Fuglavernd hefur, ásamt sex samstarfsaðilum, hlotið styrk frá LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Peatland LIFEline.is er metnaðarfullt verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Samstarfsaðilar Fuglaverndar eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB). Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands.
Áhersla lögð á þrjár fuglategundir
Verkefnið hófst formlega þann 1. september síðastliðinn og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um 6 milljónir evra (sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna).
Markmið verkefnisins Peatland LIFEline.is er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla verður lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll – sem og á evrópska álinn sem er í útrýmingarhættu. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.
Sendiherra ESB mætti á Hvanneyri
Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn dagana 22.–24. september 2025 á Hvanneyri í Borgarfirði og mættu um 50 þátttakendur. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar og Bára Huld Beck kynningarstjóri verkefnisins hjá Fuglavernd sóttu fundinn en megintilgangur hans var að ræða skipulag og framtíðarplön og leggja línurnar fyrir þau verkefni sem framundan eru.
Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, tók þátt í setningardegi fundarins ásamt sendinefnd sinni: Samúel Ulfgard, aðstoðarforstöðumanni sendinefndarinnar, og starfsnemunum Þórhildi Kristínardóttur og Þórhildi Søbech Davíðsdóttur. Sendiherrann flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi Peatland LIFEline.is sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála.
Mynd frá fundi á Hvanneyri: James Einar Becker