Laugardaginn 23. apríl n.k munum við hittast í fuglafriðlandinu í Vatnsmýrinni og láta hendur standa fram úr ermum. Mæting ellefu í andyri Norræna hússins en allt í lagi að mæta seinna ef þannig stendur á. Það sem þarf að gera er að safna saman rusli og grisja sjálfssáðan trjágróður sem vex á varplandi anda og mófugla í friðlandinu við Norræna húsið – gott að kippa með sér garðverkfærum, hrífum og þessháttar. Allir velkomnir en endilega sendið okkur línu á fuglavernd@fuglavernd.is ef þið ætlið að koma – aðallega til að reikna út hve margir verða í kaffi. Margar hendur vinna létt verk. Hér er tengill á kort af Tjörninni og friðlandi fugla í Vatnsmýrinni. Gaman er að segja frá því að umtalsvert minna rusl er nú á svæðinu í kringum Vatnsmýrar- og hústjörn en var í fyrra og árið áður þegar félagar Fuglaverndar mættu að þrífa.
apr, 2016
Aðalfundur félagsins
Aðalfundur félagsins verður haldinn laugardaginn 16. apríl 2016 kl. 13:00 í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Við biðjum ykkur um að skrá ykkur á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is svo við getum pantað súpu fyrir alla. Þeir sem geta tekið farþega eða vilja þiggja far hafið einnig samband við skrifstofu. Við stefnum á að hittast á Hverfisgötunni klukkan 12 til að sameinast í bíla.
Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og bárust tvö framboð en tveir hafa sagt sig úr stjórn. Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust.
Þeir Hlynur Óskarsson og Alex Máni Guðríðarson munu vera með erindi um fuglana á svæðinu en stefnt er að fara í fuglaskoðun eftir fundinn.
Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:
1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.
4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.