Fuglaverndarfélag Íslands varar við því að vindmyllugarðar verði leyfðir á farleiðum fugla og á búsvæðum hafarna og hvetur til varfærni og vandaðs umhverfismats. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Ólafi K. Nielsen, formanni Fuglaverndarfélagsins, óar við þeim fjölda vindmyllugarða sem nú eru í pípunum.
„Það er eins og eitthvert gullgrafaraæði sé í gangi. Menn hlaupa eins og landafjandar um allt land og reka niður hæla og segja: Hér vil ég byggja!“
Hann segir félagið hvetja til varfærni. Því þurfi vandað umhverfismat.
„Í ljósi þessa höfum við hjá Fuglavernd hvatt stjórnvöld til þess að reyna að afmarka á einhvern máta þau svæði þar sem að vindmyllugarðar kæmu til greina. Ekki að landið allt verði undir.“
Ólafur vill hlífa svæðum sem skilgreind eru sem mikilvæg fuglasvæði, sem hann segir um eitthundrað talsins, en einnig farleiðum farfugla, sem eigi sínar þjóðbrautir á þessum loftvegum.
„Og einn af þessum stöðum er til dæmis Þykkvibærinn,“ segir Ólafur.
Þar hafi þegar risið tvær vindmyllur, áform verið uppi um vindmyllugarð, á svæði þar sem að hans mati ætti ekki að leyfa slík mannvirki.
„Þetta er tugir þúsunda fugla, eða hundruð þúsunda fugla, sem fara um Þykkvabæinn. Stórir fuglar og þungir á flugi, líkt og gæsir, álftir, endur.“
Hann segir stóra fugla berskjaldaða gagnvart vindmyllum og tekur dæmi frá eynni Smøla á vesturströnd Noregs.
„Þar hafa hátt í eitthundrað ernir farist í einum vindmyllugarði síðan hann var reistur fyrir einum fimmtán árum síðan,“ segir Ólafur.
Hann varar við vindmyllum á búsvæðum arnarins hérlendis, eins og Breiðafirði og Mýrum.
„Ef við verðum með vindmyllugarð á slíkum stöðum þá gæti örninn orðið illa úti,“
segir formaður Fuglaverndarfélags Íslands.
Sjá frétt á vef Vísis, myndskeið neðst: Segir haförninn geta orðið illa úti í vindmyllugörðum.