Möguleikar á endurheimt búsvæða fiska og fugla á Mýrum og nágrenni

Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Breska Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu.
Straumvatn í mýri

Verkefnið er framhald verkefnis þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu, auk þess að hafa slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði þeirra. Aftur á móti fundust hrygningarsvæði urriða í einu tilviki í skurði, en slíkt þarf að hafa í huga ef endurheimt verður á svæðinu.

Urriði

Nú er hugmyndin að stækka rannsóknarsvæðið svo að þá nái yfir Mýrar, Hnappadal og alla leið að ósi Straumfjarðarár fyrir neðan Snæfelssnesveg. Svæðið er tilnefnt til Náttúruminjaskrár af Náttúrufræðistofnun vegna búsvæða vað- og vatnafugla. Ásamt aðliggjandi fjörum og grunnsævi er það einnig skilgreint sem Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IBA) af BirdLife International. Vötn og lækir á svæðinu eru líklega mikilvæg búsvæði silungs og áls, en áli hefur fækkað mikið í Evrópu og er nú talinn vera í útrýmingarhættu.

Lækir milli vatna

Í verkefninu verða lækir og vatnasvæði sem hafa orðið fyrir áhrifum framræslu kortlagaðir með tilliti til búsvæða fiska, sérstaklega urriða og áls. Hindranir verða skrásettar og metið verður hvaða áhrif endurheimt hefur á aðrar lífverur eins og fugla og gróðurfar. Mannfólkið er ekki heldur undanskilið en mikilvægt er að huga að landnýtingu og afstöðu landeigenda til endurheimtar. En ef endurheimt verður á svæðinu er mögulegt að aukin nýting fiskistofna verði í framtíðinni.

Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Þá aðallega með því að fjarlægða manngerðar hindranir eins og stíflur úr ám og lækjum. Nú er einungis verið að kanna möguleika á endurheimt, en ef gott samstarf og valkostir eru fyrir hendi, er mögulegt að vinna verkefnið yfir á framkvæmdastig í samvinnu við landeigendur.

Nánar má lesa um verkefnið á ensku á síðu Open rivers programme

 

Alþjóðlegi votlendisdagurinn 2019

We are not powerless against #climatechange if we #KeepWetlands 2 FEBRUARY is #WorldWetlandsDay

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er 2. Febrúar ár hvert.

Dagurinn er til að minnast Ramsarsamningsins sem var undirritaður í írönsku borginni Ramsar þennan dag árið 1971. Ramsarsamningurinn er alþjóðasamningur um verndun votlendis, sérstaklega sem lífsvæði fyrir fugla. Árið 2018 eru aðilar að samningnum orðnir 169 og 2.284 svæði eru vernduð af samningnum. Samtals verndar Ramsarsamningurinn votlendi sem eru 220.673.362 ha sem er örlítið stærra en Mexíkó.

Lesa meira: um Ramsarsamninginn á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Markmið dagsins er að vekja vitund almennings á mikilvægi og virði votlendis.

Votlendi er samheiti yfir fjölda vistgerða eða búsvæða sem eru á mörkum lands og vatns. Vanalega eru vötn og grunnsævi, mýrar og ár flokkuð sem votlendi á Íslandi. Vatn er grunnforsenda fyrir lífi og gerir manninum mögulegt að nýta landið. Votlendi er einnig mikilvæg náttúruauðlind og forsenda fyrir ríkulegu og fjölbreyttu gróðurfari og dýralífi. Votlendi er meðal þeirra vistkerfa á jörðinni þar sem framleiðni er mest og það er jafnframt uppvaxtarsvæði fyrir fjölda tegunda, þar á meðal tegunda sem hafa efnahagslega þýðingu.

Vefur Alþjóðlega votlendisdagsins http://www.worldwetlandsday.org/

Hrafnaþing: Endurheimt votlendis

Í tilefni af Alþjóðlegum degi votlendis þann 2. febrúar standa Landgræðslan, Fuglavernd og Náttúrufræðistofnun Íslands saman að Hrafnaþingi miðvikudaginn 31. janúar kl. 15:15.

Sunna Áskelsdóttir héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Hvanneyri flytur erindið „Endurheimt votlendis hjá Landgræðslunni“ á Hrafnaþingi hjá Náttúrufræðistofnun.

Útdráttur úr erindinu: http://www.ni.is/greinar/31-januar-2018-sunna-askelsdottir-endurheimt-votlendis-hja-landgraedslunni