enda er tilgangur loftslagsaðgerða einmitt að stórum hluta að fyrirbyggja náttúruspjöll. Því verður alltaf að skoða gaumgæfilega hvort áform um kolefnisbindingu eða orkuskipti hafi neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, og aðlaga aðgerðir að því að standa vörð um náttúruleg vistkerfi og tegundir. Áform um vindorkuver innan eða nærri alþjóðlega mikilvægum fuglasvæðum hérlendis og eyðilegging gróðurlenda með vistgerðum sem hafa hátt verndargildi og eru mikilvæg varplönd fugla í þeim tilgangi að rækta þar framandi trjátegundir í nafni kolefnisbindingar, eru því dæmi um aðgerðir sem ganga í raun gegn markmiðum sínum. Mikil ringulreið og upplýsingaóreiða ríkir í augnablikinu hér á landi hvað þetta varðar og er gríðarlega brýnt að taka hið fyrsta upp ábyrgt og faglegt vottunarkerfi fyrir kolefniseiningar, sem tekur mið af neikvæðum áhrifum á náttúru. Lífríki Íslands og jarðar má einfaldlega ekki við öðru en að hér verði vandað til verka.

 

Hvað er til ráða?

Eins og hér hefur verið rakið þarf hérlendis að grípa til fjölmargra veigamikilla og afar brýnna aðgerða í umhverfismálum og náttúruvernd. Nauðsynlegt er að setja þessi mál á oddinn í komandi kosningum og í aðgerðum stjórnvalda næstu árin. Þegar umhverfismálin eru skoðuð í stóru samhengi er ljóst að Ísland stendur sig alls ekki nógu vel og tal um „gullhúðun“ er útúrsnúningur og afvegaleiðing umræðunnar.

Brýnt er að endurskoða lagaumhverfið okkar og stjórnsýslu til að ná betur utan um alla þá þætti sem hér hefur verið fjallað um. Bæta þarf fræðslu um náttúru og umhverfi í skólum og til almennings. Styrkja þarf verkefni sem stuðla að umhverfis- og náttúruvernd sem og stofnanir og samtök sem starfa á þessu sviði. Fylgja þarf alþjóðlegri stefnu og áætlun þegar kemur að vernd náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni [24].

Ég hvet eindregið alla flokka til þess að kynna sér vel málin og setja umhverfismál og náttúruvernd í stefnuskrár sínar með skýrum hætti. Þetta málefni snertir framtíð okkar allra og afkomenda okkar og ætti ekki að vera notað sem pólitískt bitbein. Ef stjórnmálaflokki hugnast það ekki, ætti hann að gefa út með skýrum hætti hvar hann stendur varðandi þessar fimm meginógnir við náttúruna, svo kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun í kjörklefanum.

 

Gerum betur. Kjósum með náttúrunni.

 

Menja von Schmalensee

Höfundur er líffræðingur, sviðsstjóri á Náttúrustofu Vesturlands (www.nsv.is) og formaður Fuglaverndar (www.fuglavernd.is)

 

Ítarefni:

[1] https://www.ipbes.net/global-assessment. Sjá einnig: https://www.livingplanetindex.org/latest_results.

[2] https://nsv.is/wp-content/uploads/2021/04/2013_Vernd-velferd-og-veidar-LOKA-8-mai-2013.pdf og https://www.ni.is/is/midlun/utgafa/valistar/fuglar/valisti-fugla.

[3] https://nsv.is/wp-content/uploads/2024/09/2024_Vindorkufrumvarp-Fuglar_14.pdf og https://www.facebook.com/menja.vonschmalensee/posts/pfbid02BQqPFe2Th33XmGDdoNFRUiodKLuNokNDcjxS2zkp6b1FZUHvp2whg2GoReWKkWKql.

[4] Land og skógur, munnleg heimild.

[5] https://skemman.is/handle/1946/46279.

[6] https://www.ipbes.net/ias og https://nsv.is/wp-content/uploads/2021/05/2010_Vagestir_i_vistkerfum_I_NF80_15-26_FINAL.pdf.

[7] https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0301479722019478#.

[8] https://heimildin.is/grein/22132/sokktu-kurli-og-seldu-syndaaflausn/.

[9] https://www.natturustofa.is/framandi_sjavarlifverur.html.

[10] https://natturuvinir.is/greinar/.

[11] https://nsv.is/wp-content/uploads/2021/04/2015_Lagavernd-fugla-Menja-Fuglar10.pdf.

