Einstakt dýralíf á Galapagos og litskrúðugir fuglar í Ekvador.
Miðvikudaginn 14. nóvember heldur Gunnlaugur Sigurjónsson myndasýningu í Arion banka við Borgartún og segir frá ferð sinni til Galapagoseyja og regnskóga Ekvador.
Síðastliðið vor hélt Gunnlaugur ásamt Jóhanni Óla Hilmarssyni, formanni Fuglaverndar í ævintýrasiglingu um Galapagos eyjaklasann. Eyjarnar eru þekktar fyrir hið einstaka dýralíf og er fjöldi einlendra (endemiskra) tegunda mikill.
Fyrir utan finkurnar, sem komu Darwin á sporið varðandi þróun tegundanna, eru þar t.d. einu mörgæsir og albatrosar í heimi, sem verpa norðan miðbaugs. Súlur, skrofur, sæsvölur, skarfar, hegrar, vaðfuglar og freigátufuglar eru á hverju strái. Fuglarnir eru allir mjög spakir, sem og Iguana eðlurnar, risaskjaldbökurnar, sæljónin og fjöldi annarra dýra, sem eru á og við eyjarnar.
Galapagoseyjar eru eldfjallaeyjar og minna um margt á Vestmanneyjar, en úrkoman miklu minni og gróður allur annar. – Á leiðinni stoppuðu þeir félagar í 6 daga í regnskógum Ekvador og mynduðu afar skrautlega fugla, þar af um 25 tegundir kólibría. Ekvador er eitt tegundaríkasta land í heimi.
Sýningin hefst kl. 20:00.
Allir velkomnir, frítt inn fyrir félagsmenn Fuglaverndar. Aðgangseyrir 500 kr. fyrir utanfélagsmenn.