Ársskýrsla Fuglaverndar — innsýn í starf félagsins

Ársskýrsla Fuglaverndar var flutt á aðalfundi 4. apríl s.l. Fjallað er um starfsemi félagsins, fjárhag, eignir, mannauð og ríkulegt starf félagsins og samstarf við félög og stofnanir innan- og utanlands.

Fuglavernd eru óhagnaðardrifin náttúruverndarsamtök, sem stofnuð voru 1963. Í árdaga félagsins var áhersla lögð á verndun arnarins en í dag er tilgangur félagsins verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir. Starfsemi félagsins einskorðast þó ekki við þessa hópa og eru engar fuglategundir eða -búsvæði undanskilin. Félagið leggur áherslu á fagleg vinnubrögð og hefur í starfi sínu ávallt hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og alla alþjóðlega samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt eða skipta máli fyrir fuglafánu landsins.

Til að ná markmiðum sínum hefur félagið lagt áherslu á eftirfarandi atriði í starfsemi sinni:
● Fræðsla til almennings um fuglalíf landsins og hættur sem að því steðja.
● Samstarf við innlend og erlend fugla- og náttúruverndarsamtök og stofnanir, sem hafa svipuð
markmið og Fuglavernd.
● Rannsóknir á fuglum og búsvæðum þeirra.
● Aðhald gagnvart stjórnvöldum landsins og öðrum aðilum í þeim málum sem lúta að markmiðum
félagsins.
● Beinar aðgerðir í samræmi við markmið Fuglaverndar.
● Umsjón með mikilvægum fuglasvæðum sem félagið á beina aðild að, ýmist með sérstökum
samningum eða eignarhaldi.
● Efling félagsins, meðal annars með fjáröflun og fjölgun félaga.

Félagar og aðrir velunnarar Fuglaverndar eru hvattir til að lesa skýrsluna og kynna sér starf félagsins.

 

Ný stjórn kjörin á aðalfundi

Frá vinstri: Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmallensee, Snæþór Aðalsteinsson, Trausti Gunnarsson og Ólafur Karl Nielsen formaður stjórnar. Á myndina vantar Daníel Bergmann og Erp Snæ Hansen. Ljósmynd: ©Dögg Matthíasdóttir.

Mánudaginn 11. mars 2019 var kjörin ný stjórn á aðalfundi Fuglaverndar.

Jóhann Óli Hilmarsson lét af formennsku en hann hefur verið formaður Fuglaverndar allt frá árinu 1999. Jóhann Óli sat fyrst í stjórn á árunum 1974-1977, þá gerði hann tíu ára hlé en kom aftur inn í stjórnina árið 1987 og tók við formennsku 1999. Í hans stað gaf kost á sér Ólafur Karl Nielsen en hann hefur verið varaformaður félagsins. Þá gaf Sindri Skúlason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Voru þeim í lok fundarins færðir þakklætisvottur fyrir störf sín í þágu félagsins.

Jóhann Óli flutti ársskýrslu, en hana er að finna á: Um Fuglavernd>Ársskýrslur

Ný stjórn var kjörin með einróma lófataki, en hana skipa:

Ólafur Karl Nielsen – formaður, Daníel Bergmann, Erpur Snær Hansen, Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmalensee, Snæþór Aðalsteinsson og Trausti Gunnarsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skiptir hún með sér verkum, aðeins formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins.

Áður en tekið var til hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Jóhann Óli erindi um fuglaskoðun á Borgarfirði eystra og Ólafur Karl Nielsen gerði grein fyrir athugunum á fuglalífi í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.  Um fuglalíf Njarðvíkur má lesa meira á: Verkefnin>Njarðvík.

Fundurinn var fjölsóttur og meðal félagsmanna sem tóku þátt í umræðum á fundum er greinilegur áhugi á að Fuglavernd takist vel til í hlutverki landeiganda á fjölsóttum ferðamannastað. Að leiðarljósi verði náttúruvernd sem er grunnstarfsemi félagsins sem og sjálfbærni og fræðsla en það eru aðrar meginstoðir í stefnu Fuglaverndar.

Fjölsóttur aðalfundur Fuglaverndar.