Umhverfisstyrkur úr Samfélagssjóði Landsbankans

Fuglavernd hlaut í sumar umhverfisstyrk úr samfélagssjóði Landsbankans. Styrkurinn er veittur til að útbúa kynningarefni um Friðlandið í Flóa og þann árangur sem náðst hefur þar við endurheimt votlendis. Endurheimt votlendis við Friðlandið í Flóa hófst árið 1997 og því er verkefnið tuttugu ára í ár. Hólmfríður Arnardóttir tók á móti styrknum fyrir hönd félagsins.

Fimmtán verkefni hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóðnum miðvikudaginn 5. júlí, sjá frétt Landsbankans. Fimm verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og tíu verkefni 250 þúsund krónur hvert, samtals fimm milljónir króna. Þetta var í sjöunda sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans en í ár bárust um 70 umsóknir.

Umhverfisstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Styrkirnir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umhverfismál, efnahagsmál og samfélagsmál saman við rekstur sinn.

Í dómnefnd sátu Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð og dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.

Styrkþegar eða fulltrúar þeirra ásamt dr. Guðrúnu Pétursdóttur, formanni dómnefndar, lengst t.v. og Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans t.h.