Í dag er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar og var sá dagur valinn sem Dagur íslenskrar náttúru af ríkisstjórn Íslands árið 2010.
Hipp húrra fyrir Ómari sem hefur aldeilis lagt sitt á vogaskálar til varnar íslenskri náttúru.
Hipp húrra fyrir degi Íslenskrara náttúru og allra félaga og samtaka sem standa vörð um náttúru okkar frá fjöru til fjalla – frá láði til lofts – frá smáfuglum til stórhvela.
Fuglaverndarfélag íslands var stofnað árið 1913 til varnar haferninum okkar sem var undir skipulögðum ofsóknum og var nær útdauður. Meira um haförninn hér
Varp hafarnarins gekk vel í ár og komust 58 ungar á legg. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir þetta mesta fjölda unga frá því að hafernir voru fyrst taldir fyrir réttum 100 árum árið 1921. Hann rifjar upp að þá hafi upplýsinga verið aflað á manntalsþingum, en síðan hafi rannsóknir smám saman eflst og arnarstofninn sé nú einna best þekkti fuglastofn landsins.
Í ár var orpið á 69 óðulum og komust ungar á legg á 45 þeirra. Kristinn Haukur segir að allar vísitölur arnarins séu sterkar í ár, hreiður, varp, ungar og óðul í ábúð sem eru nú 86. Í fyrra komust 52 ungar á legg og 56 árið 2019, sem þá var besta árið í 100 ára sögu talninga. Nú áætlar Kristinn Haukur að arnarstofninn telji á fjórða hundrað fugla, en stór hluti hans séu ungfuglar, sem algengt er að byrji að verpa 5-6 ára. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru arnapörin aðeins talin vera ríflega 20.
Aðalheimkynni arnarins eru frá Faxaflóa norður og vestur um í Húnaflóa. Fullorðnir fuglar hafa sést reglulega austur í Mývatnssveit en hafa ekki ekki slegið sér niður í varp á þeim slóðum.
„Enn er nokkuð í land að haförninn loki hringnum og fari að verpa í öllum landshlutum, en ég held að það gerist á næstu áratugum ef þessi hagfellda þróun heldur áfram,“ segir Kristinn Haukur.
Hann segir að tíðarfarið á undanförnum árum hafi verið erninum hagstætt og stofninn hafi fengið meiri frið og svigrúm til að þróast og þroskast en áður.
Fýlsungar eru að yfirgefa hreiður frá lok águst fram í miðjan september. Þeir svífa frá syllunni sinni og ná oft ekki út í sjó og lenda þá á landi milli varpstöðva og sjávar. Eftir gott sumar er nú urmull af þeim í Mýrdalnum og vafalaust víðar. Þeir eru í tugum á götum Víkur þegar þetta er ritað.
Fæstum fýlsungum þarf að bjarga, þeir spjara sig oftast sem hafa lent á söndum, túnum, engjum
eða viðlíka “flugbraut”. Þeir léttast á nokkrum dögum og verja tíma sínum við að styrkja vængi.
Þeir sem lenda á bílastæðum, vegum, skógi, háu grasi og í lúpínubreiðu gæti hinsvegar þurft að bjarga.
ATH: Þegar fýlsungar verja sig þá spýja eða æla þeir lýsiskenndu magainnihaldi sínu. Bunan getur verið
hátt í 2 m á lengd. Það er vissara að varast að lenda í bununni.
Flesta fýlsunga sem lenda á vegum þarf ekki að flytja á brott, yfirleitt er nóg að koma þeim af vegi
sjávarmegin við veginn.
EF ÞAÐ ÞARF AÐ FANGA FÝLSUNGA t.d. í þéttbýli, skóglendi, bílastæði, lúpinubreiðu eða af vegi þá er best að vera með réttan útbúnað.
FÖT: Föt sem má fórna í fýla-ælu, gúmmíhanskar. Áberandi lit á fatnaði ef verið er við vegi, t.d. áberandi gul vesti.
VERKFÆRI:
Handklæði til að fanga fýlsunga með.
Kassar 2 – 20 kassar til að setja ungana í.
Aðeins má setja einn fýl í kassa. Ef þeir eru tveir eða fleiri þá geta þeir ælt á hvorn annan og verða útataðir í lýsi.
Þá eru þeir í vondum málum.
Bíll og jafnvel kerru.
HVAR Á AÐ SLEPPA FÝLSUNGA: Alls ekki í sandfjöru þar sem er brim, þá velkjast þeir bara um og drepast.
Það verður að sleppa þeim þar sem þeir geta náð að svífa niður á sjávarflöt.
Lygnar ár og víðir ósar koma til greina. Jökulsár eru ekki lygnar ár.
Sleppistaðir í kringum Mýrdal og undir Eyjafjöllum:
Dyrhólaey, neðri ey og Dyrhólaós. Lónin hjá Höfðabrekku.
Sandar sunnan lúpínubreiða.
Holtsós. Skógaá.
Fýlsungar eru stríðaldir af foreldrum sínum svo þeir verða of þungir til flugs. Fýlavarp hefur teygt sig lengra inn til landsins, fjær sjó en hentugt er fyrir fýlsunga. En fýlum hefur fjölgað á s.l. áratugum og fýlahjón leita sér að góðu hreiðurstæði í björgum.
