Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason

NACES hafsvæðið verður verndað að öllu leyti, einnig sjávarbotninn.

Fuglavernd hvatti félagasmenn og alla fuglaunnendur að skrifa undir áskorun til OSPAR nefndarinnar um vernda sjávarbotn NACES svæðisins, ekki bara yfirborðið.

OSPAR nefndin hefur ákveðið að svæðið allt þ.m.t. hafsbotninn verði verndað.

Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?

Vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar – frá yfirborði til sjávarbotns – eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal gesta NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, krían og haftyrðilinn. Íslenskir óðinshanar koma þar við í langferðum sínum milli heimsálfa.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyði, leðurskjaldböku, klumbudrögu (skjaldbökutegund), túnfiska, beinhákarl, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.

Smelltu hér til að sjá hvar í veröldinni  NACES er statt.

 

 

Lundi er ein margra fuglategunda sem að dvelst þar veturlangt.

 

Nánari frétt um verndun  NACES frá botni til yfirborðs á heimasíðu BirdLife International

Kría með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benedíktsdóttir.

Vegna aðgerða Ísafjarðarbæjar gegn kríuvörpum

Snemma í júní sendi Fuglavernd bréf til Ísafjarðarbæjar vegna aðgerða sveitarfélagsins gegn kríuvörpum.

,,Fuglavernd vill með bréfi þessu koma á framfæri miklum áhyggjum af aðgerðum
Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að
markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð.”

Lögin

,,Bent er á að samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum (nr. 64/1994) er krían friðaður fugl. Í lögunum, sem meðal annars hafa það að
markmiði að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, kemur fram að:
Úr 1. gr.:
Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr
viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og
hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.”

Krían komin á válista

,,Krían er stórkostleg lífvera. Hún er heimsmetshafi í öllu dýraríkinu þegar kemur að árlegum
farvegalengdum. Krían er langlíf, verður að jafnaði um 30 ára, og ferðast um 80-90.000 km á
ári, sem jafngildir því að hver fugl fari um þrisvar sinnum fram og til baka til tunglsins á ævi
sinni. Það er því kannski engin furða að hún verji afkvæmi sín með miklum tilþrifum, eftir að
hafa lagt á sig þetta mikla ferðalag til að komast á varpstöðvar.1
Því miður hefur krían átt verulega undir högg að sækja frá því snemma á þessari öld, að
öllum líkindum vegna breytinga í hafinu sem mögulega eru til komnar vegna loftslagsvár af
mannavöldum. Hún telst vera tegund í nokkurri útrýmingarhættu (VU) skv. válista íslenskra
fugla. Mikilvægt er að hafa í huga að 20–30% af heimsstofni kríunnar er að finna hér á landi
á sumrin.”

Válisti fugla á heimasíðu NÍ

Aðgerðir og lögin

,,Að lokum vill Fuglavernd leggja áherslu á að kjósi Ísafjarðarbær að halda uppteknum hætti
með notkun fælingaraðgerða er mjög brýnt að rannsóknir á áhrifum þessara aðgerða fari
fram, til að skilja til fullnustu hvaða áhrif þær hafa á bæði kríuna og aðra friðaðar tegundir
sem verpa á svipuðum slóðum, og til að mæla hversu langt frá fælingarbúnaðinum þau áhrif
ná. Fuglavernd getur haft milligöngu um að koma slíkum rannsóknum á, en áréttar þó að
notkun fælingarbúnaðar í vörpum friðaðra fuglategunda stríðir gegn markmiðum gildandi
laga.”

Bréfið í heild sinni má lesa hér.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

Erindið var tekið fyrir í bæjarráði Ísafjarðarbæjar og afgreitt á eftirfarandi hátt: „Kríuvarp í Tunguhverfi: Lagt fram bréf frá Fuglavernd dags. 5. júní 2023, þar sem komið er á framfæri áhyggjum af aðgerðum Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð. Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs þann 12. júní sl. þar sem eftirfarandi var bókað „Bæjarráð þakkar erindið og vísar málinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar. Við undirbúning máls þessa var reynt að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar, og að það yrði gert áður en fuglinn myndi setjast, en Ísafjarðarbær hefur fengið ítrekaðar beiðnir frá íbúum í Skutulsfirði um aðgerðir. Þá skal horft til þess að kríunni sjálfri er hætta búin á að verpa á þessu svæði, enda er varplandið mjög nálægt vegi, og hefur dauði unga síðustu ár verið mikill vegna þess. Ísafjarðarbær hefur verið í samskiptum við Nave til að finna lausn á málinu og verður áfram, og felur bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram samtali við Nave, auk Fuglaverndar vegna málsins.“

 

Fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík 2022

“Fuglalífi Tjarnarinnar hefur hnignað á liðnum árum og áratugum og það er óumdeilt.
Við teljum að þrjár meginskýringar séu á þessari þróun og höfum rökstutt það í fyrri
skýrslum. Skýringar okkar eru:
• fæðuskortur
• afrán
• hnignun búsvæða.

