Friðlandið í Flóa

Loftmynd af Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Loftmynd af Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Aðdragandi

Umræða um endurheimt framræsts votlendis hefur verið áberandi undanfarin misseri og hefur Fuglaverndarfélag Íslands verið framarlega í flokki þeirra sem hafa sett þetta brýna umhverfismál á oddinn. Vorið 1997 fékk Fuglaverndarfélagið styrk úr Umhverfissjóði verslunarinnar, sem gerði því kleift að hefjast handa við endurheimt votlendis og uppbyggingu friðlands fugla í Flóa við Ölfusárós. Sama sumar undirrituðu félagið og Eyrarbakkahreppur sinn fyrsta samstarfssamning og hófst strax vinna sem miðaði að færa votlendið í upprunalegt horf. Eftir sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa tók Sveitarfélagið Árborg við samstarfinu og síðan þá hefur markvisst verið unnið að uppbyggingu í Friðlandinu fyrir fuglaskoðara m.a. með stuðningi Pokasjóðs og Ferðamálaráðs, jafnframt sem votlendi hefur verið endurheimt í áföngum og undanfarin ár með styrk frá Auðlind.

Það var annað votlendið sem hafin var endurheimt á hérlendis. Á Degi umhverfisins árið 2010 undirrituðu Árborg og Fuglavernd nýjan samstarfssamning og jafnframt var þá formlega opnað fuglaskoðunarhús í Friðlandinu. Húsið er öllum opið frá vori fram á haust og þar er aðgengi fyrir fatlaða, en húsið er sérstaklega hannað með hjólstóla í huga.

Landslag og jarðsaga

Flæðiengjar og tjarnir setja svip á Friðlandið. Stærð þess er um 5 km2, það er um 1–1,5 km á breidd og telst ásamt Ölfusforum til ósasvæðis Ölfusár sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (á IBA skrá BirdLife International). Landið er lágt og meðalhæð yfir sjávarmáli aðeins um 2 m.

Í flóðum í Ölfusá liggur vatn yfir því öllu og aðeins hólarnir í Stakkholti, þar sem skoðunarhúsið stendur, standa uppúr. Á stórstreymi gætir sjávarfalla í Friðlandinu. Í góðu skyggni er fjallasýnin úr Friðlandinu stórbrotin. Flóinn stendur á hinu mikla Þjórsárhrauni sem rann fyrir um 8700 árum. Það myndaðist í gosi á Veiðivatnasvæðinu og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld.

Yfirborð Friðlandsins er þakið litlum pyttum og tjörnum. Lægðir í hinu forna hrauni eru vatnsfylltar vegna hárrar grunnvatnsstöðu og skýrir það myndun tjarnanna. Í Flóanum nefnast þessar tjarnir eða pollar Dælir. Þær dreifast um allt hraunið og skipta þúsundum. Dælirnar eru frá því að vera um 4 m í þvermál uppí nokkra tugi metra og eru flestar grunnar.

Fuglar í Friðlandinu

Um 70 fuglategundir hafa sést í Friðlandinu en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma.

Af andfuglum verpur álft (3–4 hjón), grágæs (tugir), stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd og toppönd. Grafönd er líklega árviss og gargendur og skeiðendur hafa sést á varptíma, en þær endur eru allar sjaldgæfar hér á landi. Lómur verpur víða við tjarnir og skipta pörin tugum og telst hann einkennisfugl Friðlandsins en lómavarp óx til muna við endurheimt votlendis í Friðlandinu.

Töluvert æðavarp er í Kaldaðarneseyjum í Ölfusi, undan Flógaflsengjum og nokkrar kollur verpa í sjálfu Friðlandinu. Hettumáfur er óreglulegur. Fáein kjóa-, sílamáfs- og svartbakshjón verpa. Kríur sækja þangað í ætisleit. Brandugla er líklega árviss varpfugl, þó hreiður finnist ekki á hverju ári. Oft má sjá uglurnar á sveimi í kvöldhúminu í ætisleit, sérstaklega meðan þær eru að fóðra unga sína.

Mófuglar setja mikinn svip á votlendið. Þær tegundir sem verpa í mýrunum eru lóuþræll, spói, jaðrakan, hrossagaukur, óðinshani og þúfutittlingur. Þéttleiki lóuþræls og óðinshana er óvenjumikill. Heiðlóa og tjaldur verpa á þurrum stöðum.

Á fartíma, vor og haust, ber mest á grágæs og blesgæs, öndum eins og rauðhöfða og skúfönd, ýmsum vaðfuglum eins og hrossagauki, svo og steindepli. Á veturna ber mest á fuglum á Ölfusárós, aðallega máfum en stundum sjást hávellur og æðarfuglar. Þegar vatn er opið í Friðlandinu sjást álftir, urtendur, stokkendur og gulendur.

