Opið verður hjá Fuglavernd fram að hádegi 23. desember n.k. Best er að pantanir berist í síðasta lagi fyrir hádegi 22. desember svo hægt verði að ganga frá þeim og senda ef þarf. Loka
„Stytta þarf veiðitíma svartfugla strax,“ er titill aðsendrar greinar sem birtist nýlega á Vísi eftir Hólmfríði Arnardóttur framkvæmdastjóra Fuglaverndar og Helgu Ögmundardóttur stjórnarmanns í Fuglavernd. Greinin er mikilvægur liður í því að varpa ljósi á stöðu svartfugla á Íslandi; hverjar helstu ógnir stofnsins eru og hvaða aðgerða er þörf.
Í greininni er meðal annars fjallað um stöðu lundans en hún er alvarleg þrátt fyrir dálæti fólks á honum. „Þótt lengi hafi verið vitað um hnignun lundastofnsins hefur lítið verið gert til að stöðva þróunina. Langstærstur hluti lundastofnsins verpur á Íslandi, eða um 60% af heimsstofninum. Lundi hefur hér á landi verið á skrá sem tegund í bráðri hættu frá árinu 2018. Meðalstofnvöxtur íslenska lundastofnsins hefur verið undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum að mestu leyti í um 30 ár eða frá árinu 1995. Samdrátturinn stafar einkum af svæðisbundnum viðkomubresti hjá lunda sökum fæðuskorts. Þegar svo háttar til bæta veiðar gráu ofan á svart hvað varðar stöðu stofnsins og eru ósjálfbærar, sem gengur gegn markmiðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.“
Veiðitímabil á Íslandi óvenju langt
Sjónum er þó ekki einungis beint að lundanum. „Helstu ógnir við sjófugla eru afföll sem meðafli í veiðarfærum, ofveiði fiskitegunda, ágengar framandi tegundir, veiði, mengun, loftslagsbreytingar, orkumannvirki og fuglaflensa. Flestar tegundir þurfa að kljást við margar af þessum ógnum samtímis yfir ævina. Að auki hafa bæst við nýlegri ógnir svo sem plastmengun í hafi og bein truflun af mannavöldum vegna frístundaiðkunar og náttúruferðamennsku. Þá eru stórfelld áform um byggingu víðfeðmra vindmyllugarða bein ógn ef ekki verður unnið sérstaklega að því að finna og hlífa svæðum sem mikilvæg eru fyrir sjófugla.“
Lundinn hefur margþætt gildi fyrir okkur Íslendinga. Hann hefur lengi verið hluti af menningararfi þjóðarinnar, veitt innblástur í listum og orðið andagift í sögum og hefðum. Mynd: Jóhann Óli
Þær Hólmfíður og Helga benda á að ein helsta ógnin sem hægt er að hafa bein og skjót áhrif á sé veiði. „Í dag eru skotveiðar hér á landi leyfðar á álku, langvíu, stuttnefju og lunda frá 1. september til og með 25. apríl. Háfaveiðar eru leyfðar á sömu tegundum frá 1. júlí til og með 15. ágúst. Teista var friðuð fyrir veiðum árið 2017 vegna fækkunar. Talið er að um 90 prósent af lundaaflanum veiðist í háfa. Ef litið er til stöðu svartfugla á íslenskum válista sést að stuttnefja, lundi og teista lenda í hættuflokkum og langvía telst vera í yfirvofandi hættu. Einungis álka virðist vera tegund sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af í dag en hún var þó í yfirvofandi hættu fyrir fáeinum árum.
Þrátt fyrir þessa bágu stöðu margra svartfuglastofna er veiðitímabil þessara tegunda á Íslandi óvenju langt samanborið við önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Þar fyrir utan hafa rannsóknir leitt í ljós að veiðarnar ná inn á varptíma tegundanna og að veiðar undir lok veiðitímans hafa mun neikvæðari áhrif á stofnstærð en veiðar að hausti. Þá er hér talsvert um magnveiði, einkum vegna þess að svartfuglar eru eftirsóttir á sumum matsölustöðum,“ skrifa þær.
Ekki nóg að gefa út fagrar yfirlýsingar
Fjórar aðgerðir eru nefndar í greininni til að hafa áhrif á þessa stöðu sem nú er uppi. „Nauðsynlegt er að ráðast strax í aðgerðir og vert er að nefna fjóra þætti í því samhengi. Í fyrsta lagi þarf að stytta strax veiðitíma svartfugla í samræmi við fyrirliggjandi gögn þannig að veiðitíma svartfugla ljúki í síðasta lagi 15. janúar. Stytting veiðitíma svartfugla með þessum hætti væri til mikilla bóta í samhengi við sjálfbærni veiða og alþjóðasamninga um náttúruvernd. Hægt er að framkvæma þessa aðgerð þegar í stað.
Í öðru lagi þarf að breyta lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum í samræmi við tillögu Náttúruverndarstofnunar, til að hægt sé að grípa til verndandi aðgerða þótt veiðar flokkist sem hlunnindaveiðar. Í þriðja lagi þarf að setja strax sölubann á allar afurðir svartfugla, s.s. kjöt, egg og ham til uppstoppunar og í fjórða lagi þarf að friða lunda fyrir öllum veiðum í að minnsta kosti fimm ár. Að friðunartímabili loknu skuli endurmeta stöðuna.“
Að lokum benda höfundar á að ekki sé nóg að gefa út fagrar yfirlýsingar eða vera með háleit markmið. „Mikilvægt er að fylgja málum eftir – hratt og örugglega. Þess vegna skorar Fuglavernd á ráðherra málaflokksins og önnur stjórnvöld að ráðast strax í aðgerðir svo svartfuglar, þar með taldir lundarnir okkar, geti lifað hér áfram í sátt og samlyndi við okkur mannfólkið.“
Fuglavernd stóð fyrir málþingi 31. október síðastliðinn þar sem eitt mikilvægasta og fjölbreyttasta vistkerfi landsins, votlendi Íslands, var í brennidepli. Um 60 manns mættu á málþingið og tæplega 160 horfðu á streymi frá Norræna húsinu. Tíu sérfræðingar á ólíkum sviðum héldu erindi og deildi Rán Flygering einstaklega áhugaverðri hugvekju með gestum. Rannveig Magnúsdóttir stýrði fundinum með miklum sóma.
Menja von Schmalensee formaður Fuglaverndar opnaði málþingið og benti á að stór hluti fugla byggði afkomu sína á votlendi og því væri vel við hæfi að Fuglavernd beitti sér fyrir verndun votlendis og miðlun þekkingar um það.
Á málþinginu var fjallað um ýmsa anga er tengjast votlendi og var meðal annars fjallað um nýjustu rannsóknir og reynslu fólks sem vinnur að verndun og endurheimt votlendis. Rætt var um fugla, gróður, jarðveg, kolefnisbúskap, fiska og landnotkun – og margt fleira.
Ályktun fundargesta
Í lok málþings ályktuðu fundargestir eftirfarandi, byggt á öllum þeim fróðleik sem fram hafði komið í erindum dagsins, sem og umræðum sem spunnust í kjölfar erinda:
Íslensk votlendi eru sérstök og mikilvæg – og verður að vernda betur en nú er gert.
Allt votlendi Íslands á að njóta verndar, óháð flatarmáli hvers svæðis. Nú þegar hefur um 70% votlendis á láglendi verið raskað og rannsóknir hafa sýnt að litlir votlendisblettir eru ekki síður mikilvægir en þeir sem stærri eru. Enn er votlendi raskað en nú er mál að linni.
Auka þarf verulega endurheimt votlendis. Þótt einhver endurheimt hafi verið framkvæmd og ýmis verkefni séu fram undan, dugar það ekki til.
Brot á náttúruverndarlögum verða að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir hinn brotlega. Fráleitt er að þeir sem raska votlendi í leyfisleysi þurfi ekki að sæta viðurlögum.
Ábyrgðartegundir Íslands, sem og tegundir í hættuflokkum á íslenskum válista, verða að öðlast lagalega stöðu sem tryggir betur vernd þeirra og búsvæða þeirra, þar á meðal votlenda.
Einnig vildu fundargestir koma eftirfarandi hvatningum á framfæri:
Opinberar stofnanir á sviði náttúruverndarmála eru hvattar til að auka samstarf, samtal og samráð sín á milli.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er hvattur til að standa með náttúrunni.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan:
Hér má sjá myndir frá málþinginu:
Menja von Schmalensee, formaður Fuglaverndar.