[12] https://fuglavernd.is/wp-content/uploads/2024/01/2023_Veidistjornun-rjupu-afstada-Fuglaverndar.pdf.

[13] https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/Hvalir%20%c3%ad%20vistkerfi%20hafsins%20vi%c3%b0%20%c3%8dsland%20-%20sk%c3%bdrsla%20-%20Loka-25.06.2023.pdf og https://www.visir.is/g/20232456770d/afskraemd-umfjollun-um-ahrif-hvala-i-tengslum-vid-loftslagsmalin.

[14] https://nsv.is/wp-content/uploads/2022/01/Fuglar13-Ranfugl.pdf.

[15] https://ust.is/library/sida/haf-og-vatn/Stoduskyrsla_fraveitumala_2022_2.pdf.

[16] https://ust.is/hringrasarhagkerfi/graenn-lifstill/hringrasarhagkerfid/ og https://www.stjornarradid.is/verkefni/umhverfi-og-natturuvernd/hringrasarhagkerfi/.

[17] https://www.ipcc.ch/reports/.

[18] https://loftslagsrad.is/.

[19] https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0959652617318267 og https://skemman.is/handle/1946/42866.

[20] https://www.co2.is/.

[21] https://www.co2.is/ og https://ust.is/loft/losun-grodurhusalofttegunda/stada-losunar-a-islandi-2022/.

[22] https://skemman.is/handle/1946/44518.

[23] https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-10-31-styrkur-koldioxids-i-lofthjup-jardar-eykst-enn-og-hradar-en-nokkru-sinni-fyrr-426177.

[24] https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2024/09/Liffraedileg-fjolbreytni.pdf

Lundi. Ljósm. Jóhann Óli Hilmarsson

Samantekt frá BirdLife Europe um stöðu sjófugla í Evrópu

Brynja Davíðsdóttir, starfsmaður hjá Fuglavernd tók saman.

Í sumar kom út samantekt frá BirdLife Europe um stöðu sjófugla í Evrópu, sem nálgast má hér: https://www.birdlife.org/wp-content/uploads/2024/07/Seabird_Report-2024-July_-Final-Digital-Spreads-compressed.pdf Árið 2021 mat BirdLife International stöðu evrópskra varpfugla og vetrargesta á válista og uppfærði fyrir árabilið 2013-2018. Helstu niðurstöður eru þær að meðal sjófugla, anda og gæsa, vaðfugla og ránfugla, eru hlutfallslega flestar tegundir metnar í hættuflokkunum, í bráðri hættu (CR), í hættu (EN), í nokkurri hættu (VU) eða í yfirvofandi hættu (NT) en miðað var við hættuflokka Alþjóða náttúruverndarsambandsins (IUCN). 

Helstu ógnir sem steðja að sjófuglastofnum eru meðafli í veiðarfærum, ofveiði fiskitegunda, ágengar innfluttar tegundir, veiði, mengun, hnattræn hlýnun, orkumannvirki og fuglaflensa. Margar tegundir þurfa að kljást við flestar af þessum ógnum samtímis. Að að auki hafa bæst við nýlegri ógnir svo sem plastmengun í hafi og bein truflun af mannavöldum vegna frístundaiðkunar og náttúruferðamennsku. Þá eru stórfelld áform um byggingu víðfeðmra vindmyllugarða bein ógn ef ekki verður gætt sérstaklega vel að því að finna og hlífa svæðum sem eru mikilvæg fyrir sjófugla á einn eða annan hátt.

 Evrópskir sjófuglar telja einn fjórða allra sjófuglategunda í heiminum en stofnmat þeirra veldur áhyggjum því 32% evróskra sjófuglategunda eru í hættuflokkum. 

Kjói (Stercorarius parasiticus) og æðarfugl (Somateria mollissima) hafa verið færð upp um hættuflokk því kjói hefur sýnt mjög bratt fall í stofnstærð innan Evrópu og er líklegt að sú þróun haldi áfram í nánustu framtíð og gert er ráð fyrir að hnignun æðarstofnsins verði yfir 50% í náinni framtíð (77% evrópska æðarfuglsstofnsins er að finna í löndum utan Evrópusambandsins).

