Endurheimt votlendis á Mýrunum, Vesturlandi

 

Með styrk frá Mossy Earth eru Fuglavernd, Land og skógur og Hafrannsóknarstofnun: Haf og vatn að endurheimta votlendi á Mýrunum á Vesturlandi .

Á heimasíðu Mossy Earth má lesa í máli og myndum um verkefnið sem mun m.a. greiða álum leið um votlendið, auka fjölda fugla sem sækja í votlendi sem búsvæði og auka fjölbreytni lífríkis sem að þrífst í votlendi.

Hér er hægt að fræðast um verkefnið á heimasíðu Mossy Earth

 

Hér er frábært myndband um verkefnið á you tube 

 

Haförn. Ljsm. Sindri Skúlason

Lögverndarsjóður

Lögverndarsjóður náttúru og umhverfis var stofnaður af nokkrum náttúruverndarsamtökum árið 2002 í því skyni að veita fjárhagsstuðning til að fá úrlausn vegna lögfræðilegra álitamála er snerta náttúru- og umhverfisvernd.

Fuglavernd, Landvernd, NAUST – Náttúruverndarsamtök Austurlands, og SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi standa að baki sjóðnum. Þessi félög og aðrir velunnarar lögðu sjóðnum til ákveðið fjármagn á sínum tíma og hefur sjóðurinn þegar stutt nokkur verkefni með því fé og frjálsum framlögum.

Lögverndarsjóður hefur þann háttinn á við styrkveitingar að ef mál vinnst fyrir dómi og gagnaðili er dæmdur til að greiða málskostnað þá endurgreiðir styrkþegi styrkinn til sjóðsins. Sama á við ef gagnaðili er dæmdur til að greiða skaðabætur, þá verði styrkurinn einnig endurgreiddur til sjóðsins.

Nánar má fræðast um sjóðinn á heimasíðu hans

 

 

Heiðlóa með unga. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Mikilvægu búsvæði mófugla spillt

Í ljósi þess að Yggdrasill Carbon ehf lét rista upp 160 ha land á jörðinni Saltvík við Húsavík á varptíma fugla sumarið 2024 sendi Fuglavernd kæru til Lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra þann 25.mars 2025.

Fuglavernd telur þetta vera refsivert brot. Í samþykktum Fuglaverndar er kveðið á um tilgang félagsins, sem er verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir.

Um er að ræða vel gróið og mikilvægt búsvæði mófugla s.s. rjúpu, heiðlóu og spóa. Bæði heiðlóa og spói teljast til ábyrgðategunda Íslands, heiðlóa er auk þess skráð í 1. viðauka Bernarsamningsins sem listar þær tegundir sem aðildarþjóðir skuldbinda sig til að vernda með sértækri búsvæðavernd.

 

Hér er hægt að lesa afrit kærunnar sem var send.