Mynd: Bára Huld Beck
Rán Flygering
Mynd: Bára Huld Beck
Rannveig Magnúsdóttir, fundarstjóri málþings um votlendi
Fuglavernd fékk þann heiður síðastliðinn föstudag að fara með hennar keisaralegu hátign Takamado, prinsessu frá Japan, í fuglaskoðun um Reykjanesskaga. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar, ásamt Sigurjóni Einarssyni fuglaljósmyndara og Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi, slógust í för með prinsessunni og sáu ýmislegt forvitnilegt á ferð sinni um skagann.
Prinsessan var stödd á Íslandi vegna þings Hringborðs norðurslóða sem haldið var í síðustu viku þar sem yfir 2.000 þátttakendur frá nær 70 löndum tóku þátt en hún flutti ávarp við upphaf þingsins.
Áhugasamur fuglaljósmyndari
Takamado prinsessa er heiðursforseti Alþjóðlegu fuglaverndunarsamtakanna (BirdLife International) og er sendiherra fugla og náttúru. Hún hefur verið ötull stuðningsmaður samtakanna í Asíu og víðar. Sjálf er hún fuglaljósmyndari og hefur gefið út fjölda bóka um viðfangsefnið.
Föruneyti prinsessunnar fór um Hafnir, Sandgerði, Garðskagavita og Fitjar í Njarðvíkum. Það sem helst vakti athygli prinsessunnar voru rjúpur á vappi á milli Hafna og Sandgerðis þar sem hún náði mynd af þeim í vetrarbúningi. Einnig náði prinsessan að taka myndir af svartbökum og ungum bjartmáfum, sem og rauðhöfðaöndum og hettumáfum í Fitjum og hópi heiðlóa í vetrarbúningi, sem hverfur brátt á braut til heitari landa.
Mynd af hennar hátign, Takamado: Sigurjón Einarsson
Prinsessan Takamado fór í fuglaskoðun um Reykjanesskaga með Fuglavernd. Hér stillir hún sér upp með Hólmfríði Arnardóttur framkvæmdastjóra Fuglaverndar, Sigurjóni Einarssyni fuglaljósmyndara og Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi.
Fuglavernd stóð fyrir fuglaskoðun á Alþjóðlegum degi farfugla 11. október síðastliðinn. Fuglaskoðarar hittust á bílastæðinu hjá Garðskagavita á Reykjanesskaga þar sem margt var um manninn. Til tíðinda dró þegar aðrir fuglaskoðarar mættu á svæðið vígbúnir sjónaukum og myndavélum og greindu frá því að vaðlatíta (Calidris fuscicollis) hefði sést á svæðinu. Þeir bentu á tvær vaðlatítur sem vöppuðu í fjörunni ásamt sanderlum, tildrum og sendlingum. Vaðlatítur verpa í Kanada og Alaska en eiga hins vegar vetursetu í Suður-Ameríku. Þær flækjast hingað til lands endrum og sinnum svo fuglaskoðarar duttu í lukkupottinn við þessa sjón.
Gengið var að vitanum og meðfram ströndinni þar sem sjá mátti hvítmáfa, silfurmáfa og súlnakast í fjarska.
Næst var förinni heitið á Hvalsnes í hádegismat og þar á eftir í Sandgerði þar sem meðal annars mátti sjá heiðlóur í vetrarbúningi undirbúa sig fyrir farflugið yfir Atlantshafið. Fuglaskoðuninni lauk í Fitjum í Njarðvíkum. Þar er fuglaskoðunarhús sem Fuglavernd mælir með að fuglaskoðarar nýti. Þar mátti sjá álftir með uppkomna unga og mikið af rauðhöfðaöndum.
Þrátt fyrir haustveður og sunnanátt þá skemmtu fuglaskoðarar sér konunglega og þakkar Fuglavernd öllum þeim sem mættu.
Bára Huld Beck hefur verið ráðin kynningar- og samskiptastjóri Fuglaverndar fyrir LIFE-verkefni um endurheimt votlendis sem unnið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, Land og skóg, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB).
Bára Huld hefur víðtæka reynslu en hún starfaði í fjölmiðlum um árabil. Hún hefur jafnframt setið í stjórn Blaðamannafélags Íslands síðustu fimm ár og í framkvæmdastjórn árin 2022-2023 og 2024-2025. Hún er með B.A.-gráðu í heimspeki og M.A.-gráðu í umhverfis- og náttúrusiðfræði og blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Hún hóf störf hjá Fuglavernd þann 1. september síðastliðinn.