Staða Lunda (Fratercula arctica) veldur sérstökum áhyggjum vegna hnignandi stofnþróunar. Langstærstur hluti lundastofnsins eða 85% verpur utan Evrópusambandsins, þar af 47% á Íslandi, 31% í Noregi og 10% í Færeyjum. Lundi hefur verið flokkaður hér á landi sem tegund í bráðri hættu (CR) frá 2018. Meðalstofnvöxtur íslenska lundastofnsins hefur verðið undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum að mestu leiti frá árinu 1995 en þessi samdráttur stafar af svæðisbundnum viðkomubresti hjá lunda sökum fæðuskorts, auk veiða (skýrsla Náttúrustofu Suðurlands, Stofnvöktun lunda 2020-2022 https://nattsud.is/wp-content/uploads/2023/10/2020-2022-Stofnvoktun-lunda-Lokaskyrsla-11.okt_.pdf ).

Ýmis jákvæð teikn eru á lofti um að brugðist verði við þessari þróun, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Vinna er í gangi hjá Umhverfisstofnun við gerð verndaráætlunar fyrir lunda (https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2023/08/22/Vinna-vid-stjornunar-og-verndaraaetlun-lunda-/ ). Einnig vinnur Ríkisstjórn Íslands að aukinni vernd viðkvæmra hafsvæða sem eru mikilvæg fyrir lífríkið samkvæmt Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework samningsins (COP15: Final text of Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework | Convention on Biological Diversity (cbd.int) ) sem gerður var í lok árs 2022, en í honum er kveðið á um að ríki skuli vernda 30% haf- og landsvæða fyrir árið 2030. Sá samningur hefur verið undirritaður af fleiri en 200 ríkjum. „Meginmarkmið Kumning-Montreal samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni sem minnkar nú mun hraðar en áður á þekktum jarðsögulegum tíma“ (segir í afstöðu Hafró hér Úthafssáttmáli Sameinuðu þjóðanna | Hafrannsóknastofnun (hafogvatn.is).

Í stefnuskýrslu Matvælaráðuneytisins Auðlindin okkar -Sjálfbær sjávarútvegur, frá 2023 (sem nálgast má hér https://www.stjornarradid.is/library/01—Frettatengt—myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/230819%20Matvaelaraduneytid%20Audlindin%20okkar%20Rit%201%20WEB.pdf ) segir meðal annars:

Setja þarf stefnu um verndun hafsvæða þar sem tekið er tillit til fleiri þátta en fiskveiðistjórnunar. Ísland hefur samþykkt alþjóðamarkmið um að vernda 30% af haffletinum fyrir 2030 á grundvelli OSPAR-samningsins um verndun NA-Atlantshafsins. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu þar sem tilnefnd voru hafsvæði til verndunar en einungis var um að ræða viðkvæm botnsvæði út frá fiski en ekki út frá öðru lífríki eða vistkerfum hafsins. Vernda þarf svæði út frá fleiru en viðkvæmum botnsvæðum. Nefna má sjófuglabyggðir og sellátur í því samhengi.

Er þetta í góðu samræmi við mikla þörf og mikilvægt að eftirfylgni verði skjót og árangursrík.

Lóþræll. ©Alex Máni Guðríðarson

Fuglar og votlendi – Viðtal við Aron Alexander Þorvarðarson um niðurstöður meistararitgerðar hans

Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.

Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.

Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00 

Fullorðinn fálki, 12 ára gamall karlfugl, á flugi yfir hreiðri sínu sumarið 2023. Þessi fálki var merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011. Vorið 2014 fannst hann, þá þriggja ára gamall, paraður og með fjóra unga í hreiðri á óðali um 17 km frá æskuheimili sínu. Hann hefur búið á þessu óðali allar götur síðan og hann og maki hans komu upp fjórum ungum í vor. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019.

Fullorðinn fálki, 12 ára gamall karlfugl, á flugi yfir hreiðri sínu sumarið 2023. Þessi fálki var merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011. Vorið 2014 fannst hann, þá þriggja ára gamall, paraður og með fjóra unga í hreiðri á óðali um 17 km frá æskuheimili sínu. Hann hefur búið á þessu óðali allar götur síðan og hann og maki hans komu upp fjórum ungum í vor. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

 

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019 og varpstofninn vorið 2023 var sá minnsti sem mælst hefur frá upphafi rannsókna. Samfelld fækkun fálka frá 2019 kemur á óvart. Viðkoma fálka var mjög góð bæði 2018 og 2019. Reyndar var árið
2018 það besta frá upphafi rannsóknanna, en þá komust á legg 104 fálkaungar á rannsóknasvæðinu.
 Fréttina má lesa á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík 2022

“Fuglalífi Tjarnarinnar hefur hnignað á liðnum árum og áratugum og það er óumdeilt.
Við teljum að þrjár meginskýringar séu á þessari þróun og höfum rökstutt það í fyrri
skýrslum. Skýringar okkar eru:
• fæðuskortur
• afrán
• hnignun búsvæða.

