Nú er ljóst hvaða 20 fuglar munu keppa um titilinn Fugl ársins 2021. Fuglavernd leitaði til almennings um að tilnefna fugla í keppnina og rökstyðja valið vel. Fjöldi tilnefninga barst og alls fengu 46 íslenskar fuglategundir tilnefningu, auk gárans Nóa sem ættaður er frá Ástralíu. Hann fékk tilnefningu frá eiganda sínum með mjög góðum rökstuðningi: ,,Nói er blíður og góður en samt stundum nett frekur, hann er uppáhalds fuglinn minn”. Nói komst þó því miður ekki á listann því einungis villtir fuglar eiga keppnisrétt. Valið var þó mjög erfitt því auðvitað eiga allir fuglar skilið að vera fugl ársins. Ein röksemdin var einmitt á þá leið:
,,Sá fugl sem ég horfi á hverju sinni er minn uppáhalds fugl, svo eiginlega ætti ég að nefna þá alla”
Í þessari keppni getur þó aðeins einn orðið Fugl árins 2021 svo nú er um að gera að gera upp hug sinn um hver af þessum 20 á listanum á titilinn helst skilið. Kosningarnar sjálfar fara fram 9.-18. apríl og Fugl ársins 2021 verður kynntur á sumardaginn fyrsta 22. apríl.
Smelltu hér til að sjá hvaða fuglar keppa um titilinn Fugl ársins 2021.