Fuglavernd hefur með Norræna húsinu ákveðið að stofna óformlegan hóp sem er kallaður “Hollvinir Tjarnarinnar”. Tilgangurinn er að virkja krafta þeirra áhugamanna sem tilbúnir eru að leggja góðu málefni lið, nefnilega að hlúa að lífríki Tjarnarinnar. Fyrsta aðgerðin verður 7. apríl kl. 10:00 en þá er ætlunin að taka til hendinni í Friðlandinu s.s. að hreinsa síkin og friðlandið af rusli, klippa runna inni í friðlandinu og gera hreiður fyrir æðarfuglinn í Stóra hólmanum í Norður-Tjörn. Þeir sem eru tilbúnir til starfans eru beðnir að hafa samband við Fuglavernd og skrá sig; fuglavernd@fuglavernd.is. Nánari áætlun verður tilkynnt þegar nær dregur.
Meðfylgjandi mynd er af álftapari á Reykjavíkurtjörn. Ljósm.JÓH.