Félagar í Fuglavernd lögðu land undir fót til að leita 5000 tjalda með vetursetu í Hvalfirði sunnudag 17. nóvember 2024.
Heiðskírt var og 3-5 stiga frost og 10-15 m/sek þar sem mest lét.
Fyrsta stopp var hjá Súlueyri. Þar sást enginn fugla á fjörum Grunnafjarðar, hrafnar flugu yfir og var gengið niður í fjöru á Súlueyri fyrir opnu hafi. Þar sást svartbakur, grámáfur og hvítmáfur við ós Áslækjar. Freistað var þessa að ganga að Ósum en sandrokið var slíkt að hætt var við.
Næsti stans var við Miðsand í Hvalfirði. Þar var mest um hvítmáfa, grámáfa, æðarfugl og stokkendur. Einnig sást til toppanda.
Ekið var yfir í Helguvík. Þar sáust loks fimm tjaldar auk ofangreindra tegunda.
Næsti stans var við ósa Botnsár. Enga tjalda var að sjá, en á voginum synti æðarfugl og væntanlega aðrar tegundir.
Síðasti stansinn var í Brynudalsvogi. Þar var hamagangur í flæðarmálinu og allt að gerast. Mikill kliður í tjöldum og kastað var tölu á þá og niðurstaðan var að ekki færri en 200 tjaldar í flæðarmálinu en að öllum líkindum miklu fleiri og var þessi fundur við tjaldana mjög ánægjulegur.
Kaldur dagur og hvass til fuglaskoðunar en mjög ánægjuleg för þrátt fyrir að ekki fundust 5000 tjaldar. Alltaf gaman að fara í fuglaskoðun.