Hollvinir Tjarnarinnar 23. apríl 2016

Laugardaginn 23. apríl n.k munum við hittast í fuglafriðlandinu í Vatnsmýrinni og láta hendur standa fram úr ermum. Mæting ellefu í andyri Norræna hússins en allt í lagi að mæta seinna ef þannig stendur á. Það sem þarf að gera er að safna saman rusli og grisja sjálfssáðan trjágróður sem vex á varplandi anda og mófugla í friðlandinu við Norræna húsið – gott  að kippa með sér garðverkfærum, hrífum og þessháttar. Allir velkomnir en endilega sendið okkur línu á fuglavernd@fuglavernd.is ef þið ætlið að koma – aðallega til að reikna út hve margir verða í kaffi. Margar hendur vinna létt verk. Hér er tengill á kort af Tjörninni og friðlandi fugla í Vatnsmýrinni. Gaman er að segja frá því að umtalsvert minna rusl er nú á svæðinu í kringum Vatnsmýrar- og hústjörn en var í fyrra og árið áður þegar félagar Fuglaverndar mættu að þrífa. 

Fuglavika í Reykjavík

Reykjavíkurborg – Reykjavík – Iðandi af lífi- og Fuglavernd standa fyrir fuglaviku í Reykjavík dagana 17.-23. október þar sem boðið verður uppá margs konar fræðsluviðburði með það að markmiði að vekja athygli á því fjölskrúðuga fuglalífi sem glæðir borgina árið um kring.

Fuglavikan hefst með málþingi í Norræna húsinu, undir yfirskriftinni Fuglar í borg. Þar verður sagt frá skemmtilegum fuglaskoðunarstöðum í borginni, rætt um búsvæði og vernd og einnig verður rætt um fuglatengt starf með leikskólabörnum.

Þá verður boðið upp á fuglaskoðun á ólíkum stöðum í borginni alla fuglavikuna, þar sem ein þeirra verður á ensku. Einnig er nýr fræðslubæklingur í smíðum um fuglaskoðunarstaði í Reykjavíkurborg og verður bæklingurinn gefinn út bæði á íslensku og ensku.

Málþingið verður haldið laugardaginn 17. október undir yfirskriftinni “Fuglar í borg” og byrjar klukkan 13:00 í Norræna húsinu. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þrjú erindi verða á málþinginu.
Fuglar og búsvæði borgarinnar – Snorri Sigurðsson.
Mínir fuglaskoðunarstaðir –  Elma Rún Benediktsdóttir.
Fuglavinna með börnum – Sigrún Björg Ingþórsdóttir.

Fuglaskoðanir
Laugardaginn 17.okt. Fuglaskoðun – Vatnsmýrin / Tjörnin kl.15:00

Við byrjum á að skoða fugla í Vatnsmýrinni – lagt af stað frá Norræna húsinu beint eftir málþingið kl.15:00. Edward Rickson leiðir gönguna.

Sunnudaginn 18. okt. Fuglaskoðun – Strandfuglar í Skerjafirði kl.15:00
Hist við Skeljanes í Skerjafirði við strætóskýlið. Mikið fuglalíf er á þessum slóðum allan ársins hring. Börn eru sérstaklega boðin velkomin :-). Hópinn leiða þau Ásgerður Einarsdóttir og Snorri Sigurðsson.

Mánudaginn 19. okt. Fuglaskoðun á ensku –  Tjörnin kl.13:00
Hist við Ráðhús Reykjavíkur.

Þriðjudaginn 20. okt. Fuglaskoðun við Elliðavatn
Hist við Elliðavatnsbæinn – kl 16:15. Á haustin og veturna halda ýmsar andategundir sig við vatnið. Einnig verður leitað að skógarfuglum.

Miðvikudaginn 21. okt. Fuglaskoðun – Laugarnes kl.13:00
Hist við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Snorri Sigurðsson leiðir fuglaskoðunina. Laugarnes er heppilegur staður til að horfa yfir sundin og fylgjast með sjófuglum.

Fimmtudaginn 22. okt. Garðfuglar og fóðurgjafir – Grasagarður Reykjavíkur kl.10:00
Fuglafræðsla í Grasagarði Reykjavíkur. Hist við innganginn í garðinn.

Föstudaginn 23. okt. Fuglaskoðun – Elliðaárdalur kl.14:00
Hist við Árbæjarstíflu. Anna María Lind Geirsdóttir leiðir fuglaskoðunina og eru börn boðin hjartanlega velkomin ásamt foreldrum eða kennurum.

 Munum að klæða okkur eftir veðri – og taka sjónauka og jafnvel fuglabók með. 

Kría í Vatnsmýrinni

Fuglaleiðsögn í Vatnsmýrinni 13.júní

Í tilefni af Fundi fólksins verður Elma Rún Benediktstóttir með fuglaleiðsögn um fuglafriðlandið í Vatnsmýrinni laugardaginn 13. júní 2015 frá 16:00-16:45. Farið verður frá andyri Norræna hússins stundvíslega kl. 16:00- en gaman er að taka með sjónauka og fuglabók.

Fundur fólksins er lífleg þriggja daga hátíð um samfélagsmál í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess dagana 11. til 13. júní. Slegið verður upp tjaldbúðum og skemmtilegir kofar setja svip á hátíðarsvæðið. Þar munu hin ýmsu félagasamtök, stofnanir og flokkar vera með starfsemi alla hátíðina. Í bland við líflegar umræður verða tónlistaratriði og fuglaskoðun en hægt verður að kaupa bæði mat og drykk á svæðinu.Sjá dagskrá hér: Fundur fólksins

Ljósmynd af kríu í Vatnsmýrinni, Elma Rún Benediktsdóttir.