Við höfum áður rætt ítarlega mögulegar mótvægisaðgerðir og viljum í því sambandi
benda á Tjarnarskýrslur frá 2011 og 2112 (Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson
2011 og 2012, sjá líka Ólaf K. Nielsen 2013). Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í
hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og
hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum.”

Árlega kemur út skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar og er hún frlóðleg lesning fyrir vini Tjarnarinnar en ekki alltaf að sama skapi ánægjuleg.

Hér er hægt að lesa skýrsluna um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2022

Mói – vefur um líffræði og vernd mófugla á Íslandi – glæsileg heimasíða og fróðleg

Glæsileg og fróðleg heimasíða Rannsóknarseturs HÍ á Suðurlandi. 

Öll landnotkun hefur í för með sér breytingar á lífsskilyrðum þeirra lífvera sem reiða sig á landið sem á að nýta.  Áhrif landnotkunar á lífverur ráðast af umfangi notkuninnar, lífsháttum tegunda og á hversu stóran hluta stofns breytingar verka. Til að lágmarka neikvæð áhrif landnotkunar á lífbreytileika er mikilvægt að huga að þessum þáttum.
Áhrif landnotkunar á lífverur eru breytileg eftir eðli og umfangi. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem Íslendingar eru aðilar að, er sérstök áhersla á að þjóðir viðhafi varúð við uppbyggingu atvinnuvega og innviða sem eru þekktir að því að hafa mikil áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þær gerðir landnotkunar sem þar eru sértaklega tilgreindar eru ræktað land, skógrækt, orkuöflun, flutningskerfi og skipulag þéttbýlis.

Hérlendis er ræktað land umsvifamesta landnotkunin en einnig eru stór svæði nýtt undir byggð og önnur mannvirki, svo sem vegi, sumarhús og raforkumannvirki. Einnig er land í auknum mæli nýtt til skógræktar og undir íþrótta- og útivistarsvæði.

Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi er með fyrirtaks heimasíður þar sem  hugað er að áhrifum nokkurra algengra gerða landnotkunar á íslenska mófugla.

 

Möguleikar á endurheimt búsvæða fiska og fugla á Mýrum og nágrenni

Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Breska Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu.
Straumvatn í mýri

Verkefnið er framhald verkefnis þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu, auk þess að hafa slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði þeirra. Aftur á móti fundust hrygningarsvæði urriða í einu tilviki í skurði, en slíkt þarf að hafa í huga ef endurheimt verður á svæðinu.

Urriði

Nú er hugmyndin að stækka rannsóknarsvæðið svo að þá nái yfir Mýrar, Hnappadal og alla leið að ósi Straumfjarðarár fyrir neðan Snæfelssnesveg. Svæðið er tilnefnt til Náttúruminjaskrár af Náttúrufræðistofnun vegna búsvæða vað- og vatnafugla. Ásamt aðliggjandi fjörum og grunnsævi er það einnig skilgreint sem Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IBA) af BirdLife International. Vötn og lækir á svæðinu eru líklega mikilvæg búsvæði silungs og áls, en áli hefur fækkað mikið í Evrópu og er nú talinn vera í útrýmingarhættu.

Lækir milli vatna

Í verkefninu verða lækir og vatnasvæði sem hafa orðið fyrir áhrifum framræslu kortlagaðir með tilliti til búsvæða fiska, sérstaklega urriða og áls. Hindranir verða skrásettar og metið verður hvaða áhrif endurheimt hefur á aðrar lífverur eins og fugla og gróðurfar. Mannfólkið er ekki heldur undanskilið en mikilvægt er að huga að landnýtingu og afstöðu landeigenda til endurheimtar. En ef endurheimt verður á svæðinu er mögulegt að aukin nýting fiskistofna verði í framtíðinni.

Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Þá aðallega með því að fjarlægða manngerðar hindranir eins og stíflur úr ám og lækjum. Nú er einungis verið að kanna möguleika á endurheimt, en ef gott samstarf og valkostir eru fyrir hendi, er mögulegt að vinna verkefnið yfir á framkvæmdastig í samvinnu við landeigendur.

Nánar má lesa um verkefnið á ensku á síðu Open rivers programme

 

Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Veljið hófsemi við rjúpnaveiðar!

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember – 4. desember í ár.

Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.

Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2022 

Tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu 2022

Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.

Fuglavernd hvetur veiðimenn að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.

Veiðimenn eru hvattir  til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.