Fuglavernd stóð fyrir fuglaskoðun á Alþjóðlegum degi farfugla 11. október síðastliðinn. Fuglaskoðarar hittust á bílastæðinu hjá Garðskagavita á Reykjanesi þar sem margt var um manninn. Til tíðinda dró þegar aðrir fuglaskoðarar mættu á svæðið vígbúnir sjónaukum og myndavélum og greindu frá því að vaðlatíta (Calidris fuscicollis) hefði sést á svæðinu. Þeir bentu á tvær vaðlatítur sem vöppuðu í fjörunni ásamt sanderlum, tildrum og sendlingum. Vaðlatítur verpa í Kanada og Alaska en eiga hins vegar vetursetu í Suður-Ameríku. Þær flækjast hingað til lands endrum og sinnum svo fuglaskoðarar duttu í lukkupottinn við þessa sjón.
Gengið var að vitanum og meðfram ströndinni þar sem sjá mátti hvítmáfa, silfurmáfa og súlnakast í fjarska.
Næst var förinni heitið á Hvalsnes í hádegismat og þar á eftir í Sandgerði þar sem meðal annars mátti sjá heiðlóur í vetrarbúningi undirbúa sig fyrir farflugið yfir Atlantshafið. Fuglaskoðuninni lauk í Fitjum í Njarðvíkum. Þar er fuglaskoðunarhús sem Fuglavernd mælir með að fuglaskoðarar nýti. Þar mátti sjá álftir með uppkomna unga og mikið af rauðhöfðaöndum.
Þrátt fyrir haustveður og sunnanátt þá skemmtu fuglaskoðarar sér konunglega og þakkar Fuglavernd öllum þeim sem mættu.