Hettumáfur. Ljósmynd: Elma Rún Benidiktsdóttir

Dagur íslenskrar náttúru – fuglaskoðun við Bakkatjörn

Miðvikudaginn næstkomandi, 16.september, verður Fuglavernd með fuglaskoðun við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum a.m.k. skoða endur, gæsir og máfa og líklega einhverja vaðfugla. Gaman er að taka með sér fuglabók og sjónauka en að auki verður stór fuglasjónauki með í för.

Mæting klukkan 5 við bílastæðið v. Bakkatjörn. Elma Rún Benediktsdóttir fuglaskoðari með meiru mun leiðbeina við fuglaskoðunina. Svo er bara að klæða sig eftir veðri.
Má einnig sjá á fésbók félagsins.

Elma Rún Benediktsdóttir tók þessa fallegu mynd af hettumáfi.

Nýtt tölublað fugla er komið út

Í lok júní síðastliðinn kom út tölublað nr. 10 af Fuglum, þar sem er fjallað um fugla og náttúruvernd á léttan og aðgengilegan hátt. Efnistök eru fjölbreytt og lifandi og blaðið prýðir einstakar ljósmyndir.

Ein af höfuðgreinum þessa blaðs fjallar um það hvort fuglum á Íslandi sé tryggð nægjanleg vernd með lögum, farið er inn á nýtingu og veiðar villtra fugla, og stöðu svartfugla vegna viðvarandi nýliðunarbrests. Annáll flækinga er svo alltaf áhugaverður og yfirlit yfir sjaldgæfa varpfugla líka.

Blaðið er innifalið í félagasaðild að Fuglavernd og er sent nýjum félögum þeim að kostnaðarlausu. Hér má skrá sig í félagið.

Álftir og lómar í Friðlandinu í Flóa.

Friðlandið í Flóa – sunnudag

Sunnudaginn 21. júní 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Jóhann Óli Hilmarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson
Skrifað í flokkinn: FréttirFuglafræðslaViðburðir
Kría í Vatnsmýrinni

Fuglaleiðsögn í Vatnsmýrinni 13.júní

Í tilefni af Fundi fólksins verður Elma Rún Benediktstóttir með fuglaleiðsögn um fuglafriðlandið í Vatnsmýrinni laugardaginn 13. júní 2015 frá 16:00-16:45. Farið verður frá andyri Norræna hússins stundvíslega kl. 16:00- en gaman er að taka með sjónauka og fuglabók.

Fundur fólksins er lífleg þriggja daga hátíð um samfélagsmál í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess dagana 11. til 13. júní. Slegið verður upp tjaldbúðum og skemmtilegir kofar setja svip á hátíðarsvæðið. Þar munu hin ýmsu félagasamtök, stofnanir og flokkar vera með starfsemi alla hátíðina. Í bland við líflegar umræður verða tónlistaratriði og fuglaskoðun en hægt verður að kaupa bæði mat og drykk á svæðinu.Sjá dagskrá hér: Fundur fólksins

Ljósmynd af kríu í Vatnsmýrinni, Elma Rún Benediktsdóttir.

 

Ungar í Friðlandinu í Flóa.

Fuglaskoðun í Friðlandinu 14. júní

Sunnudaginn 14. júní 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Örn Óskarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Þetta er þriðja gangan af fimm en stefnt er að því að vera með göngu hvern sunnudag í júní.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Örn Óskarsson.

Alþjóðlegur dagur hafsins

Í tilefni að alþjóðlegum degi hafsins mun heimildamynd um plastmengun í sjónum verða sýnd í Bíó Paradís á 8. júní kl. 8 –  aðgangur ókeypis. Eftir myndina er efnt til pallborðsumræðna  þar sem Egill Helgason sjónvarpsmaður, Hrönn Ólína Jörundsdóttir doktor í umhverfisefnafræði og verkefnastjóri hjá MATÍS, Karen Kjartansdóttir upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sitja í pallborði.

í tilkynningu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir:

“Umhverfisspjöll af völdum plastmengunar eru gríðarleg. Við Norðursjó finnst plast í maga 94% fugla. Plastagnir geta fundið sér leið inn í vefi líkamans þegar við borðum fisk. Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi fyrir árin 2013–2024 kemur fram að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu. En plast virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja og okkur stafar ekki síður hætta af plastmengun annara ríkja en okkar eigin. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Hafstraumar hafa smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka sem hringsnúast á Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi.

Evrópuþingið hefur nýverið samþykkt harðar aðgerðir sem miða að því að minnka notkun þunnra plastpoka sem valda mestri mengun, ýmist með banni eða álagningu gjalda. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins segir að þetta falli undir málefnasvið EES samningsins og því muni breytingar á þessari löggjöf hafa áhrif hér heima en útfærslan er í höndum einstakra ríkja. Fyrir Alþingi liggur einnig tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum úr öllum flokkum um að draga úr notkun plastpoka.

Að sýningu myndarinnar standa Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC), Samband fyrirtækja í sjávarútvegi, Evrópustofa og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Myndin er á ensku (án texta) og sýningartími ein klukkustund. Enginn aðgangseyrir! ”
Tengill á Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Fuglaskoðun í Flóa 31. maí 2105

Sunnudaginn 31. maí 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum því það er mjög blautt á og muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.

Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð

Við fögnum því að verndaráætlun fyrir Breiðafjörð hefur verið undirrituð. Á bls.10 stendur m.a. ” Breiðafjörður er einkum þekktur fyrir auðugt lífríki, sér í lagi fuglalíf. Sjófuglar eru einkennisfuglar svæðisins og er stór hluti landsstofns sumra tegunda við Breiðafjörð. Sem dæmi má nefna að þar verpa um 75% íslenskra dílaskarfa og 80% toppskarfa. Þá fara um Breiðafjörð í hundruðum þúsunda fargestir vor og haust á leið til hánorrænna varpstöðva sinna á Grænlandi og í Kanada á vorin og til vetrarstöðva í V-Evrópu á haustin.”http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2734
Á myndinni sjáum við toppskarf. JÓH.