Nokkrar ástæður eru fyrir vali á björgum fjarri sjó. Þar má telja að sjóbjargastæðin eru frátekin, viðkomandi fýll ólst upp á syllu t.d. í Markarfljótgljúfrum og leitar heim.
Fýlar geta orðið allt að 60 ára gamlir og geta komið upp einum unga árlega.
Við þiggjum með þökkum ábendingar um góða sleppistaði fýlsunga um land allt.
Graham Appleton heldur úti bloggsíðu um vaðfugla. Hann er tengdur Íslandi gegnum rannsóknir sínar á farflugi vaðfugla og fleira. Hann hefur m.a. verið í samstarfi við Böðvar Þórisson, Sölva Rúnar Vignisson og Tómas Grétar Gunnarsson í rannsóknum á vaðfuglum og sérlega tjöldum.
Graham leitast við í bloggi sínu að gera rannsóknir á vaðfuglum aðgengilegri almenningi. Hann skrifar skemmtilegan texta. Bloggið um hvernig það eru tjalda feðurnir sem hafa áhrif á farflug afkvæmanna er áhugavert sem og allir aðrir dálkar í blogginu. Hér er hægt að lesa um tjalda feðurnar.
Í hálfa öld hefur sænskumælandi útvarpsstöð YLE, finnska ríkisútvarpsins sent út þátt sem heitir Naturväktarna, sem útleggst sem Nátturvaktin. Þátturinn er sem sagt á finnlandssænsku. Hann er útvarpaður vikulega á fimmtudagskvöldum frá maí til ágúst, en mánaðarlega september til apríl. Þátturinn byggist upp á fyrirspurnum hlustenda og aðrir hlustendur fræðast heilmikið. Undirrituð hefur hlustað á þættina úr sarpi YLE Vega í sumar og haft gaman að. Þátturinn er einnig með myndablogg þar sem eru birtar myndir sem að hlustendur senda með fyrirspurnum sínum Myndabloggið
Ef lesendur þessa pistils skilja sænsku, dönsku eða norsku og eru náttúruunnnendur þá er þetta fyrirtaks hlustun. Oft er spurt um fugla sem að vísu finnast ekki allir hér á landi, einnig er mikið spurt um fiðrildi, plöntur, spendýr og skriðdýr en svona getur maður ferðast í huganum og fræðst um leið.
Í einni útsendingu var einmitt rætt um fóðrun fugla að sumri, og nefnt að það bæri að forðast vegna meiri möguleika á smiti fugla á milli þegar hlýtt er í veðri.
Sólblómafræ hafa klárast í vefbúðinni okkar hjá Fuglavernd en munu verða komin aftur til sölu þegar nær dregur vetri. Sama er að segja um fóðrara og annað tengt fóðrun fugla. Munum við auglýsa það hér á fréttaveitu okkar.
Við viljum benda á að þegar hlýindi eru að sumri er ekki mjög gott að fóðra fugla sem þá koma margir saman á litlum fleti og þá eru meiri líkur á smitum milli þeirra, ef einhverjir fuglasjúkdómar eru á ferli. Einnig er gnótt ætis að sumri nema það sé þeim mun kaldara. Þegar kólna fer þá er kominn tími til að athuga með fóðrun.
Þrjár göngur hafa verið farnar í Friðlandið okkar á vegum Fuglaverndar í júní og júli.
Mikið var af óðinshönum í byrjun júní og álftarpar var á vappi á ýmsum stöðum í mýrinni. Skúfendur á tjörnum svo og rauðhöfðar. Órólegir þúfutittlingar við fuglskoðunarhúsið en væntanlega eru þeir með hreiður rétt hjá. Enginn stari, hann hefur móðgast þegar lokað var fyrir hreiðurstæði hans í þakskeggi undir stiganum. Honum hefur ekkert litist á varpkassana.
Lómarnir stela agjörlega senunni á kvöldin með sínum margbreytilegu hljóðum; kurri, góli, væli, mali og svo fram eftir götunum. Einnig er mikið fjör þegar 7 – 12 lómar safnast saman og skemmta sér á dæli eða tjörn.
Hópurinn í gærkvöldi var svo heppinn að sjá branduglu með æti í klóm væntanlega á leið heim til unganna og sá einnig álftapar með nokkura daga unga.
Sjöstjarnan sem vex af miklum móð í mýrinni hefur verið í blóma og mýrin virkilega verið stjörnum prýdd. Þessi planta er algengust á austurlandi en í Friðlandinu er hún út um allt. Um sjöstjörnuna
Fjallað var um Fugl ársins 2021 í vetrar tímariti Forest & bird sem gefið er út í Nýja Sjálandi. Þar er vissulega vetur nú.
Ef þið hafið hug á að skoða greinina þá getiði smellt á eftirfarandi hlekk og flettið síðan á bls. 8 Forest & Bird
Meðfylgjandi mynd er af Lóu- barmmerkinu sem Fuglavernd lét framleiða og er til sölu í netversluninni.
Árið 1913 hófst friðun arnarins á Íslandi og þar með upphaf þessa félagsskapar sem kallast Fuglavernd.
Áhugaverða grein um upphafið má lesa í afmælistímariti Fuglaverndar; Fuglar nr. 9 2013.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna