Ályktun vegna vegagerðar í Gufudalssveit (Teigsskógur)

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans.

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Stjórn Fuglaverndar

 

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fundur um fuglameðafla við grásleppuveiðar

Þann 8. mars 2017 kallaði Fuglavernd saman hagsmunaaðila í grásleppuveiðum til að ræða rannsóknir sem við höfum verið að sinna undanfarin tvö ár um fuglameðafla í grásleppunetum.

Hingað komu fulltrúi frá Landssambandi smábátaeiganda, fulltrúar frá samtökum um sjálfbærar fiskveiðar á Íslandi (ISF), Hafró, Fiskistofu og MSC (Marine Stewardship Council) og funduðu með fulltrúum Fuglaverndar, Hólmfríði Arnardóttir framkvæmdastjóra og Rory Crawford verkefnastjóra.

Forsaga málsins er sú að 2015 og 2016 fékkst styrkur í gegnum Breska fuglaverndarfélagið og BirdLife til að rannsaka hve mikill fuglameðafli raunverulega sé í grásleppunetum og réðum við bæði árin, sjávarlíftæknisetrið Biopol til athugunarinnar. Þriðja ár rannsóknanna er 2017.

Við áttum okkur á því að ekki verður staðar numið hér. Til þess að öðlast betri skilning á umfangi og draga úr meðafla á fuglum við grásleppuveiðar er eftirfarandi lagt til:

  • Haldið verði áfram að afla gagna með sambærilegum hætti og gert var í verkefninu árin 2015 og sérstaklega árið 2016.
  • Fundnar verði leiðir til að bæta áreiðanleika skráninga í afladagbækur.
  • Framkvæmdar verði tilraunir til þess að reyna að minnka meðafla á fuglum við hrognkelsaveiðar og gerð verði yfirgripsmikil talning á sjófuglum við Ísland til þess að meta stofnstærð þeirra.

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Meira um verkefnið: Fuglameðafli

Hettumáfur. Ljósmynd: Elma Rún Benidiktsdóttir

Máfahátíð á Húsavík

Máfahátíð verður í fyrsta skipti haldin á Húsavík dagana 9. til 10. mars nk.  Það er Fuglastígur á Norðausturlandi sem stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við ýmsa aðila. Henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi Norðurlands/Íslands að vetri til og hvernig það getur nýst samfélaginu. Þetta er gert með viðburðum af ýmsu tagi og er kastljósinu beint að öllum fuglum, stórum jafnt sem smáum, vinsælum jafnt sem óvinsælum. Þegar á botninn er hvolft, eru þeir allir jafn áhugaverðir – náttúran minnir á sig og þolmörk sín í gegnum þá.

Undanfarin ár hefur sambærileg hátíð notið mikillar velgengni í Varanger, nyrst í Noregi og mun forsprakki hennar, Tormod Amundsen frá arkitektastofunni Biotope, koma ásamt fleiri erlendum gestum. Hann mun greina frá tilurð hátíðarinnar,  undraverðum árangri í uppbyggingu fuglaskoðunar í Varanger og möguleikum okkar á því sviði. Þá mun hinn heimsþekkti fuglamyndlistamaður, Darren Woodhead, lyfta vetrarfuglunum á stall með pensli sínum. Hann mun kynna listsköpun sína í opinni dagskrá og vera með sérstakt námskeið fyrir nemendur Borgarhólsskóla.

Fuglaskoðun að vetri

Fuglaskoðun á Íslandi að vetri til á vafalaust eftir að aukast. Margar af þeim tegundum sem erlendum fuglaskoðurum þykir hvað eftirsóknarverðastar eru hér allt árið. Straumendur eru til dæmis auðfundnar víða við Norðurströndina að vetri til og geta þær sómt sér vel á stalli með Norðurljósunum, sökum góðs aðgengis, fegurðar og sérstöðu (finnast ekki utan Íslands í Evrópu). Sama má segja um fálkann, rjúpuna, húsöndina og fleiri vetrarfugla. Þá myndar æðarfuglinn gjarnan stóra fleka við strandlengjuna sem eru tilkomumikil sjón og í þeim leynast stundum ægifagrir æðarkóngar. Litskrúðugir hávellu- og toppandarsteggir gleðja líka augað. Þannig má lengi telja.

Eins og nafn hátíðarinnar gefur til kynna er máfunum, aldrei þessu vant, gert hátt undir höfði. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru algengustu fuglarnir í flestum sjávarplássum landsins og af mörgum gerðum. Sú hugsun að þeir geti nýst okkur á einhvern hátt er yfirleitt víðsfjarri. Tilhneigingin hefur frekar verið í hina áttina, þ.e. að líta á máfana sem eins konar meindýr eða eitthvað sem er fyrir okkur. Samfélagið lítur þá gjarnan hornauga. En hvað eru máfar eiginlega? Og hvernig geta þeir og aðrir fuglar nýst manninum?

Máfarnir afhjúpaðir

Leitast verður við að afhjúpa líf máfanna á hátíðinni og munu nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík ríða á vaðið með þátttöku í útinámsverkefni tengdu alþjóðlegri rannsókn á máfum í Norður-Atlantshafi. Teymi máfasérfræðinga mun veiða þá í þar til gerðar gildrur við höfnina og setja litmerki á fætur þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra og lífshlaupi. Þarna gefst nemendum og öðrum áhugasömum tækifæri á að skoða máfana í bak og fyrir. Yann Kolbeinsson, líffræðingur og fuglaskoðari, mun leggja til sína þekkingu.

