Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.