Verslun Fuglaverndar verður lokuð vegna sumarfríia 1. - 31. júlí. .Síðasti afgreiðsludagur fyrir frí er 30. júní. Ef þig vantar kattakraga í júlí þá er hægt að kaupa þá í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík. Sumarkveðjur, Fuglavernd. Loka
Lögverndarsjóður náttúru og umhverfis var stofnaður af nokkrum náttúruverndarsamtökum árið 2002 í því skyni að veita fjárhagsstuðning til að fá úrlausn vegna lögfræðilegra álitamála er snerta náttúru- og umhverfisvernd.
Fuglavernd, Landvernd, NAUST – Náttúruverndarsamtök Austurlands, og SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi standa að baki sjóðnum. Þessi félög og aðrir velunnarar lögðu sjóðnum til ákveðið fjármagn á sínum tíma og hefur sjóðurinn þegar stutt nokkur verkefni með því fé og frjálsum framlögum.
Lögverndarsjóður hefur þann háttinn á við styrkveitingar að ef mál vinnst fyrir dómi og gagnaðili er dæmdur til að greiða málskostnað þá endurgreiðir styrkþegi styrkinn til sjóðsins. Sama á við ef gagnaðili er dæmdur til að greiða skaðabætur, þá verði styrkurinn einnig endurgreiddur til sjóðsins.
Þrátt fyrir bága stöðu margra svartfuglastofna er veiðitímabil þessara tegunda á Íslandi óvenju langt samanborið við önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Þar fyrir utan hafa rannsóknir leitt í ljós að tímabilið nær inn á varptíma tegundanna og að veiðar undir lok veiðitímans hafa mun neikvæðari áhrif á stofnstærð en veiðar að hausti. Talsvert er um magnveiði, einkum vegna þess að svartfuglar eru eftirsóttir á sumum matsölustöðum.
Ef litið er til stöðu svartfugla á íslenskum válista sést að stuttnefja, lundi og teista lenda í hættuflokkum og langvía telst vera í yfirvofandi hættu. Einungis álka virðist vera tegund sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af í dag en hún var þó í yfirvofandi hættu fyrir fáeinum árum.
Breyta þarf lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum í samræmi við tillögu Náttúruverndarstofnunar, til að hægt sé að grípa til verndandi aðgerða þótt veiðar flokkist sem hlunnindaveiðar.
Nánar er hægt að lesa um hvers vegna er brýnt að stytta veiðtíma svarfugla og tillögur Náttúrustofu Austurlands og Náttúrustofu Norðausturlands þess efnis í minnisblaði sent Náttúverndarstofnun í janúar s.l.
Viltu taka þátt í mikilvægu og spennandi verkefni sem tengir vísindi og náttúruvernd?
Fuglavernd leitar að metnaðarfullum aðila til að sinna krefjandi starfi sem felur í sér markvissa miðlun þekkingar um náttúru og líffræðilega fjölbreytni til hagsmunaaðila, samstarfsaðila og almennings.
Starfið felur í sér að sinna samfélagsmiðlum og vefsíðu LIFE verkefnis um endurheimt votlendis í þágu fugla, gróðurs og loftslags, skrifa fréttatilkynningar og eiga í samskiptum við fjölmiðla og fjölmiðlafulltrúa, ásamt því að skipuleggja atburði og uppákomur í samstarfi við önnur félög og stofnanir og sjá til þess að heildarásýnd verkefnisins veki traust og áhuga.
Gerð er krafa um:
Háskólamenntun sem nýtist í starfi
Afburðagott vísindalæsi ásamt áhuga á náttúru Íslands, náttúruvernd og umhverfismálum
Afburðahæfni í mannlegum samskiptum og teymisvinnu
Framúrskarandi vald á íslensku og ensku bæði í ræðu og riti
Skipulagshæfni, nákvæmni, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
Æskileg hæfni:
Reynsla af verkefnastjórnun tengt miðlun og kynningarmálum
Reynsla af notkun samfélagsmiðla á markvissan hátt
Hæfni til að miðla flóknum upplýsingum á einfaldan og markvissan hátt til ólíkra markhópa
Reynsla af viðburðastjórnun
Þekking og reynsla af uppsetningu efnis á myndrænan hátt
Þekking og reynsla af gerð myndbanda
Reynsla af notkun vefumsjónarkerfa
Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra við viðkomandi stéttarfélag.
Starfshlutfall er 100%. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. september 2025.
Umsókn skal vera skrifleg og samanstanda af ferilskrá og kynningarbréfi sem lýsir umsækjanda og af hverju viðkomandi telur sig hæfan í starfið og vill sinna því.
Umsóknarfrestur er til og með 27. maí 2025. Öllum umsóknum verður svarað.
Umsóknir skal senda á fuglavernd@fuglavernd.is.
Ábyrgt kattahald – hvatning til kattaeigenda Nú er vorið komið með tilheyrandi fuglasöng en varptími fugla er hafinn og stendur yfir frá maí fram í ágúst. Þetta er viðkvæmur tími hjá fuglunum en fjöldi fugla kemur hingað til lands í þeim tilgangi að fjölga sér. Fuglarnir gera sér hreiður og liggja á eggjum í 2-3 vikur áður en eggin klekjast og ungarnir skríða út og gaman að fylgjast með öllu ferlinu.
Kettir eru rándýr og mikilvægt að kattaeigendur hugi að því að kettir þeirra valdi ekki fugladauða.
Til eru nokkur ráð fyrir ábyrga kattaeigendur til að reyna að minnka þann skaða sem þeirra kettir mögulega valda.
Góð ráð fyrir ábyrga kattaeigendur
Með því að halda köttunum inni yfir kvöld og nótt, u.þ.b. frá kl. 17:00 til kl. 09:00 að morgni má að miklu leyti koma í veg fyrir veiðar katta, en kettir sjá betur þegar það fer að rökkva og eiga þá betur með að veiða fugla. Til að venja ketti á að koma inn seinnipartinn er hægt að gefa þeim eitthvað sem eigandinn veit að kisu finnst gott. Hafa þarf í huga að kettir þurfa meiri leik og athygli heima við á þessum tíma. Þeim köttum sem eru miklar veiðiklær væri best að halda inni á varptíma fugla þar sem þeir fara jafnvel upp í hreiður til að drepa unga og geta veitt tugi fugla yfir sumartímann.
Kattakragar gefa bestu raun
Rannsóknir hafa sýnt að kettir með litríka kraga drepa mun færri fugla en kettir án kraga. Fuglar koma fyrr auga á ketti með litríka kraga og eiga þá betur með að forða sér. Bjöllur gera eitthvað gagn við að minnka veiðar katta, en lítið á við kragana. Kragana er hægt að fá á allnokkrum stöðum svo sem hjá Fuglavernd, í Kattholti, Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, gæludýraverslunum og hjá dýralæknum. Fuglavernd, Kattavinafélag Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Dýraþjónusta Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hvetja kattaeigendur að sýna ábyrgð og taka tillit til fuglalífs með því að reyna að lágmarka fugladráp katta sinna á varptíma fugla.
Í ljósi þess að Yggdrasill Carbon ehf lét rista upp 160 ha land á jörðinni Saltvík við Húsavík á varptíma fugla sumarið 2024 sendi Fuglavernd kæru til Lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra þann 25.mars 2025.
Fuglavernd telur þetta vera refsivert brot. Í samþykktum Fuglaverndar er kveðið á um tilgang félagsins, sem er verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir.
Um er að ræða vel gróið og mikilvægt búsvæði mófugla s.s. rjúpu, heiðlóu og spóa. Bæði heiðlóa og spói teljast til ábyrgðategunda Íslands, heiðlóa er auk þess skráð í 1. viðauka Bernarsamningsins sem listar þær tegundir sem aðildarþjóðir skuldbinda sig til að vernda með sértækri búsvæðavernd.
Með vorinu tínast farfuglarnir okkar heim. Þeir fuglar sem virðast mest vera á vörum félagsmanna okkar eru þó ekki heiðlóur, gæsir eða stelkar, sem allt eru tegundir sem eru byrjaðar að koma, heldur starar.
Starar eru jú með algengari fuglum í þéttbýli og því hluti af daglegu lífi margra. Á þessum árstíma eru þeir farnir að undirbúa varp, meðal annars með því að skoða gömul hreiðurstæði eða jafnvel finna ný. Það er því á þessum tíma sem margir taka eftir þeim í þakskeggjum, fá áhyggjur af flóabiti og vilja mögulega gera eitthvað í málunum.