Máfahátíðin er samstarfsverkefni Fuglastígs á Norðausturlandi, Náttúrustofu Norðausturlands, Norðurþings og fleiri aðila. Það er von okkar að hátíðin festi sig í sessi sem árlegur viðburður á Norðausturlandi, tileinkaður fuglaskoðun og samspili manns og náttúru við Norður-Atlantshaf. Hún höfðar ekki síst til þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref í fuglaskoðun eða jafnvel ekki komnir á stað. Fuglaskoðun er fyrir alla.
 

Viðburðurinn: Máfahátíð á Húsavík

Silkitoppur og skógarþröstur. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 27. – 30. janúar

Garðfuglahelgin 2017 er alveg að bresta á. Athugendur velja hvaða dag þeir fylgjast með garðfuglunum eftir veðri og aðstæðum. Þátttakendur skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og þá er miðað við mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Ef fuglunum er ekki gefið reglulega þá er gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Epli eru vinsæl hjá mörgum fuglum og auðvelt að koma þeim fyrir með því að skera þau í tvennt og festa á trjágrein.

 

Hér er viðburðurinn: Garðfuglahelgin 2017

Hér er viðburðurinn á Facebook: Garðfuglahelgin 2017 

Krumminn fugl viskunnar

Kvikmyndasýning

Í samstarfi við Náttúrufræðistofu Kópavogs verður kvikmyndin Krumminn, fugl viskunnar eftir Pál Steingrímsson sýnd í fjölnotasal á 1. hæð Náttúrufræðistofu/Bókasafns Kópavogs laugardaginn 14. janúar kl. 13:00.

Sýningin er í samstarfi við Fuglavernd og til minningar um Pál sem lést nýverið en eftir hann liggja margar forvitnilegar kvikmyndir um dýralíf á Íslandi. Þann 8. apríl verður myndin Flug spóans sýnd.

Sýningarnar eru liður í fjölskyldustundum Menningarhúsanna í Kópavogi sem haldnar eru á hverjum laugardegi.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Viðburðurinn á vef Kópavogsbæjar

Viðburðurinn á Facebook

Vefurinn uppfærður

Við erum í þeirri vinnu að uppfæra vefinn okkar og meðan sú vinnsla stendur yfir, getur vel verið að eitthvað sé ekki eins og það á að vera.

Vinsamlegast, sendið okkur ábendingar á fuglavernd@fuglavernd.is, þær eru allar vel þegnar.

Snjótittlingar

Munið eftir smáfuglunum

Munið að gefa smáfuglunum í garðinum.

Þegar kalt er, vættu brauð og haframjöl í matarolíu. Olían er góð í frosti og gefur fuglunum aukna orku. Þurra brauðskorpu má einnig væta með vatni. Öll fita er vinsæl hjá fuglum á köldum vetrardögum.

Hér getur þú lesið meira um fóðrun garðfugla.

Á skrifstofu Fuglaverndar seljum við ýmis konar fóður fyrir fugla. Póstsendum hvert á land sem er. Skoðaðu vöruúrvalið.

Fuglafóður

  • Kurlaður maís fyrir snjótittlinga (650 g) – 300 kr
  • Sólblómafræ án hýðis (1 kg) – 600 kr
  • Sólblómafræ með hýði (2 kg) – 1.200 kr
  • Sólblómafræ án hýðis, sekkur (23 kg)  – 9.000 kr

 

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Útgáfuhóf: Væri ég fuglinn frjáls

Fimmtudagskvöldið 22. desember frá kl. 18 – 19 bjóðum við félagsmönnum til útgáfuhófs bókarinnar Væri ég fuglinn frjáls, fyrstu skrefin í fuglaskoðun.

Fyrir félagsmenn sem greitt hafa árgjaldið verður bókin á tilboðsverði 2.500 krónur í útgáfuhófinu. Höfundurinn Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur sem jafnframt tók ljósmyndir í bókina verður hjá okkur og áritar eintök sé þess óskað.

Á kápusíðum bókarinnar eru myndir af algengustu fuglum á Íslandi. Þeim er skipt niður í sex flokka eftir búsvæðum, skyldleika og lífsháttum: sjófuglar, vaðfuglar, máffuglar, landfuglar, vatnafuglar og spörfuglar. Þessi flokkun gerir ungum og áhugasömum fuglaskoðurum kleift að greina flesta þá fugla sem þeir sjá á förnum vegi.

Í bókinni er að finna verkefni eftir árstíðum t.d. að fylgjast með farfuglum á vorin því koma farfuglanna er stór hluti vorkomunnar. Þá er fjallað um hvað þarf til fuglaskoðunar, hvert er hægt að fara, fóðrun fugla til að laða þá að görðum og fuglavernd.

Fuglavernd þakkar sérstakleg eftirtöldum aðilum fyrir stuðning þeirra við útgáfu bókarinnar: Barnavinafélagið Sumargjöf, Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups, Samfélagssjóður Valitor, Samfélagssjóður Landsbanks, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis og við vonumst til að sjá sem flesta í jólaskapi.

Hólmfríður Arnardóttir kynnir Fuglavernd

Kynning Fuglaverndar á Grund

Fimmtudaginn 8. desember heimsóttu starfsmenn Fuglaverndar Dvalarheimilið Grund og kynntu félagsstarfið.

Umsjónarmaður morgunstundarinnar á Grund, Pétur Þorsteinsson hafði samband við félagið og óskaði eftir kynningunni og var okkur ljúft og skylt að verða við þeirri bón.

Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar flutti erindi um stofnun og starfsemi Fuglaverndar og að því loknu sköpuðust umræður um fugla, vernd og fóðrun garðfugla. Um 30 manns hlýddu á erindið sem vakti mikla ánægju.