Verkefnið sem um ræðir ber heitið Peatland LIFEline og miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Áhersla verður m.a. lögð á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi. Það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar. Verkefnið er formlega hafið og mun standa yfir til byrjun árs 2031.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið og starfsemi Fuglaverndar hjá Báru Huld í síma 697-3469 og í gegnum tölvupóstfangið barahuld hjá fuglavernd.is.
Við hjá Fuglavernd bjóðum Báru Huld velkomna til starfa.
Fuglavernd hefur, ásamt sex samstarfsaðilum, hlotið styrk frá LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Peatland LIFEline.is er metnaðarfullt verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Samstarfsaðilar Fuglaverndar eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB). Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands.
Áhersla lögð á þrjár fuglategundir
Verkefnið hófst formlega þann 1. september síðastliðinn og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um 6 milljónir evra (sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna).
Markmið verkefnisins Peatland LIFEline.is er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla verður lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll – sem og á evrópska álinn sem er í útrýmingarhættu. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.
Sendiherra ESB mætti á Hvanneyri
Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn dagana 22.–24. september 2025 á Hvanneyri í Borgarfirði og mættu um 50 þátttakendur. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar og Bára Huld Beck kynningarstjóri verkefnisins hjá Fuglavernd sóttu fundinn en megintilgangur hans var að ræða skipulag og framtíðarplön og leggja línurnar fyrir þau verkefni sem framundan eru.
Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, tók þátt í setningardegi fundarins ásamt sendinefnd sinni: Samúel Ulfgard, aðstoðarforstöðumanni sendinefndarinnar, og starfsnemunum Þórhildi Kristínardóttur og Þórhildi Søbech Davíðsdóttur. Sendiherrann flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi Peatland LIFEline.is sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála.
Með styrk frá Mossy Earth eru Fuglavernd, Land og skógur og Hafrannsóknarstofnun: Haf og vatn að endurheimta votlendi á Mýrunum á Vesturlandi .
Á heimasíðu Mossy Earth má lesa í máli og myndum um verkefnið sem mun m.a. greiða álum leið um votlendið, auka fjölda fugla sem sækja í votlendi sem búsvæði og auka fjölbreytni lífríkis sem að þrífst í votlendi.
Lögverndarsjóður náttúru og umhverfis var stofnaður af nokkrum náttúruverndarsamtökum árið 2002 í því skyni að veita fjárhagsstuðning til að fá úrlausn vegna lögfræðilegra álitamála er snerta náttúru- og umhverfisvernd.
Fuglavernd, Landvernd, NAUST – Náttúruverndarsamtök Austurlands, og SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi standa að baki sjóðnum. Þessi félög og aðrir velunnarar lögðu sjóðnum til ákveðið fjármagn á sínum tíma og hefur sjóðurinn þegar stutt nokkur verkefni með því fé og frjálsum framlögum.
Lögverndarsjóður hefur þann háttinn á við styrkveitingar að ef mál vinnst fyrir dómi og gagnaðili er dæmdur til að greiða málskostnað þá endurgreiðir styrkþegi styrkinn til sjóðsins. Sama á við ef gagnaðili er dæmdur til að greiða skaðabætur, þá verði styrkurinn einnig endurgreiddur til sjóðsins.
Þrátt fyrir bága stöðu margra svartfuglastofna er veiðitímabil þessara tegunda á Íslandi óvenju langt samanborið við önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Þar fyrir utan hafa rannsóknir leitt í ljós að tímabilið nær inn á varptíma tegundanna og að veiðar undir lok veiðitímans hafa mun neikvæðari áhrif á stofnstærð en veiðar að hausti. Talsvert er um magnveiði, einkum vegna þess að svartfuglar eru eftirsóttir á sumum matsölustöðum.
Ef litið er til stöðu svartfugla á íslenskum válista sést að stuttnefja, lundi og teista lenda í hættuflokkum og langvía telst vera í yfirvofandi hættu. Einungis álka virðist vera tegund sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af í dag en hún var þó í yfirvofandi hættu fyrir fáeinum árum.
Breyta þarf lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum í samræmi við tillögu Náttúruverndarstofnunar, til að hægt sé að grípa til verndandi aðgerða þótt veiðar flokkist sem hlunnindaveiðar.
Nánar er hægt að lesa um hvers vegna er brýnt að stytta veiðtíma svarfugla og tillögur Náttúrustofu Austurlands og Náttúrustofu Norðausturlands þess efnis í minnisblaði sent Náttúverndarstofnun í janúar s.l.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.