Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun í Grunnafirði

Sanderla. © Ljósmynd: Yann Kolbeinsson

Laugardaginn 9. maí er Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori. Af því tilefni verður boðið uppá fuglaskoðun í Grunnafirði, sem er eitt af sex Ramsarsvæðum á Íslandi, leiðsögumaður verður náttúrfræðingurinn Einar Þorleifsson.

Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt. Stærð friðlýsta svæðisins er 1393,2 hektarar.

Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði. Svæðið hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Fjörðurinn er eina Ramsar svæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Stærð Ramsar svæðisins er u.þ.b 1470 hektarar.

Grunnafjörður er mikilvægur fyrir margar tegundir fugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs, rauðbrysting og sanderlu. Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna bæði vor og haust og um 1% rauðbrystingsstofnsins.

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur; byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda einnig æðarfuglar til.  Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Í fuglatalningum hefur orðið vart við nokkrar tegundir á válista s.s. brandönd, branduglu, grágæs, hrafn og svartbak en einnig er vitað að á svæðinu verpir hafarnarpar. Aðrar algengar fuglategundir á svæðinu eru m.a. dílaskarfar, toppendur, heiðlóur, jaðrakanar, sílamáfar, hvítmáfar og hettumáfar en einnig hafa fálkar og smyrlar sést.

Þeir sem ætla sér að njóta leiðsagnar í fuglaskoðuninni, koma sér sjálfir á staðinn. Við hittumst við Laxárbakka (sem er veitingastaður í Melasveit klukkan 9, þaðan verður stefnan tekin á skoðunarstað/i og gera má ráð fyrir að fuglaskoðunin taki um 1 klukkustund.

Nauðsynlegt er að vera vel skóaður og tilvalið að hafa meðferðis sjónauka, fuglahandbók og nesti til að maula.

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði og virkjun vindorku

Vegna hugmynda sem uppi eru um virkjun vindorku á Úthéraði sendi Fuglavernd Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bréf þann 14. mars vegna kynningarfundar sem haldinn var þann 15. mars 2018.

Þar segir:

Fuglavernd lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af hugmyndum um vindmyllugarð á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði við Hól á Úthéraði. Reynsla erlendis frá hefur sýnt að auðugt fuglalíf og vindmyllugarðar fara ekki saman og áhrifin geta verið mjög alvarleg fyrir fugla.

Hólsland og nálæg votlendi á Úthéraði eru á skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (VOT-A 3) og er einnig á IBA skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna (BirdLife International) um mikilvæg fuglasvæði (IS 040). Við mótmælum þessum hugmyndum!

Bréf til Sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs vegna kynningar- og umræðufundar um möguleika á virkjun vindorku á Úthéraði. 

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði

Fuglalíf er mikið og fjölbreytt á Úthéraði (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001) og þær tegundir varpfugla sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum eru lómur (220 pör), flórgoði (38 pör), grágæs (1.600 pör) og kjói (1.300 pör). Hið sama á við um grágæs á fjaðrafellitíma (7.700 fuglar) og fartíma (7.517 fuglar).

Ysti hluti Úthéraðs, votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá, Húsey, Eylendið í Jökulsárhlíð, ásamt Egilsstaða- og Finnsstaðanesjum utan við Egilsstaði, eru á náttúruminjaskrá. Allt svæðið er á IBA-skrá.

 

Stefnumótunar- og leiðbeiningarit um virkjun vindorku á Íslandi

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Einnig vonast samtökin til að stefnan marki upphafið af almennri umræðu um málefnið hér á landi.

Landvernd leggst gegn vindorkuvirkjunum og –verum á mikilvægum fuglasvæðum (IBA svæðum) og hvetur til rannsókna á farleiðum fugla (þ.m.t. dægurfari) og varpstöðvum mófugla áður en slík mannvirki koma almennt til álita.

Mikilvæg fuglasvæði

Á Íslandi er skráð 121 mikilvægt fuglasvæði (IBA svæði, e. Important Bird Areas) og vísast til nánari upplýsinga um þau í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr.55.  Fuglavernd BirdLife Iceland hefur skráð IBA svæði og eru hjá BirdLife International skráð 99 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.

Almennt er þekking á farleiðum fugla hér á landi takmörkuð, hvort heldur sem er milli varp- og vetrarstöðva eða milli fæðustöðva og náttstaða (dægurfar). Hérlendis er mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og þarf að huga að því við staðsetningu vindorkuvirkjana en mannvirkjagerð og hávaði getur haft veruleg áhrif á varp mófugla.

 

Nánar má lesa um Verkefnin > Virkjun vindorku