Lómurinn er nokkurs konar einkennisfugl svæðisins og valdi Fuglavernd lóminn sem fugl ársins 2017

Friðlandið í Flóa - Fuglategundir.pdf skjalið hefur að geyma lista yfir þær fuglategundir sem sjá má í friðlandinu og á hvaða árstíma.

Gróður og dýralíf í Friðlandinu

Yfir 70 háplöntur hafa fundist í Friðlandinu. Í mýrunum vex fjölbreyttur votlendisgróður. Flæðiengjarnar eru vaxnar þroskamikilli gulstör en í þurrara landi er loðvíðir, gulvíðir, mýrastör og klófífa ríkjandi ásamt ýmsum grastegundum. Gulstörin var slegin alveg fram undir 1970 og áttu margir bæir í Eyrarbakkahreppi slægjurétt á engjunum.

Flestar tjarnir eru bryddaðar ljósastör og þar vaxa nykrur, reiðingsgras, mari og fleiri tjarnaplöntur. Í fallegum mógröfunum við Flóagaflsbæina vaxa brúsakollur, lónasóley og vorbrúða. Á suðurhluta Friðlandsins, við Óseyrarnes, ber meira á þurrlendis- og hálfdeigjuplöntum. Þar er geithvönn áberandi, en þar vex líka hrossanál, baunagras, hrafnaklukka, túnvingull o.fl.

Tvær fallegar en sjaldgæfar blómaplöntur eru algengar í Friðlandinu. Önnur þeirra, stúfa, vex hér og þar um allt Friðlandið og einnig í mýrlendinu. Hún er annars aðeins algeng í Mýrdal og undir Eyjafjöllum og vex þar aðallega í grasbrekkum mót suðri. Hin er sjöstjarna sem er þar útbreidd. Þetta er þriðji fundarstaður hennar utan Austurlands, þar sem hún vex víða í skóglendi. Grástör og skriðstör eru fremur óalgengar starir sem vaxa innan um gulstörina.

Landselir sjást oft á Ölfusá, sérstaklega á haustin og veturna. Þá halda þeir sig allt upp undir Kaldaðarneseyjar við friðlandið og geta skipt tugum. Minkur er landlægur og tófur eru farnar að venja komur sínar á svæðið. Hornsíli er algengt og silungur og áll er í skurðum og tjörnum. Í Ölfusá er lax og silungur og flundra er nýbúinn að nema þar land. Smádýralíf er fjölskrúðugt í mýrum og tjörnum. Þar má m.a.finna brunnklukkur, tjarnatítur, rykmý, svo og sérstakar marflær, sem lifa í söltu vatni.

Aðkoma

Afstöðukort af Friðlandinu í Flóa.
Afstöðukort af Friðlandinu í Flóa.

Aðkoma í Friðlandið er frá Eyrarbakkavegi, ca. fyrir miðju Eyrarbakkaþorpi. Til að finna skoðunarhúsið er ekið til norðurs að bænum Sólvangi og framhjá honum og síðan sem leið liggur norður Engjaveg framhjá Flóagaflshverfinu og stuttu síðar beygt til vinstri, þar sem skilti vísar á Stakkholt og bílastæði. Skoðunarhúsið er eina byggingin í mýrinni og blasir við víða að.

Umgengni

Nokkrar einfaldar umgengnisreglur hafa verið settar í Friðlandinu:

  • Fylgið merktum gönguleiðum, til að hlífa fuglum í varpi og viðkvæmum gróðri.
    Kort af Friðlandinu í Flóa
    Kort af Friðlandinu í Flóa
  • Forðist þaulsetur nærri fuglum með hreiður eða unga. Þessu er sérstaklega beint til ljósmyndara við lómatjarnir.
  • Gangið snyrtilega um skoðunarhúsið. Takið tillit til annarra gesta, gangið ekki framfyrir húsið eða farið uppá þakið, ef einhver er inní húsinu.
  • Athugið að svæðið getur verið blautt og göngustígar illfærir. Notið viðeigandi skófatnað.
  • Utanvegaakstur er bannaður.
  • Óheimilt er að tjalda í Friðlandinu eða gista í skoðunarhúsinu

 

Frjáls framlög

Með það að markmiði að gera rekstur Friðlandisins í Flóa sjálfbæran og hafa fjármuni til ráðstöfunar til að viðhalda mannvirkjum óskum við eftir frjálsum framlögum frá gestum friðlandsins.

Í skoðunarhúsinu er QR kóði sem má skanna sem leiðir þig áfram í ferlinu. Hér er hægt að veita framlög í vefversluninni.

Ljósmyndir úr Friðlandinu í Flóa