Plastgleði þín og plastsorg er raunveruleg

– Málþing um stöðu og lausnir á plastvandanum

Opið málþing í Háskóla Íslands um plastvandann og hvaða lausnir eru í sjónmáli. Málþingið er skipulagt af aðstandendum árvekniátaksins Plastlaus september í samstarfi við Námsbraut í umhverfis- og auðlindafræðum og Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands. Fjallað verður um plastmengun í hafi og aðgerðir Evrópusambandsins gegn plastmengun, stöðu Íslands varðandi þennan málaflokk, örplast í fráveitum, endurvinnslumöguleika plasts, og loks hvaða úrræðum Íslendingar geta beitt til þess að sporna við ofgnótt plasts í umhverfinu.

Málþingið fer fram bæði á ensku og íslensku og er öllum opið og gjaldfrjálst. Boðið verður upp á léttar veitingar að dagskrá lokinni. Til að áætla megi fjölda gesta er nauðsynlegt að þátttakendur skrái sig á plastlausseptember.is.

Dagskrá:

  • Plaststefna Íslands – Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
  • Örplast í fráveitu – Íris Þórarinsdóttur, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum
  • Endurvinnsla á plasti – Gyða Sigríður Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Sorpu
  • Leysum plastvandann – Dr. Rannveig Magnúsdóttir, verkefnastjóri frá Landvernd
  • EU action to combat marine litter – Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi

Fundarstjóri: Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða.

Að loknum erindum verður opnað á spurningar og umræður úr sal.

Boðið verður upp á léttar veitingar að dagskrá lokinni.

Alþjóðlegur dagur hafsins

Í tilefni að alþjóðlegum degi hafsins mun heimildamynd um plastmengun í sjónum verða sýnd í Bíó Paradís á 8. júní kl. 8 –  aðgangur ókeypis. Eftir myndina er efnt til pallborðsumræðna  þar sem Egill Helgason sjónvarpsmaður, Hrönn Ólína Jörundsdóttir doktor í umhverfisefnafræði og verkefnastjóri hjá MATÍS, Karen Kjartansdóttir upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sitja í pallborði.

í tilkynningu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir:

“Umhverfisspjöll af völdum plastmengunar eru gríðarleg. Við Norðursjó finnst plast í maga 94% fugla. Plastagnir geta fundið sér leið inn í vefi líkamans þegar við borðum fisk. Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi fyrir árin 2013–2024 kemur fram að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu. En plast virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja og okkur stafar ekki síður hætta af plastmengun annara ríkja en okkar eigin. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Hafstraumar hafa smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka sem hringsnúast á Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi.

Evrópuþingið hefur nýverið samþykkt harðar aðgerðir sem miða að því að minnka notkun þunnra plastpoka sem valda mestri mengun, ýmist með banni eða álagningu gjalda. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins segir að þetta falli undir málefnasvið EES samningsins og því muni breytingar á þessari löggjöf hafa áhrif hér heima en útfærslan er í höndum einstakra ríkja. Fyrir Alþingi liggur einnig tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum úr öllum flokkum um að draga úr notkun plastpoka.

Að sýningu myndarinnar standa Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC), Samband fyrirtækja í sjávarútvegi, Evrópustofa og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Myndin er á ensku (án texta) og sýningartími ein klukkustund. Enginn aðgangseyrir! ”
Tengill á Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi