Fuglavernd stóð fyrir málþingi 31. október síðastliðinn þar sem eitt mikilvægasta og fjölbreyttasta vistkerfi landsins, votlendi Íslands, var í brennidepli. Um 60 manns mættu á málþingið og tæplega 160 horfðu á streymi frá Norræna húsinu. Tíu sérfræðingar á ólíkum sviðum héldu erindi og deildi Rán Flygering einstaklega áhugaverðri hugvekju með gestum. Rannveig Magnúsdóttir stýrði fundinum með miklum sóma.
Menja von Schmalensee formaður Fuglaverndar opnaði málþingið og benti á að stór hluti fugla byggði afkomu sína á votlendi og því væri vel við hæfi að Fuglavernd beitti sér fyrir verndun votlendis og miðlun þekkingar um það.
Á málþinginu var fjallað um ýmsa anga er tengjast votlendi og var meðal annars fjallað um nýjustu rannsóknir og reynslu fólks sem vinnur að verndun og endurheimt votlendis. Rætt var um fugla, gróður, jarðveg, kolefnisbúskap, fiska og landnotkun – og margt fleira.
Ályktun fundargesta
Í lok málþings ályktuðu fundargestir eftirfarandi, byggt á öllum þeim fróðleik sem fram hafði komið í erindum dagsins, sem og umræðum sem spunnust í kjölfar erinda:
- Íslensk votlendi eru sérstök og mikilvæg – og verður að vernda betur en nú er gert.
- Allt votlendi Íslands á að njóta verndar, óháð flatarmáli hvers svæðis. Nú þegar hefur um 70% votlendis á láglendi verið raskað og rannsóknir hafa sýnt að litlir votlendisblettir eru ekki síður mikilvægir en þeir sem stærri eru. Enn er votlendi raskað en nú er mál að linni.
- Auka þarf verulega endurheimt votlendis. Þótt einhver endurheimt hafi verið framkvæmd og ýmis verkefni séu fram undan, dugar það ekki til.
- Brot á náttúruverndarlögum verða að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir hinn brotlega. Fráleitt er að þeir sem raska votlendi í leyfisleysi þurfi ekki að sæta viðurlögum.
- Ábyrgðartegundir Íslands, sem og tegundir í hættuflokkum á íslenskum válista, verða að öðlast lagalega stöðu sem tryggir betur vernd þeirra og búsvæða þeirra, þar á meðal votlenda.
Einnig vildu fundargestir koma eftirfarandi hvatningum á framfæri:
- Opinberar stofnanir á sviði náttúruverndarmála eru hvattar til að auka samstarf, samtal og samráð sín á milli.
- Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er hvattur til að standa með náttúrunni.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan:
Hér má sjá myndir frá málþinginu:















