Fugl ársins 2021 – Atkvæðin streyma inn

Atkvæði streyma nú inn í tengslum við kjör á Fugli ársins 2021 og hafa nú um 1500 manns greitt atkvæði. Allir sem hafa íslenska kennitölu hafa atkvæðisrétt og engin aldursmörk eru á kjörgengi. Velja má allt að 5 fugla sem 1.-5. val en ekki má setja sama fuglinn í fleiri en eitt sæti.

Allir fuglarnir komnir með kosningastjóra 
Lómar berjast um óðal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Lómar eru oft með mikið busl og læti eins og kjósendur Fugls ársins 2021 í heitu pottunum um þessar mundir. Lómur keppir þó ekki um titilinn í ár. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Allir fuglarnir 20 sem eiga möguleika á titlinum Fugl ársins 2021 náðu að krækja sér í sérstaka kynningarfulltrúa í formi talskvenna og kosningastjóra. Um er að ræða fólk á öllum aldri og úr öllum áttum sem á það sameiginlegt að vera fuglavinir. Sum þeirra hafa komið upp samfélagsmiðla- og vefsíðum fyrir fugla sína og einnig hafa þau dyggilega talað máli sinna fugla í fjölmiðlum án þess að halla á aðra frambjóðendur.

Fuglavernd reiknar með að spennan eigi eftir að magnast eftir því sem líður á kosninguna en henni lýkur sunnudaginn 18. apríl kl. 18. Nú þegar heitu pottarnir hafa opnað aftur er einnig næsta víst að Fugl ársins 2021 verði heitasta umræðuefnið þar enda hefur fólk sterkar skoðanir á því hver á að verða Fugl ársins. Fuglavernd hefur nokkrar áhyggjur af því að einhverjir muni missa sig í skvett og fjaðrafok eins og buslöndum er gjarnt, en biðlar til fólks að gæta ítrustu sóttvarna og virða fjarlægðarmörk.

Á vef keppninnar má finna hlekk á kjörseðilinn, upplýsingar um frambjóðendur og fyrirkomulag kosninganna.

KJÓSA FUGL ÁRSINS 2021