Við höfum áður rætt ítarlega mögulegar mótvægisaðgerðir og viljum í því sambandi
benda á Tjarnarskýrslur frá 2011 og 2112 (Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson
2011 og 2012, sjá líka Ólaf K. Nielsen 2013). Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í
hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og
hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum.”

Árlega kemur út skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar og er hún frlóðleg lesning fyrir vini Tjarnarinnar en ekki alltaf að sama skapi ánægjuleg.

Hér er hægt að lesa skýrsluna um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2022

Fugla- og votlendisskoðun Fuglaverndar 18. júní 2023

Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.

Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.

Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.

Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.

 

Alls sást 41 fuglategund í ferðinni:

Álft
Grágæs
Brandönd
Rauðhöfðaönd
Urtönd
Stokkönd
Skúfönd
Duggönd
Æðarfugl
Toppönd
Rjúpa
Lómur
Fýll
Dílaskarfur
Haförn
Tjaldur
Sandlóa
Heiðlóa
Lóuþræll
Hrossagaukur
Jaðrakan
Spói
Stelkur
Tildra
Óðinshani
Kjói
Hettumáfur
Stormmáfur
Sílamáfur
Hvítmáfur
Svartbakur
Rita
Dvergmáfur
Kría
Teista
Þúfutittlingur
Maríurela
Svartþröstur
Skógarþröstur
Hrafn
Stari

 

Samstarfsaðilar frá RSPB

Í apríl heimsóttu Zbig Karpowicz og Wenceslas Gatarabirwa Fuglavernd, en báðir eru þeir starfsmenn RSPB;  Royal Society for the Protection of Birds. Zbig er verkefnisstjóri og tengill Fuglaverndar innan RSPB og Wenceslas er yfirmaður Flyway Conservation eða verndun farleiða fugla.  Hér er hægt að fræðast nánar um farleiðaverkefnið á ensku.

Votlendi mikilvæg fuglum

Votlendi eru ofarlega á baugi því að þau eru mikilvæg búsvæði og fæðuöflunarsvæði margra fuglategunda og eru stundum kölluð lungu landsins. Starfsmenn Fuglaverndar Hólmfríður  og Anna María sýndu þeim félögum Friðland í Flóa og votlendi í kringum Grunnafjörð sem er friðlýst svæði m.a. vegna fuglalífs.

Farið var í Odda á Rangárvöllum og skoðað votlendi sem að Landgræðslan hefur umsjón með, en Oddi er ríkisjörð. Þar tók á móti okkur Ágústa Helgadóttir, líffræðingur hjá Landgræðslunni.  Hún fræddi okkur um hvernig stendur til að endurheimta votlendi jarðarinnar langkeru í eigu ríkisins og sameina það votlendinu Oddaflóði. Einnig skoðuðu þau verkefni um endurheimt á Mýrunum sem gagnast bæði fuglum og fiskum, sem Fuglavernd stendur að ásamt Hafrannsóknarstofnun og Landgræðslunni.

Þeir Wenceslas og Zbig ásamt Hólmfríði heimsóttu svo m.a. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og áttu þar fund með Sigurði Þráinssyni og Steinari Kaldal.  Rætt var um votlendi og farleiðir fugla og möguleikann á að sækja í sjóð til endurheimtar á votlendi.

Sjálfboðaliðar Fuglaverndar – mikilvægur hlekkur

Sjálfboðaliðastarf Fuglaverndar er mikilvægur hlekkur í starfi þess. Það þarf að taka til hendinni á svæðum sem að félagið er með í sinni umsjón og síðan er þetta vettvangur fyrir félaga til að hittast og kynnast.

Nokkrir sjálfboðaliðar Fuglaverndar komu saman í Vatnsmýrinni laugardaginn 15. apríl og tóku til hendinni við að hreinsa rusl í kringum friðlandið og upp úr tjörnum og síkjum. Þetta var aldeilis þarft verk og alltaf er fólk jafn hissa á því hvað safnast saman: Plastbretti af bílum, einangrunarplast, plast umbúðir stórar og smáar, þúsund sígarettusíur (filter) og þar fram eftir götunum.  Veður var milt og gott og vannst verkið vel og þáðu allir hressingu í gróðurhúsi Norræna hússins í hléinu.

 

 

 

Tveir sjálfboðaliðar merktu göngustíg í Friðlandi í Flóa 23. apríl. Þann morgun var slatti af lóuþrælum í flóanum.  Nokkuð fleri sjálfboðaliðar mættu í Friðlandið 28. apríl þegar skyndilega hafði snjóað í milt vorið. Gengið var rösklega til verka: Kamar þrifinn, fuglaskoðunarhús þrifið, tröppur yfir girðingu festar, hlið að göngustíg lagað, göngubrú færð, fuglaskoðunarhús skrapað undir fúavörn og týnt rusl. Mikið vatn var báðar helgarnar í flóanum  og há stígvél komu að góðum notum. Þegar sjálfboðaliðarnir tóku hádegishlé þá hurfu ský af himni og sólskinið náði að verma Friðland, fugla og fólk.  Fuglar hímdu á veginum að Friðlandinu og meðal tegunda sem þar sáust á flugi, sundi eða vappi í Friðlandinu voru lómar, lóur, starar, hrossagaukar og álftir.

Nýr formaður og ný stjórn Fuglaverndar

Aðalfundur 2023

Á nýliðnum aðalfundi Fuglaverndar var Menja von Schmalensee kosin nýr formaður félagsins. Menja hefur setið í stjórn Fuglaverndar frá árinu 2018 og verið varaformaður frá 2019.Hún hefur mikla reynslu af fuglavernd og var m.a. formaður nefndar umhverfisráðherra sem vann viðmikla úttekt um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra á Ísland.  Hér má opna og lesa skýrsluna á heimasíðu stjórnarráðs. Þá hefur hún skrifað fjölda greina sem tengjast fugla- og náttúruvernd og finna má hér. Menja er líffræðingur að mennt og starfar sem sviðsstjóri á Náttúrustofu Vesturlands.

Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn í 60 ára sögu félagsins að kona gegnir stöðu formanns, sem verður að teljast tímamót.

Svenja Auhage og Aldís Erna Pálsdóttir voru kosnar nýjar inn í stjórn. Þær eru báðar fuglafræðingar með mikla reynslu af fuglarannsóknum.

Úr stjórninni gengu Ólafur Karl Nielsen og Erpur Snær Hansen og er þeim þakkað kærlega fyrir vel unnin störf til margra ára í þágu félagsins.

Stjórn Fuglaverndar 2023-2024 er því þannig skipuð:
Menja von Schmalensee, formaður
Aldís Erna Pálsdóttir
Daníel Bergmann
Skarphéðinn G. Þórisson
Snæþór Aðalsteinsson
Svenja Auhage
Trausti Gunnarsson

Í tilefni kosningarinnar hélt nýkjörinn formaður Fuglaverndar ræðu sem finna má hér

Kettir og fugladráp þeirra – hvað er til ráða?

Áskorun til kattaeigenda á varptíma

Nú er vorið komið og með hækkandi hitastigi og meiri birtu fara dýr af flestum tegundum að huga að vorverkum og eru meira á ferðinni en yfir vetrartímann. Fuglar af öllum stærðum og gerðum hafa mikið að gera á þessum tíma. Sumir hafa haft mikið fyrir því að koma sér til landsins. Þeir parast, gera sér hreiður og liggja á eggjum í marga sólarhringa áður en ungarnir skríða út. Fjölmörg höfum við gaman af að fylgjast með öllu ferlinu.
Heimiliskettir hrista líka af sér vetrarslenið og eru oft meira úti við. Kettir eru rándýr og geta valdið miklum afföllum hjá fuglum, sér í lagi á varptíma. Til eru nokkur ráð fyrir ábyrga kattaeigendur til að reyna að minnka þann skaða sem þeirra kettir mögulega valda. Til dæmis er hægt að halda köttum inni yfir varptímann en hafa þarf í huga að kettir þurfa þá meiri leik og athygli á þeim tíma. Hægt er að halda köttunum inni ákveðinn tíma sólarhrings og þá helst yfir kvöld og nótt (u.þ.b. frá kl. 17:00 til kl. 09:00). Til að venja ketti á að koma inn seinni partinn má prófa að gefa þeim eitthvað sem eigandinn veit að kisu finnst gott. Æskilegt er að setja bjöllur á hálsólar og einnig hafa kattakragar sem settir eru á ólarnar gefið góða raun.

Samkvæmt grein á heimasíðu Fuglaverndar  drepa kettir með litríka kraga mun færri fugla en kettir með engan kraga en hér eru nokkrar greinar um veiðar katta, kraga og annað tengt því. Kragana er hægt að fá á allnokkrum stöðum svo sem hjá Fuglavernd, , Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, gæludýraverslunum og hjá dýralæknum.

 

Í vor vilja Fuglavernd – BirdLife Iceland, Kattavinafélag Íslands, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og Dýraþjónusta Reykjavíkur í sameiginlegu átaki skora á kattaeigendur að gæta katta sinna vel og reyna að lágmarka fugladráp þeirra.

Ljsm Yves Adams

NACES MPA – the North Atlantic Current and Evlanov Seamount

Í viðamiklu samstarfsverkefni, undir forystu BirdLife International, fannst svokallaður heitur reitur sjófugla sem er á stærð við Frakkland í miðju Norður-Atlantshafi. Svæðið er eitt það mikilvægasta fyrir sjófugla í Atlantshafinu og fyrsta sjófuglaþyrping af þessari stærðargráðu sem skráð hefur verið í úthöfunum. Svæðið nær yfir tæplega 600,000 km2 og yfir 5 milljón sjófuglar halda til þar. Svæðið sem kallast NACHES fékk stöðu verndarsvæðis í hafi samkvæmt OSPAR-samningnum í október 2021 (Fundirnir voru haldnir í Osló og París) . Þetta eru frábærar fréttir en því miður var sjávarbotn svæðisins ekki tekin með sem hluti af verndarsvæðinu.

Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?

Vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar – frá yfirborði til sjávarbotns – eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal gesta NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, krían og haftyrðilinn. Íslenskir óðinshanar koma þar við í langferðum sínum milli heimsálfa.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyði, leðurskjaldböku, klumbudrögu (skjaldbökutegund), túnfiska, beinhákarl, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.

BirdLife samstarfið skorar á OSPAR-nefndina að greiða atkvæði með aukinni vernd, í kosningum í júní 2023. Þetta mikilvæga svæði NACES MPA – the North Atlantic Current and Evlanov Seamount.

Hér geturu lesið nánar um málið á heimasíðu Bird Life International

Hjálpaðu okkur að vernda NACES frá hafsbotni til sjávaryfirborðs með því að skrifa undir áskorun okkar og sýna OSPAR-nefndinni að þér þykir vænt um velferð og heilsu hafsins!

Hér getur þú skrifað undir áskorun til OSPAR nefndarinnar um að vernda einnig hafsbotninn

 

Þúfutittlingur á hvönn. Ljósmynd © Árni Árnason

Rúðudauðinn – Áflug fugla á rúður

Milljónir fugla um allan heim drepast þegar þeir fljúga á rúður. Fuglarnir átta sig ekki alltaf á því að rúða er í veginum, og halda að leiðin sér greið. Þeir fuglar hérlendis sem fljúga á rúður eru helst þúfutittlingar, skógarþrestir, auðnutittlingar og hrossagaukar.

Fuglavernd selur skuggamynd af fálka til að líma á rúður. Athugið að betra er að líma árekstrarvörnina á rúðuna utanverða því annars getur skuggamyndin horfið í speglun af umhverfinu.  Einnig er hægt að útbúa  sjálfur árekstrarvörn með t.d. tússliti, snæri eða öðru. Ein leið er að strika lóðréttar línur á utanverðri rúðu með vatnsheldum tússlit. Gott er að hafa 5-10cm á milli lína. Einnig er hægt að útbúa eða kaupa þar til gerð gluggahengi . Slík hengi eru köluð acopian bird savers og hér fyrir neðan er linkur á ágætt myndband um slíkt. 

 

árekstrarvörn hvít – skuggamynd fálki
Fálkaskuggamynd - árekstrarvörn fyrir fugla
árekstarvörn – svört – skuggamynd fálki

 

Nokkra heimasíður með ráðleggingar

-Hér er góð norsk grein um áflug fugla á rúður

-American Bird Conservancy eru með heilmikið af ráðleggingum og uppskriftum að  rúðuvörnum fyrir fugla

-Hér eru góð ráð til að koma í veg fyrir áflug á heimsíðu The Humane Society of the United States

-Hér er að finna leiðbeiningar um hvernig maður býr til acopia fuglabjörgunarlínur.