Birkifræ eftir sumarið 2023

Eins og allir fuglavinir vita, þá eru birkifræ ein aðalfæða auðnutittlinga sem nú sækja í sólblómafræ í görðum þeirra er fóðra fugla. Fuglavernd hafði samband við Skógrækt Reykjavíkur og spurðist fyrir um hvernig stæði á því að það væri svo lítið af birkifræjum eftir sumarið 2023. Gústaf Jarl Víðarsson svaraði eftirfarandi:

“Sammála að það er ekki gott fræár hjá birki og fleiri trjátegundum. Ég hef heyrt að það sé svolítið af birkifræi á Vestfjörðum, en held að það sé lítið um það annars staðar.
Ég tel að ástæðan sé veðrið í vor, þar sem bar töluvert á trjáskemmdum á lauftrjám sem voru byrjuð að laufgast en fóru í illa í kaldri SV-átt sem var ríkjandi þegar kom fram á vor, en trén voru komin nokkuð af stað í apríl og farin að laufgast. Þá voru laufin svört og veðurbarin á mörgum lauftrjám og það hefur verið umtalsvert áfall fyrir þau. Trén náðu að laufgast aftur, en þetta hefur kostað þau talverða orku og hafa trén því ekki átt fyrir fræmyndun.

Síðastliðin ár hafa birkiþéla og birkikemba verið áberandi í birki og mætti kalla það faraldra sem hafa geisað í skógunum að vori og hausti. Þessi faraldrar hafa gert það að verkum að trén missa af ljóstillífun, ný laufblöð þurfa að vaxa og eiga þá ekki inni nægilega orku til þess að mynda fræ eins og þau gerðu annars. Vonandi minnkar það vandamál með sníkjuvespu sem nam land í sumar. Sjá; Náttúrulegur óvinur birkiþélu finnst á Íslandi | Skógræktin (skogur.is)

Ég gæti trúað að það verði ágætis fræár á næsta ári, þar sem sumarið varð síðan hlýtt og haustið langt.”

 

Fuglavernd þakkar Gústafi Jarli fyrir svarið.

NAUÐSYNLEGT AÐ STÖÐVA LUNDAVEIÐAR

NAUÐSYNLEGT AÐ STÖÐVA LUNDAVEIÐAR

Í nýútkominni skýrslu Náttúrustofu Suðurlands um stofnvöktun lunda kemur fram að árlegur stofnvöxtur íslenska lundastofnsins á landsvísu er undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum og hefur líklega verið það að mestu leyti allt frá árinu 1995. Í skýrslunni er lagt til að stöðva veiðar þar til stofnvöxtur verður nægjanlegur fyrir náttúruleg afföll og hóflega veiði. Hófleg veiði telur skýrsluhöfundur að hægt sé að ná fram með sölubanni, þegar kemur að því að veiðar verði leyfðar á ný.

Fuglavernd hvetur eindregið til þess að farið verði eftir veiðiráðgjöf sérfræðinga og að lundaveiðar verði stöðvaðar strax. Nauðsynlegt er að gefa stofninum tækifæri til þess að jafna sig eftir þau áföll sem hann hefur gengið í gegnum undanfarin ár. Á meðan stofninn er í þessari stöðu eru allar veiðar ósjálfbærar.

 

Nánar er hægt að lesa um stöðu lundastofnsins  í þessari skýrslu

 

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Fuglavernd byggir afkomu sína að mestu leyti á félagsgjöldum og með aðild að félaginu færð þú m.a. áskrift að tímaritinu FUGLAR og frían aðgang að fræðslufundum og fuglaskoðunum á vegum félagsins. Gakktu (svífðu) til liðs við Fuglavernd. Árgjald er frá 4400 kr til 6600 kr.  Hér geturðu sótt um félagsaðild. 

Verkefni Fuglaverndar eru margvísleg

Fuglar byggja tilveru sína á því að geta aflað sér fæðu, ásamt því að hafa hentuga staði til hvíldar og varps. Mörg þeirra svæða sem fuglar byggja afkomu sína á eru í hættu vegna athafna mannsins.

Á meðal verkefna eru:

-ELSP – Endurheimt landslagsheilda  sem er frekar nýlegt verkefni hjá Fuglavernd

-Friðland í Flóa sem er griðastaður votlendisfugla  og annara fugla

-Garðfuglaverkefni almennings; fóðrun og talning,

-Hafnarhólminn þar sem mannveran kemst í seilingarfjarlægð við lunda og stendur á öndinni af gleði.

