Hennar keisaralega hátign, Takamado prinsessa frá Japan

Prinsessa heilsar upp á íslenska fugla

Fuglavernd fékk þann heiður síðastliðinn föstudag að fara með hennar keisaralegu hátign Takamado, prinsessu frá Japan, í fuglaskoðun um Reykjanesskaga. Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar, ásamt Sigurjóni Einarssyni fuglaljósmyndara og Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi, slógust í för með prinsessunni og sáu ýmislegt forvitnilegt á ferð sinni um skagann. 

Prinsessan var stödd á Íslandi vegna þings Hringborðs norðurslóða sem haldið var í síðustu viku þar sem yfir 2.000 þátttakendur frá nær 70 löndum tóku þátt en hún flutti ávarp við upphaf þingsins.

Áhugasamur fuglaljósmyndari

Takamado prinsessa er heiðursforseti Alþjóðlegu fuglaverndunarsamtakanna (BirdLife International) og er sendiherra fugla og náttúru. Hún hefur verið ötull stuðningsmaður samtakanna í Asíu og víðar. Sjálf er hún fuglaljósmyndari og hefur gefið út fjölda bóka um viðfangsefnið. 

Föruneyti prinsessunnar fór um Hafnir, Sandgerði, Garðskagavita og Fitjar í Njarðvíkum. Það sem helst vakti athygli prinsessunnar voru rjúpur á vappi á milli Hafna og Sandgerðis þar sem hún náði mynd af þeim í vetrarbúningi. Einnig náði prinsessan að taka myndir af svartbökum og ungum bjartmáfum, sem og rauðhöfðaöndum og hettumáfum í Fitjum og hópi heiðlóa í vetrarbúningi, sem hverfur brátt á braut til heitari landa.

Mynd af hennar hátign, Takamado: Sigurjón Einarsson

 

Prinsessan Takamado fór í fuglaskoðun um Reykjanesskaga með Fuglavernd. Hér stillir hún sér upp með Hólmfríði Arnardóttur framkvæmdastjóra Fuglaverndar, Sigurjóni Einarssyni fuglaljósmyndara og Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi.