Ársskýrsla Fuglaverndar var flutt á aðalfundi 4. apríl s.l. Fjallað er um starfsemi félagsins, fjárhag, eignir, mannauð og ríkulegt starf félagsins og samstarf við félög og stofnanir innan- og utanlands.
Fuglavernd eru óhagnaðardrifin náttúruverndarsamtök, sem stofnuð voru 1963. Í árdaga félagsins var áhersla lögð á verndun arnarins en í dag er tilgangur félagsins verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir. Starfsemi félagsins einskorðast þó ekki við þessa hópa og eru engar fuglategundir eða -búsvæði undanskilin. Félagið leggur áherslu á fagleg vinnubrögð og hefur í starfi sínu ávallt hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og alla alþjóðlega samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt eða skipta máli fyrir fuglafánu landsins.
Til að ná markmiðum sínum hefur félagið lagt áherslu á eftirfarandi atriði í starfsemi sinni:
● Fræðsla til almennings um fuglalíf landsins og hættur sem að því steðja.
● Samstarf við innlend og erlend fugla- og náttúruverndarsamtök og stofnanir, sem hafa svipuð
markmið og Fuglavernd.
● Rannsóknir á fuglum og búsvæðum þeirra.
● Aðhald gagnvart stjórnvöldum landsins og öðrum aðilum í þeim málum sem lúta að markmiðum
félagsins.
● Beinar aðgerðir í samræmi við markmið Fuglaverndar.
● Umsjón með mikilvægum fuglasvæðum sem félagið á beina aðild að, ýmist með sérstökum
samningum eða eignarhaldi.
● Efling félagsins, meðal annars með fjáröflun og fjölgun félaga.
Félagar og aðrir velunnarar Fuglaverndar eru hvattir til að lesa skýrsluna og kynna sér starf félagsins.