-Hér geturðu lesið nánar um búsvæðaverndarstarf Fuglaverndar

Fuglavernd er aðili að BirdLife International sem eru samtök 115 fuglaverndarfélaga út um allan heim.

 

 

eBird hvað er nú það?

eBird er frábært vefkerfi fyrir fuglaáhugafólk!

Langar þig að verða hluti af stærsta samfélagi fuglaáhugafólks í heimi? Langar þig að geta á einfaldan hátt haldið utan um allar þínar fuglaathuganir og lista, hvar sem er í heiminum, og jafnframt lagt þitt af mörkum til fuglarannsókna og fuglaverndar? Þá er eBird fyrir þig!

eBird er vefkerfi og app sem þróað var af Cornell háskóla í Bandaríkjunum og gerir fuglaáhugafólki kleift á einfaldan, þægilegan og endurgjaldslausan hátt að skrá og halda utan um allar sínar fuglaathuganir, hvar sem það er í heiminum. Auk þess að auðvelda því að finna nýjar tegundir og nýja staði til að skoða fugla. Á sama tíma leggur fólk sitt af mörkum til að auka skilning og þekkingu vísindamanna á dreifingu fugla í tíma og rúmi, fjölda þeirra og búsvæðanotkun Þessar upplýsingar nýtast einnig vel þegar kemur að verndun fugla. Nánar má skoða og lesa um eBird hér.

Fuglavernd hvetur áhugasama félagsmenn sína eindregið til að kynna sér kerfið og þá möguleika sem það býður upp á en aðgangur að því er ókeypis.

Finna má einfaldar leiðbeiningar um notkun eBird hér og um notkun á eBird Mobile appinu hér

Rétt er að benda á að hægt er að stilla tegundaheiti fuglanna á íslensku í appinu, svo þægilegra gæti það ekki verið. Þetta þarf aðeins að gera einu sinni og er gert með því að fara inn í „Settings“ og velja „Icelandic“ úr listanum undir „Show common names in“. Hér eftir munu tegundaheitin alltaf birtast notandanum á íslensku þegar athuganir er skráðar.

Grágæsir, Ljósm, Jóhann Óli Hilmarsson

Bann sett við sölu á grægæs

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undiritað bann við sölu á grágæs og afurðir hennar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Með breytingunni er óheimilt að bjóða til sölu eða selja grágæs og afurðir hennar. Einnig er óheimilt að flytja hana út. Heimilt er þó að selja uppstoppaða gæs.

Á undanförnum árum hefur grágæsarstofninum hnignað og er sölubann sett fram til að auka líkurnar á að stofninn nái sér á strik á ný. Lagt verður mat á stöðuna að ári liðnu og verði áframhaldandi hnignun á stofninum á þeim tíma verður lengd veiðitímabils grágæsar tekið til skoðunar. Verði hins vegar fjölgun í stofninum verður metið hvort þörf verði á áframhaldandi sölubanni.

Hér má lesa umsögn Fuglaverndar um breytingu laganna til verndunar grágæsa

Hér má lesa fréttina í heild sinni á heimasíðu Stjórnarráðsins

Fýlsungar í vanda

Fuglavernd hvetur fuglavini  sem eiga leið um Suðurland undir Eyjafjöllum og í  Mýrdal að bjarga fýlsungum.

Nú er runninn upp ágústmánuður, þegar nýfleygir fýlsungar þenja vængi sína og reyna að ná til sjávar. Tímabilið stendur fram yfir miðjan september. Það getur reynst ungun á Suðurlandi, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þrautinni þyngri að ná á haf út. Björgin þar sem þeir alast upp eru norðan þjóðvegar. Ef lygnt er þegar ungarnir taka fyrsta flugið þá ná þeir stundum ekki til sjávar og lenda á vegum, bílastæðum og í skurðum þar sem þeirra bíður óþarfur, bráður bani.

Fuglavernd hvetur fólk sem á leið um þetta svæði að leggja hönd á plóg við að bjarga ungunum. Gott er að vera vel sýnileg og klæðast jafnvel gulu vesti og hafa með handklæði, létt teppi eða gamalt lak og kassa. Þegar ungi hefur verið fangaður skal sleppa honum af bryggju eða  setja hann í árós eða í lygna á sem að mun endanlega bera hann til sjávar.

 

Starfsmaður RSPB

Hanna Philips, starfsmaður RSPB (breska fuglaverndarfélagsins), verður í Vík við björgun og  við merkingar á fýlsungum til 3. september. Þeir sem vilja slást í för með henni geta haft samband við hana beint, sími +447793036536 eða fengið upplýsingar í  Kötlusetri upplýsingamiðstöðinni í Vík í Brydebúð við Víkurveg. 

 

Hvernig bjargar maður fýlsunga?

Nánari útskýringar á björgun fýlsunga  og hvernig kassa sé best að nota er hægt að lesa um á heimasíðu Fuglaverndar. 

Þeir sem nota Facebook og vilja taka þátt í fýlsungabjörgun geta verið með í lokuðum fýlsungabjörgunarhópi á FB. Vinsamlega meldið ykkur með pósti til:  fuglavernd@fuglavernd.is og þið fáið senda slóð til að skrá ykkur í hópinn.

 

Harmafrétt: Fallinn er frá Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur

Harmafrétt hefur borist, vinur okkar Skarphéðinn G. Þórisson er allur! Hann fórst ásamt samstarfskonu og flugmanni er flugvélin TF-KLO brotlenti við Sauðahnjúka þann 9. júlí. Tilgangur þessarar ferðar, eins of fjölmargra annarra áður, var að vakta hreindýrastofninn. En margt fer öðru vísi en ætlað er. Á öræfunum þar eystra, landi sem Skarphéðni var svo kært, mætti hann sinni skapanorn. Sannarlega grimm örlög góðs drengs.

Skarphéðinn fékk snemma áhuga á gangverki náttúrunnar. Á unglingsárum urðu fuglar hugfang hans, en einnig flóran og dýralíf fjörunnar. Þá var alfa og ómega fuglarannsókna hér á landi á Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem dr. Finnur Guðmundsson ríkti og skipulagði öflugt starf fuglaáhugamanna. Skarphéðinn tók virkan þátt í því starfi og þar var hans ævibraut mörkuð, líkt og svo margra annarra sem unnu undir handarjaðri dr. Finns.

Að loknu námi í menntaskóla fór hann í Háskóla Íslands og nam líffræði. Teningunum var kastað þegar hann sem nýútskrifaður líffræðingur árið 1978 var ráðinn til Náttúrufræðistofnunar til að sinna hreindýrarannsóknum vegna fyrirhugaðra virkjana á Austurlandi. Þá var ekki aftur snúið, hreindýrin, náttúran, landið og mannlíf þar eystra heillaði og seiddi hann til sín. Hann fluttist austur 1983 og bjó þar allar götur síðan. Hans aðalvinna til aldamóta var kennsla við Menntaskólann á Egilsstöðum. Honum féll vel það hlutskipti, hafði ánægju af því að kenna og fræða, og sem uppfræðari var hann virtur og elskaður af nemum sínum.

Meðfram kennslu sinnti Skarphéðinn hreindýrarannsóknum og vöktun stofnsins hvíldi reyndar meira og minna á hans herðum allt frá 1978. Með stofnun Náttúrustofu Austurlands 1995 var kominn vettvangur þar eystra fyrir fast athvarf hreindýrarannsókna. Skarphéðinn var sjálfkjörinn fræðimaður í það hlutverk og frá árinu 2000 var hann starfsmaður stofunnar. Það er þyngra en tárum taki að nú svo nærri lokum farsæls ferils og í fylgd þess sem átti að taka við keflinu, skuli höggið ríða! Eftir sitjum við hin ráðvillt og hnípin.

Skarphéðinn var náttúruverndarmaður og talaði fyrir skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Hann var félagi í Fuglavernd frá unglingsárum, en það er félag sem berst fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Hann stýrði um langt skeið Austurlandsdeild Fuglaverndar og sat í stjórn Fuglaverndar er hann lést. Fyrir hönd Fuglaverndar þökkum við Skarphéðni fyrir hans framlag til félagsins í áratugi. Ólafur og Jóhann Óli vilja jafnframt nota tækifærið og þakka fyrir hálfrar aldar vináttu og tryggð. Við vottum Ragnhildi, börnunum og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúð, þeirra missir er mestur. Minningin um góðan dreng lifir!

Ólafur K. Nielsen, fyrrum formaður Fuglaverndar
Jóhann Óli Hilmarsson, fyrrum formaður Fuglaverndar
Menja von Schmalensee, formaður Fuglaverndar
Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar

Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason

NACES hafsvæðið verður verndað að öllu leyti, einnig sjávarbotninn.

Fuglavernd hvatti félagasmenn og alla fuglaunnendur að skrifa undir áskorun til OSPAR nefndarinnar um vernda sjávarbotn NACES svæðisins, ekki bara yfirborðið.

OSPAR nefndin hefur ákveðið að svæðið allt þ.m.t. hafsbotninn verði verndað.

Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?

Vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar – frá yfirborði til sjávarbotns – eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal gesta NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, krían og haftyrðilinn. Íslenskir óðinshanar koma þar við í langferðum sínum milli heimsálfa.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyði, leðurskjaldböku, klumbudrögu (skjaldbökutegund), túnfiska, beinhákarl, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.

Smelltu hér til að sjá hvar í veröldinni  NACES er statt.

 

 

Lundi er ein margra fuglategunda sem að dvelst þar veturlangt.

 

Nánari frétt um verndun  NACES frá botni til yfirborðs á heimasíðu BirdLife International

Kría með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benedíktsdóttir.

Vegna aðgerða Ísafjarðarbæjar gegn kríuvörpum

Snemma í júní sendi Fuglavernd bréf til Ísafjarðarbæjar vegna aðgerða sveitarfélagsins gegn kríuvörpum.

,,Fuglavernd vill með bréfi þessu koma á framfæri miklum áhyggjum af aðgerðum
Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að
markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð.”

Lögin

,,Bent er á að samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum (nr. 64/1994) er krían friðaður fugl. Í lögunum, sem meðal annars hafa það að
markmiði að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, kemur fram að:
Úr 1. gr.:
Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr
viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og
hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.”

Krían komin á válista

,,Krían er stórkostleg lífvera. Hún er heimsmetshafi í öllu dýraríkinu þegar kemur að árlegum
farvegalengdum. Krían er langlíf, verður að jafnaði um 30 ára, og ferðast um 80-90.000 km á
ári, sem jafngildir því að hver fugl fari um þrisvar sinnum fram og til baka til tunglsins á ævi
sinni. Það er því kannski engin furða að hún verji afkvæmi sín með miklum tilþrifum, eftir að
hafa lagt á sig þetta mikla ferðalag til að komast á varpstöðvar.1
Því miður hefur krían átt verulega undir högg að sækja frá því snemma á þessari öld, að
öllum líkindum vegna breytinga í hafinu sem mögulega eru til komnar vegna loftslagsvár af
mannavöldum. Hún telst vera tegund í nokkurri útrýmingarhættu (VU) skv. válista íslenskra
fugla. Mikilvægt er að hafa í huga að 20–30% af heimsstofni kríunnar er að finna hér á landi
á sumrin.”

Válisti fugla á heimasíðu NÍ

Aðgerðir og lögin

,,Að lokum vill Fuglavernd leggja áherslu á að kjósi Ísafjarðarbær að halda uppteknum hætti
með notkun fælingaraðgerða er mjög brýnt að rannsóknir á áhrifum þessara aðgerða fari
fram, til að skilja til fullnustu hvaða áhrif þær hafa á bæði kríuna og aðra friðaðar tegundir
sem verpa á svipuðum slóðum, og til að mæla hversu langt frá fælingarbúnaðinum þau áhrif
ná. Fuglavernd getur haft milligöngu um að koma slíkum rannsóknum á, en áréttar þó að
notkun fælingarbúnaðar í vörpum friðaðra fuglategunda stríðir gegn markmiðum gildandi
laga.”

Bréfið í heild sinni má lesa hér.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

Erindið var tekið fyrir í bæjarráði Ísafjarðarbæjar og afgreitt á eftirfarandi hátt: „Kríuvarp í Tunguhverfi: Lagt fram bréf frá Fuglavernd dags. 5. júní 2023, þar sem komið er á framfæri áhyggjum af aðgerðum Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð. Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs þann 12. júní sl. þar sem eftirfarandi var bókað „Bæjarráð þakkar erindið og vísar málinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar. Við undirbúning máls þessa var reynt að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar, og að það yrði gert áður en fuglinn myndi setjast, en Ísafjarðarbær hefur fengið ítrekaðar beiðnir frá íbúum í Skutulsfirði um aðgerðir. Þá skal horft til þess að kríunni sjálfri er hætta búin á að verpa á þessu svæði, enda er varplandið mjög nálægt vegi, og hefur dauði unga síðustu ár verið mikill vegna þess. Ísafjarðarbær hefur verið í samskiptum við Nave til að finna lausn á málinu og verður áfram, og felur bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram samtali við Nave, auk Fuglaverndar vegna málsins.“