Í dag – 9. september – eru liðin 100 ár frá því að Alþingi samþykkti lög er fólu í sér friðun arnarins. Lögin tóku gildi 1. janúar 1914. Í tilefni af því og að Fuglavernd fagnar fimmtugasafmæli Fuglaverndar á þessu ári var ákveðið að gefa út veglegt rit um þennan tígulega en sjaldgæfa fugl enda snérist starf félagsins lengi framan af aðallega um vernd og viðgang arnarstofnsins. Ásamt því að vera afmælisgjöf félagsins til félaga þá höfum við dreift ritinu til menntastofnana í byggðarlögum á helstu búsvæðum arnarins. Ritið er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og má þar finna upplýsingar um útbreiðslu og stofnstærð og lífshætti arnarins en einnig er komið inná sagnaminni og hindurvitni og sögu hans á Íslandi. Ritið prýða vel valdar ljósmyndir eftir helstu arnarljósmyndara landsins. Hægt er að fá ritið á skrifstofu félagsins – á kostnaðarverði – 1.000- kr. Það sem er ekki síst mikilvægt frá sjónarhorni Fuglaverndar við útgáfu slíks rits er sú von að með aukinni fræðslu og búsvæðavernd sé hægt að fækka þeim ógnum sem steðja að erninum af mannavöldum.
Hér er linkur á söluvörur félagsins