Margt var um manninn á fyrsta fundi Peatland LIFEline.is verkefnisins

Milljarður frá ESB í endurheimt votlendis á Íslandi

Fuglavernd hefur, ásamt sex samstarfsaðilum, hlotið styrk frá LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Peatland LIFEline.is er metnaðarfullt verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Samstarfsaðilar Fuglaverndar eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB). Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands.

Áhersla lögð á þrjár fuglategundir

Verkefnið hófst formlega þann 1. september síðastliðinn og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um 6 milljónir evra (sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna).

Markmið verkefnisins Peatland LIFEline.is er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla verður lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll – sem og á evrópska álinn sem er í útrýmingarhættu. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Sendiherra ESB mætti á Hvanneyri

Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn dagana 22.–24. september 2025 á Hvanneyri í Borgarfirði og mættu um 50 þátttakendur. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar og Bára Huld Beck kynningarstjóri verkefnisins hjá Fuglavernd sóttu fundinn en megintilgangur hans var að ræða skipulag og framtíðarplön og leggja línurnar fyrir þau verkefni sem framundan eru.

Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, tók þátt í setningardegi fundarins ásamt sendinefnd sinni: Samúel Ulfgard, aðstoðarforstöðumanni sendinefndarinnar, og starfsnemunum Þórhildi Kristínardóttur og Þórhildi Søbech Davíðsdóttur. Sendiherrann flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi Peatland LIFEline.is sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála.

Mynd frá fundi á Hvanneyri: James Einar Becker


Endurheimt votlendis á Mýrunum, Vesturlandi

 

Með styrk frá Mossy Earth eru Fuglavernd, Land og skógur og Hafrannsóknarstofnun: Haf og vatn að endurheimta votlendi á Mýrunum á Vesturlandi .

Á heimasíðu Mossy Earth má lesa í máli og myndum um verkefnið sem mun m.a. greiða álum leið um votlendið, auka fjölda fugla sem sækja í votlendi sem búsvæði og auka fjölbreytni lífríkis sem að þrífst í votlendi.

Hér er hægt að fræðast um verkefnið á heimasíðu Mossy Earth

 

Hér er frábært myndband um verkefnið á you tube 

 

valkvæmt

Hvernig færum við landið í fyrra horf?

Samstarfsverkefni náttúruverndarfélaga á Íslandi og í Póllandi.

Fuglavernd hefur um skeið unnið að endurheimt votlendis í nafni votlendisfugla og sumarið 2022 fékkst styrkur frá nokkrum erlendum aðilum til samstarfs á milli Póllands og Íslands um málefni votlendis og til miðlunar reynslu og þekkingar á málaflokknum. Héðan fóru nokkrir aðilar frá Landgræðslunni, Landbúnaðarháskólanum og Fuglavernd til Póllands til að skoða mismunandi endurheimtar verkefni, m.a. í Poleski þjóðgarðinum. Eitt verkefnanna í Póllandi beindist sérstaklega að því að endurheimta búsvæði fenjasöngvarans (aquatic warbler), einn sjaldgæfasti söngfugl Evrópu, sem greinilega hafði tekist vel þar sem gestirnir frá Íslandi fengu bæði að sjá og hlýða á fuglinn.

 

 

Seinna sama ár komu svo kollegar okkar frá Póllandi til að kynna sér aðstæður á Íslandi og ýmis áhugaverð svæði skoðuð, m.a. endurheimt votlendis í Friðlandinu í Flóa og að Sogni í Ölfusi. Af þessu samstarfi og samanburði á aðstæðum í Póllandi og Íslandi varð til skýrslan „ Hands-on manual on Re-Wetting“ sem þau Sunna Áskelsdóttir hjá Landi og skógi og Pawel Pawlaczyk frá pólsku samtökunum Klub Przyrodników skrifuðu. Skýrslan er nú komin út á netinu og má sjá hér en enn sem komið er bara á ensku: Hands-on Manual on Re-Wetting. Exchange of Icelandic and polish experience in peatland restoration for biodiversity and climate.

Við Sogn er að finna eldra grágrýti, þar sem basísk og ísúr gosberg auk setlaga eru ríkjandi. Jarðvegurinn, sem Sunna sýnir hópnum, er einkennandi fyrir svæðið, þar sem svartjörð og brúnjörð eru algengar. Svartjörð svipar mjög til mójarðar en inniheldur ekki jafn mikið af lífrænum efnum. Engu að síður er svæðið tilvalið fyrir votlendisendurheimtarverkefni, sem mun nýtast fuglum, auka líffræðilega fjölbreytni og draga úr losun frá landi.