Blesgæs (Anser albifrons flavirostris). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) – friðuð tegund í hættu

Fuglavernd vill áminna skotveiðimenn um friðun blesgæsar nú meðan gæsaveiðitímabilið stendur yfir eða frá 20. ágúst til 15. mars.

Blesgæs er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og hefur verið frá og með 12. júní 2006 skv. reglugerð 519/2006. Friðun blesgæsar er ótímabundin.

Blesgæs verpur víða á norðlægum slóðum og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Fuglar sem verpa á V-Grænlandi eru sérstök deilitegund (Anser albifrons flavirostris). Vetrarstöðvar þessara fugla eru á Bretlandseyjum og þá aðallega á Írlandi og í Skotlandi.

Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði

Helstu viðkomustaðir blesgæsa hér á landi eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þar dveljast a.m.k. 60% stofnsins samtímis og væntanlega fer allur stofninn um þessi svæði. Þetta eru Andakíll, Ferjubakkaflói–Hólmavað, Borgarfjörður–Löngufjörur og Suðurlandsundirlendi.

Kort 2: Fjöldi og dreifing blesgæsa á S- og V-landi 13.−15. október 2013. Alls sáust 11.091 fuglar.

Válisti fugla, blesgæs í hættu

Á válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman er blesgæs tegund í hættu (EN).

Kynslóðalengd (IUCN): 11,3 ár. Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1998–2032.

Þessi stofn var fyrst metinn með sæmilegu öryggi árið 1983 og var þá talinn um 16.500 fuglar. Í kjölfarið var gripið til verndarráðstafana á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum og óx stofninn hratt fram til 1998 í nær 36.000 fugla. Þá tók honum að hnigna meira og minna samfellt til 2015 (<19.000 fuglar) en var metinn 22.000 fuglar árið 2017 (Wildfowl & Wetlands Trust). Fækkunin á þessum 20 árum er því tæp 40%.

Viðmiðunartímabil IUCN fyrir blesgæsir (alla stofna) hefur verið lengt úr 21 ári í 34 ár vegna þess að nú er notað annað kynslóðabil. Þetta þýðir að grænlenska blesgæsin telst strangt til tekið ekki í hættu, eins undarlega og það kann að virðast. Ef fækkun sú sem hófst árið 1998 heldur áfram með sama hraða og sem svarar þremur kynslóðum (1998–2032) leiðir það til 56% fækkunar eða 2,44% á ári. Samkvæmt því telst blesgæsin í hættu (EN, A4a) og er miðað við það hér.

Sjá nánar á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands: Blesgæs (Anser albifrons flavirostris)

 

Greining blesgæsar

Í kjölfar friðunar blesgæsa 2006 var gefinn út bæklingur til að auðvelda skotveiðimönnum greiningu blesgæsa. Bæklingurinn er í fullu gildi og hann má finna á vef Umhverfisstofnunar: Friðun blesæsar, upplýsingar fyrir skotveiðimenn.pdf

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) © Daníel Bergmann