Kosning um Fugli árins 2021 hefur tekið flugið og stendur hún til kl. 18 sunnudaginn 18. apríl.
Finna má hlekk á rafrænt kosningaeyðublað, upplýsingar um frambjóðendur, kosningastjóra þeirra og allar nánari upplýsingar um kosninguna á síðu keppninnar á hlekknum hér:
Fugl ársins 2021
Atkvæði eru þegar farin að streyma inn eins og farfuglar að vori og einnig umsóknir um stöður kosningastjóra fuglanna sem eru í framboði. Nú eru 9 fuglar af 20 sem eru í framboði búnir að næla sér í einn slíkan. Þó kosningin sé hafin er enn hægt að sækja um stöður kosningastjóra þeirra fugla sem út af standa og freista þess að gefa þeim byr undir báða vængi í keppninni.
Á myndinni með þessari frétt er blesgæs sem ekki keppir um titilinn Fugl ársins þetta árið en hún tók að sér af mesta hlutleysi að myndskreyta fréttina á táknrænan hátt þar sem hún hefur sig til flugs. Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson.
Uppfært: Allir fuglarnir í framboði um titilinn Fugl ársins 2021 eru nú komnir með kosningastjóra og talskonur!