„Stytta þarf veiðitíma svartfugla strax,“ er titill aðsendrar greinar sem birtist nýlega á Vísi eftir Hólmfríði Arnardóttur framkvæmdastjóra Fuglaverndar og Helgu Ögmundardóttur stjórnarmanns í Fuglavernd. Greinin er mikilvægur liður í því að varpa ljósi á stöðu svartfugla á Íslandi; hverjar helstu ógnir stofnsins eru og hvaða aðgerða er þörf.
Í greininni er meðal annars fjallað um stöðu lundans en hún er alvarleg þrátt fyrir dálæti fólks á honum. „Þótt lengi hafi verið vitað um hnignun lundastofnsins hefur lítið verið gert til að stöðva þróunina. Langstærstur hluti lundastofnsins verpur á Íslandi, eða um 60% af heimsstofninum. Lundi hefur hér á landi verið á skrá sem tegund í bráðri hættu frá árinu 2018. Meðalstofnvöxtur íslenska lundastofnsins hefur verið undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum að mestu leyti í um 30 ár eða frá árinu 1995. Samdrátturinn stafar einkum af svæðisbundnum viðkomubresti hjá lunda sökum fæðuskorts. Þegar svo háttar til bæta veiðar gráu ofan á svart hvað varðar stöðu stofnsins og eru ósjálfbærar, sem gengur gegn markmiðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.“
Veiðitímabil á Íslandi óvenju langt
Sjónum er þó ekki einungis beint að lundanum. „Helstu ógnir við sjófugla eru afföll sem meðafli í veiðarfærum, ofveiði fiskitegunda, ágengar framandi tegundir, veiði, mengun, loftslagsbreytingar, orkumannvirki og fuglaflensa. Flestar tegundir þurfa að kljást við margar af þessum ógnum samtímis yfir ævina. Að auki hafa bæst við nýlegri ógnir svo sem plastmengun í hafi og bein truflun af mannavöldum vegna frístundaiðkunar og náttúruferðamennsku. Þá eru stórfelld áform um byggingu víðfeðmra vindmyllugarða bein ógn ef ekki verður unnið sérstaklega að því að finna og hlífa svæðum sem mikilvæg eru fyrir sjófugla.“

Þær Hólmfíður og Helga benda á að ein helsta ógnin sem hægt er að hafa bein og skjót áhrif á sé veiði. „Í dag eru skotveiðar hér á landi leyfðar á álku, langvíu, stuttnefju og lunda frá 1. september til og með 25. apríl. Háfaveiðar eru leyfðar á sömu tegundum frá 1. júlí til og með 15. ágúst. Teista var friðuð fyrir veiðum árið 2017 vegna fækkunar. Talið er að um 90 prósent af lundaaflanum veiðist í háfa. Ef litið er til stöðu svartfugla á íslenskum válista sést að stuttnefja, lundi og teista lenda í hættuflokkum og langvía telst vera í yfirvofandi hættu. Einungis álka virðist vera tegund sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af í dag en hún var þó í yfirvofandi hættu fyrir fáeinum árum.
Þrátt fyrir þessa bágu stöðu margra svartfuglastofna er veiðitímabil þessara tegunda á Íslandi óvenju langt samanborið við önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Þar fyrir utan hafa rannsóknir leitt í ljós að veiðarnar ná inn á varptíma tegundanna og að veiðar undir lok veiðitímans hafa mun neikvæðari áhrif á stofnstærð en veiðar að hausti. Þá er hér talsvert um magnveiði, einkum vegna þess að svartfuglar eru eftirsóttir á sumum matsölustöðum,“ skrifa þær.
Ekki nóg að gefa út fagrar yfirlýsingar
Fjórar aðgerðir eru nefndar í greininni til að hafa áhrif á þessa stöðu sem nú er uppi. „Nauðsynlegt er að ráðast strax í aðgerðir og vert er að nefna fjóra þætti í því samhengi. Í fyrsta lagi þarf að stytta strax veiðitíma svartfugla í samræmi við fyrirliggjandi gögn þannig að veiðitíma svartfugla ljúki í síðasta lagi 15. janúar. Stytting veiðitíma svartfugla með þessum hætti væri til mikilla bóta í samhengi við sjálfbærni veiða og alþjóðasamninga um náttúruvernd. Hægt er að framkvæma þessa aðgerð þegar í stað.
Í öðru lagi þarf að breyta lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum í samræmi við tillögu Náttúruverndarstofnunar, til að hægt sé að grípa til verndandi aðgerða þótt veiðar flokkist sem hlunnindaveiðar. Í þriðja lagi þarf að setja strax sölubann á allar afurðir svartfugla, s.s. kjöt, egg og ham til uppstoppunar og í fjórða lagi þarf að friða lunda fyrir öllum veiðum í að minnsta kosti fimm ár. Að friðunartímabili loknu skuli endurmeta stöðuna.“
Að lokum benda höfundar á að ekki sé nóg að gefa út fagrar yfirlýsingar eða vera með háleit markmið. „Mikilvægt er að fylgja málum eftir – hratt og örugglega. Þess vegna skorar Fuglavernd á ráðherra málaflokksins og önnur stjórnvöld að ráðast strax í aðgerðir svo svartfuglar, þar með taldir lundarnir okkar, geti lifað hér áfram í sátt og samlyndi við okkur mannfólkið.“
Hægt er að lesa greinina í heild sinni á Vísi.is.
Mynd af Langvíu: Jóhann Óli Hilmarsson

