- This event has passed.
Fuglaskoðun við Rauðavatn
25.06.2020 @ 20:00 - 22:00
fríttFimmtudagskvöldið 25. júní kl. 20:00 býður Fuglavernd til fuglaskoðunar við Rauðavatn. Hægt að leggja bílum við hús Árvakurs, Morgunblaðshúsið og þar ætlum við að safnast saman og ganga spöl niður að vatninu.
Fuglalífið við vötnin er alltaf áhugavert á þessum árstíma, þar sem flugurnar suða og fuglarnir synda og kvaka. Fimmtudagskvöldið 25. júní kl. 20:00 býður Fuglavernd til fuglaskoðunar við Rauðavatn. Okkur til leiðsagnar verður líffræðingurinn Snorri Sigurðsson.
Rauðavatn er um 0,32 km2 , meðaldýpi um 1 m og mesta dýpi 1,4 m. Vatnið er afrennslislaust og vatnasviðið er á að giska 3 km2 . Miklar vatnsborðssveiflur einkenna Rauðavatn og benda þær til þess að vatnsbúskapurinn sé háður litlu vatnasviði.
Á heildina litið er lífríki Rauðavatns gróskumikið. Mikil gróska er í vexti síkjamara og er hann sennilega mikilvægur í að koma í veg fyrir að Rauðavatn verði fúlt og gruggugt vegna botnróts og ofauðgunar. Botnlægar vatnaflær, ásamt augndílum, rykmýslirfum og sundánum, eru algengustu smádýrahóparnir í Rauðavatni. Áhrif óstöðugs vatnsborðs á dýraríkið lýsa sér í því að vatnabobbar fundust ekki á fjörugrjóti, en ella eru þessir sniglar á meðal algengustu botndýra af stærri gerðinni í fjöruvist íslenskra vatna.
Lauslegar athuganir á fuglalífi gefa tilefni til að ætla að Rauðavatn kunni að gegna nokkuð mikilvægu hlutverki sem uppeldisstöð fyrir ungviði nokkurra tegunda. Þá hefur mælst mikill þéttleiki fullorðinna skúfanda á vatninu snemma í júní.
Árið 2017 var staðfest varp flórgoða við Rauðavatn, í fyrsta sinn í um 100 ár.
Flórgoðar helga sér óðöl á varptíma, og er tilhugalíf þeirra oft tilkomumikið með samhæfðum dansi. Hreiðurgerðin er einstök því þeir gera sér flothreiður. Eftir að ungarnir klekjast út bera þeir þá gjarnan á bakinu. „Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá þessa skrautlegu hausa stingast undan vængi foreldrisins þegar fæðan er borin í þá. Sannkallað sjónarspil,” segir Snorri.
Snorri segir að það sé einstaklega ánægjulegt að þessi skemmtilegi fugl sé að nema land sem varpfugl á reykvísku vötnunum. „Við höfum fylgst með útbreiðslunni aukast þannig að það hefur verið beðið eftir þessu. Það var frábært að sjá hversu vel tilraunir Garðabæjar við að útbúa flothreiður fyrir flórgoða á Vífilsstaðavatni hafa gengið. Við höfðum hugsað um að gera eitthvað svipað á Elliðavatni eða Rauðavatni, en það verður ekki þörf á slíku, því þeir eru ætla að gera þetta hjálparlaust”.
Það er mikilvægt að fólk sem er á ferð um svæðið sýni fuglunum nærgætni. „Það má vel fylgjast með þeim úr fjarlægð ef góður kíkir er með í för. Þeir eru ekki svo styggir. En við viljum auðvitað að þetta gangi vel hjá þeim í sumar og því ber að sýna ítrustu tillitssemi. Sérstaklega viljum við biðja fólk um að vera ekki með lausa hunda nálægt vatninu,” segir Snorri.
Munið að vera klædd eftir veðri og gott er að grípa með sjónauka.
Allir velkomnir.