Silkitoppur og skógarþröstur. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 27. – 30. janúar

Garðfuglahelgin 2017 er alveg að bresta á. Athugendur velja hvaða dag þeir fylgjast með garðfuglunum eftir veðri og aðstæðum. Þátttakendur skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og þá er miðað við mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Ef fuglunum er ekki gefið reglulega þá er gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Epli eru vinsæl hjá mörgum fuglum og auðvelt að koma þeim fyrir með því að skera þau í tvennt og festa á trjágrein.

 

Hér er viðburðurinn: Garðfuglahelgin 2017

Hér er viðburðurinn á Facebook: Garðfuglahelgin 2017 

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Garðfuglahelgin 2017

Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma daglega yfir tiltekna helgi. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Skráning niðurstaðna

Þú getur valið þá leið sem þér hentar best til að skrá niðurstöðurnar að lokinni athuguninni. Við mælum með rafrænni skráningu, þar sem gögnin eru þá slegin inn og fara beint í gagnagrunn þar sem hægt er að vinna úr niðurstöðunum.

Ef þú vilt heldur prenta út formið og senda, þá eru tvær útgáfur skjala í boði

Útfyllt eyðublöð má senda í tölvupósti á gardfugl@gmail.com eða í bréfapósti til: Fuglaverndar, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík.

Garðfuglar

Lestu meira um garðfugla

Facebook

Garðfuglahelgin, viðburðurinn á Facebook

 

 

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls

Það gleður okkur að segja frá því að við höfum lokið útgáfu fuglaskoðunarrits fyrir börn sem ber heitið: Væri ég fuglinn frjáls. Fyrstu skrefin í fuglaskoðun.  

Verkefnið er skrifað fyrir 4.-5. bekkinga, en höfðar þó til allra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu skemmtilega og fræðandi áhugamáli, jafnt heima sem í skóla.  Myndir af algengustu fuglum Íslands eru á kápusíðum en það gerir ungum og áhugasömum fuglaskoðurum kleift að greina þá fugla sem þeir sjá.

Ritið er fáanlegt á skrifstofu okkar og kostar kr. 3000, –
Höfundur er Jóhann Óli Hilmarsson

Eftirtaldir styrktu útgáfuna:
Umhverfis-og auðlindaráðuneytið
Barnavinafélagið Sumargjöf
Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar
Valitor – Samfélagssjóður
Landsbanki Íslands – Samfélagssjóður

Og þökkum við þeim kærlega fyrir það en það gerir okkur jafnframt kleift að senda svokallað bekkjarsett till allra grunnskóla landsins þeim að kosnaðarlausu.

 

Fuglaskoðun við Elliðavatn

Við verðum með fuglaskoðun í Heiðmörk, við Elliðavatn, laugardaginn 1.október kl.13:00. Gengið frá Elliðavatnsbænum og meðfram vatninu og um nágrenni þess –  sjá meðfylgjandi kort. Við megum búast við að sjá jaðrakan, óðinshana og himbrima ásamt öðrum tegundum og mun Elma Rún Benediktsdóttir leiða gönguna.

Allir velkomnir – munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera klædd eftir veðri.

Fuglaskoðun í Flóa á sunnudag

Sunnudaginn 26. júní 2016 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun númer þrjú í fuglafriðlandinu í Flóa. Fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.

Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Tjörn í friðlandinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Friðlandið í Flóa – fuglaskoðun

Sunnudaginn 12. júní n.k. mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Jóhann Óli Hilmarsson og Alex Máni Guðríðarsson munu leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglaskoðun í Heiðmörk

Mánudaginn 23.maí verður fuglaskoðun í Heiðmörk  Lagt verður af stað stundvíslega klukkan 17:30 frá Elliðavatnsbænum og tekinn hringur í nágrenninu.  Skoða á ríkulegt fuglalíf við Elliðavatn og í skógarjaðrinum en Hallgrímur Gunnarsson mun leiða gönguna og mun hún taka um klukkutíma.
Þessi fuglaganga er samstarf Skógræktar Reykjavíkur og Fuglaverndar en allir eru velkomnir. Munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera vel klædd.

Fuglaskoðun í grasagarðinum 30.apríl

Á laugardaginn 30. apríl kl. 11 býður Grasagarður Reykjavíkur upp á fuglagöngu í Laugardal í samstarfi við Fuglavernd. Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkjufræðingur og Einar Þorleifsson náttúrufræðingur leiða gönguna. Þeir munu fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber og auk þess skoða hvaða tegundir plantna laða að fugla. Gestum er bent á að gaman getur verið að taka með sér sjónauka í gönguna.
Mæting við aðalinnganginn kl. 11. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Aðalfundur félagsins

Aðalfundur félagsins verður haldinn laugardaginn 16. apríl 2016 kl. 13:00 í Rauða húsinu á Eyrarbakka.  Við biðjum ykkur um að skrá ykkur á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is svo við getum pantað súpu fyrir alla. Þeir sem geta tekið farþega eða vilja þiggja far hafið einnig samband við skrifstofu. Við stefnum á að hittast á Hverfisgötunni klukkan 12 til að sameinast í bíla.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og bárust tvö framboð en tveir hafa sagt sig úr stjórn.  Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust.

Þeir Hlynur Óskarsson og Alex Máni Guðríðarson munu vera með erindi um fuglana á svæðinu en stefnt er að fara í fuglaskoðun eftir fundinn.

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.
4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.