Gráþröstur og epli. Ljósmyndari; Örn Óskarsson

Garðfuglahelgi 2025

— 24.- 27. janúar

Þú velur hagstæðasta daginn og telur í 1 klukkutíma

Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina helgi. Venjulega er um að ræða síðustu helgina í janúar. Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma í einn dag yfir tiltekna helgi. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Fyrstu skrefin í garðfuglatalningu

Fyrir börn og fullorðna sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið: Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf   sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Einnig er hægt að kaupa eftirfarandi tvær bækur í vefverslun Fuglaverndar til að átta sig á fuglum og garðfuglafóðrun:  “Væri ég fuglinn frjáls”  og  "Garðfuglar". Þær eru ekki mjög þykkar og þægilegar að hafa við hendina jafnt inni sem úti.

Takið eftir að ef margir fuglar koma í fóður í einu og það er erfitt að telja, þá er hægt að taka mynd af hópnum og telja fuglana af myndinni!

Skráning og skilafrestur

Þú getur valið þá leið sem þér hentar best til að skrá niðurstöðurnar að lokinni athuguninni. Við mælum með rafrænni skráningu, þar sem gögnin eru þá slegin inn og fara beint í gagnagrunn þar sem hægt er að vinna úr niðurstöðunum.

Skilafrestur er til og með 15. febrúar 2025

Athugið að eingöngu á að skila talningu eins klukkutíma eins dags:

Garðfuglahelgin janúar 2025 rafræn skráning athuguna.

Ef þú vilt heldur prenta út formið og senda, þá eru tvær útgáfur skjala í boði:

Garðfuglahelgin – eyðublað.pdf (92 kB) 

Garðfuglahelgin – eyðublað.docx (75 kB)

Útfyllt eyðublöð má senda í tölvupósti á gardfugl@gmail.com eða í bréfapósti til:  Fuglaverndar, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík.

Skilafrestur er til og með 15. febrúar 2025

Lestu meira um fóðrun garðfuglagarðyrkju í fuglagarðinum og  garðfuglategundir.

Í vefversluninni okkar fást bæði fuglafóðurfuglafóðrarar og  fuglahús , bókin “Garðfuglar” og bókin “Væri ég fuglinn frjáls”,  um fyrstu skrefin í fuglaskoðun.

Einnig er að finna alls konar fóðrara og fóðurhús  í vefversluninni. 

Garðfuglakönnun veturlangt

Garðfuglakönnun veturlangt

Þau sem að kjósa að telja reglulega og skila inn talningu er bent á Garðfuglakönnun 2024-25 , enn er hægt að hefja þátttöku í henni.

 

Aukin þátttaka almennings

Niðurstöður Garðfuglahelgar Fuglaverndar janúar 2024

Hin hefðbundna Garðfuglahelgi Fuglaverndar var dagana 26. − 29. janúar 2024. Þátttaka var ágæt, athugunarstaðir voru alls 153 og sáust fuglar í 143 görðum (93,5%). Skráðir þátttakendur voru 202, sem var miklu betri þátttaka en í fyrra.  Með aukinni þátttöku sjást fleiri fuglar og hafa þeir sjaldan verið fleiri en þessa helgi. Alls sáust 14.416 fuglar af 19 tegundum í görðum þátttakenda. Flestir fuglar sáust í garði á Stokkseyri (694) og flestar tegundir í garði í Árbæjarhverfi í Reykjavík (10, 1. tafla)).

Snjótittlingar voru helmingur þeirra fugla sem voru skráðir, 7017 fuglar á 77 (75,2%) athugunarstöðum og að meðaltali sáu athugendur 91 snjótittling. Enda var snjóhula víðast hvar á landinu þessa daga og þá sækja snjótittlingar í garða. Svartþrestir voru hins vegar skráðir á flestum athugunarstöðum (75,2%), stari og skógarþrestir sjást á aðeins færri stöðum, rúmlega helmingi þeirra, en starar voru hins vegar mun fleiri en skógarþrestirnir. Auðnutittlingur sást einnig víða, á tæplega helmingi athugunarstaða, þó svo að þeir væru að finnast sóttdauðir þennan veturinn eins og þann síðasta. Það hefur ekki reynst mögulegt að greina það sem var að draga þá til dauða, en það var a.m.k. ekki fuglaflensa, skv. upplýsingum frá Matvælastofnun. Gráþrestir sáust hjá um fjórðungi athugenda (1. mynd). Silkitoppur voru skráðar hjá mörgum og það er ljóst að töluvert af þeim hefur verið á ferðinni (19 athugunarstaðir og 70 fuglar). Hrafnar voru skráðir nokkuð víða, 121 fugl hjá um fjórðungi athugenda. Nokkrir glóbrystingar sjást og er greinilegt að þeir hafa komið í einhverju mæli um haustið, þeir þrauka af veturinn, þar sem þeim er gefið, og virðast hverfa svo að vori. Undirritaður fylgdist með tveimur glóbrystingum síðasta vetur og þeir virtust hafa það ágætt. Um vorið var annar þeirra aðeins byrjaður að syngja, en þeir voru svo horfnir í byrjun apríl. Bjarg/húsdúfur voru með algengara móti, 135 fuglar sáust á sex athugunarstöðum. Bjargdúfum er líklega að fjölga á suður- og suðvesturlandi og það endurspeglast í talningum þátttakenda. Músarrindlar og rjúpur sáust í fjórum görðum og það fáeinir fuglar. Grágæsir reka einnig inn nefið í fjórum görðum og þá gjarnan nokkrar saman eins og sést á meðaltalinu. Krossnefir og smyrlar sáust hjá nokkrum athugendum, en þessar tegundir eru ekki árvissar hjá þátttakendum Garðfuglahelgar. Nokkrar tegundir af máfum voru skráðar. Glókollur sást hjá tveimur athugendum, en brandugla, hettusöngvari, hrímtittlingur, stokkönd og tyrkjadúfa sáust í einum garði hver tegund (1. tafla).

Það verður áhugavert að sjá hvað landsmenn skrá hjá sér um komandi Garðfuglahelgi í lok janúar. Það verður reyndar líklega lítið um flækingsfugla þar sem haustveður báru fáa slíka til landsins.

Ólafur Einarsson

  1. tafla. Tíðni fugla á athugunarstöðum og fjöldi þeirra í Garðfuglahelgi

Fuglaverndar 26.1−29.1 2024.  Fjöldi athugunarstaða var 153, fuglar sáust á 143 athugunarstöðum, þátttakendur voru 202, alls sáust 14.416 fuglar og 19 tegundir.