Því miður er hreinlega of seint í rassinn gripið að gera það núna, þar sem stararnir eru byrjaðir að undirbúa varp og það er hreinlega ólöglegt að trufla það atferli þeirra (og það hefur verið raunin síðan hann var friðaður árið 1882). Auk þess vakna flærnar líka til lífsins eftir vetrardvala um þessar mundir og að hrófla við hreiðrinu núna mun að öllum líkindum valda því að þær fara á enn meira flakk, með tilheyrandi fjölgun flóabita.
Almennt séð fara flærnar lítið úr hreiðrum stara sem eru í notkun og láta sér duga blóðið úr þeim. Ef aftur á móti enginn stari kemur aftur í hreiðrið að loknum vetri geta nývöknuðu flærnar farið á flakk og rata þá mögulega inn í híbýli manna. Það eru því hreiðrin sem við sjáum ekki og vitum ekki af sem eru líklegust til að gefa frá sér flærnar, ekki þær sem við sjáum starana nú heimsækja og laga til. Þar fyrir utan eru eigendur hunda og (sérstaklega) katta líklegri til að vera bitnir, því dýrin ná sér í flærnar úti og bera þær inn til eiganda síns.
Fuglavernd bendir á að lögum samkvæmt skal láta starana og hreiður þeirra í friði næstu mánuði. Ef staraflær valda miklum ama má þó fjarlæga hreiður en það skal gert næsta haust eða vetur. Þá er ný kynslóð flóa komin í púpur sínar og bíða þær rólegar eftir næsta vori og nýjum fórnarlömbum.
Allir fuglar hafa flær. Vegna nábýlis mannsins og starans eru þó meiri líkur á að við verðum bitin af starafló en öðrum flóm.
Fuglavernd sendi eftirfarandi fréttatilkynningu til fjölmiðla fyrir helgi vegna kærunnar
Fuglavernd leggur fram kæru vegna skógræktarframkvæmda við Húsavík
Fuglavernd, einnig þekkt sem Fuglaverndarfélag Íslands, hefur kært til Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra framkvæmdir sem fólu í sér umtalsvert rask á náttúrulegu mólendi og varplendum fugla við Húsavík sumarið 2024, þar sem jarðvegur var unninn og trjáplöntur gróðursettar í tengslum við skógrækt til kolefnisbindingar. Framkvæmdin fór fram á varptíma fugla. Kæran beinist að meintu broti á náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og villidýralögum nr. 64/1994 en mögulega hafa lög nr. 55/2013 um velferð dýra einnig verið brotin.
Í kærunni kemur fram að framkvæmdin hafi raskað mikilvægum varpsvæðum fuglategunda, svo sem heiðlóu og spóa, sem njóta verndar samkvæmt lögum og eru auk þess ábyrgðartegundir Íslands. Framkvæmdir fóru mögulega fram án nauðsynlegs mats eða leyfis samkvæmt lögum, en mál Yggdrasils og fleiri aðila vegna framkvæmda á þremur svæðum á tveimur jörðum í Norðurþingi er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, sem og aðkoma sveitarfélagsins í því sambandi.
Málið vakti talverða athygli í fjölmiðlum síðasta sumar og vakti umræðu um álitamál í tengslum við skógrækt, kolefnisbindingu, náttúruvernd og stjórnsýslu sveitarfélaga. Fuglavernd leggur áherslu á að tryggt sé að framkvæmdaraðilar og leyfisveitendur fari að lögum og virði verndarsjónarmið þegar ráðist er í aðgerðir sem hafa neikvæð áhrif á náttúruleg vistkerfi.
Samstarfsverkefni náttúruverndarfélaga á Íslandi og í Póllandi.
Fuglavernd hefur um skeið unnið að endurheimt votlendis í nafni votlendisfugla og sumarið 2022 fékkst styrkur frá nokkrum erlendum aðilum til samstarfs á milli Póllands og Íslands um málefni votlendis og til miðlunar reynslu og þekkingar á málaflokknum. Héðan fóru nokkrir aðilar frá Landgræðslunni, Landbúnaðarháskólanum og Fuglavernd til Póllands til að skoða mismunandi endurheimtar verkefni, m.a. í Poleski þjóðgarðinum. Eitt verkefnanna í Póllandi beindist sérstaklega að því að endurheimta búsvæði fenjasöngvarans (aquatic warbler), einn sjaldgæfasti söngfugl Evrópu, sem greinilega hafði tekist vel þar sem gestirnir frá Íslandi fengu bæði að sjá og hlýða á fuglinn.
Aquatic warbler eða Fenjasöngvari, (Acrocephalus paludicola), myndin fengin af síðu RSPB
Íslendingar í Póllandi að læra af kollegum. Ljósmynd; Hólmfríður Arnardóttir
Vettvangsferð með gestum frá Póllandi og Hvíta Rússlandi - Sunna Áskelsdóttir
Sunna Áskelsdóttir annar skýrsluhöfunda sýnir hópnum sýnishorn af jarðvegslögum. Ljósmynd; Hólmfridur Arnardottir
Seinna sama ár komu svo kollegar okkar frá Póllandi til að kynna sér aðstæður á Íslandi og ýmis áhugaverð svæði skoðuð, m.a. endurheimt votlendis í Friðlandinu í Flóa og að Sogni í Ölfusi. Af þessu samstarfi og samanburði á aðstæðum í Póllandi og Íslandi varð til skýrslan „ Hands-on manual on Re-Wetting“ sem þau Sunna Áskelsdóttir hjá Landi og skógi og Pawel Pawlaczyk frá pólsku samtökunum Klub Przyrodników skrifuðu. Skýrslan er nú komin út á netinu og má sjá hér en enn sem komið er bara á ensku: Hands-on Manual on Re-Wetting. Exchange of Icelandic and polish experience in peatland restoration for biodiversity and climate.
Við Sogn er að finna eldra grágrýti, þar sem basísk og ísúr gosberg auk setlaga eru ríkjandi. Jarðvegurinn, sem Sunna sýnir hópnum, er einkennandi fyrir svæðið, þar sem svartjörð og brúnjörð eru algengar. Svartjörð svipar mjög til mójarðar en inniheldur ekki jafn mikið af lífrænum efnum. Engu að síður er svæðið tilvalið fyrir votlendisendurheimtarverkefni, sem mun nýtast fuglum, auka líffræðilega fjölbreytni og draga úr losun frá landi.
Í síðast liðinni viku sendi Fuglavernd öllum þingmönnum Alþingis tvö glæsileg hefti af ritinu FUGLAR. Um er að ræða veglega útgáfu félagsins um málefni fugla og vernd þeirra. Tilefnið var að óska þingmönnum velfarnaðar í starfi, en vekja jafnframt athygli á að margir fugla Íslands standa höllum fæti vegna beinna og óbeinna áhrifa af umsvifum mannsins. Mikilvægt er að breyta um stefnu þegar kemur að landnýtingu, framkvæmdum og viðhorfum okkar til sumra fuglategunda, og vonast félagið eftir að þingmenn sjái sér fært að leggja náttúrunni lið í störfum sínum á Alþingi. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af rúmlega 40 kg bréfabunkanum og bréfinu sem að fylgdi tímaritunum tveimur. Fuglavernd vonar að sjálfsögðu að þingmenn lesi greinarnar sem við höfðum merkt fyrir þá og að skilningur þeirra á mikilvægi náttúruverndar aukist.
Rauðhöfðakolla með þrjá stóra dúnunga á Hústjörn í Vatnsmýri 9. júlí 2023. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.
Árlega kemur út skýrslan Fuglalíf Tjarnarinnar á vegum Reykjavíkurborgar sem að Fuglavernd fær að birta með góðfúslegu leyfi. Tveir fyrrum formenn Fuglaverndar. Ólafur Karl Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson, rannsaka fuglalífið og taka saman í skýrslu fyrir borgina. Fuglavernd hvetur alla vini Tjarnarinnar í Reykjavík að lesa skýrsluna.
„Fuglafána Tjarnarinnar hefur verið vöktuð meira og minna samfellt frá 1973 eða í 51 ár. Fimm andategundir hafa verið árvissir varpfuglar lengstum á þessu tímabili: stokkönd, gargönd, duggönd, skúfönd og æður. Varpstofnum stokkandar, gargandar og duggandar hefur hnignað verulega og æðurin er horfin. Einn æðarbliki sást reyndar í vor, en síðasta æðarkollan sást vorið 2021 og síðast varð vart við æðarunga sumarið 2014. Það er aðeins skúfandastofninn sem ekki hefur gefið eftir til lengri tíma litið. Rauðhöfðaönd, nýr varpfugl, bættist við 2013, og svo urtönd 2015, toppönd er óreglulegur varpfugl. Langvarandi viðkomubrestur stendur andastofnunum fyrir þrifum. Þrjár meginskýringar eru á lélegri afkomu andarunga: (1) fæðuskortur; (2) afrán; og (3) hnignun búsvæða.”
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna