Bára Huld Beck hefur verið ráðin kynningar- og samskiptastjóri Fuglaverndar fyrir LIFE-verkefni um endurheimt votlendis sem unnið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, Land og skóg, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB).
Bára Huld hefur víðtæka reynslu en hún starfaði í fjölmiðlum um árabil. Hún hefur jafnframt setið í stjórn Blaðamannafélags Íslands síðustu fimm ár og í framkvæmdastjórn árin 2022-2023 og 2024-2025. Hún er með B.A.-gráðu í heimspeki og M.A.-gráðu í umhverfis- og náttúrusiðfræði og blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Hún hóf störf hjá Fuglavernd þann 1. september síðastliðinn.
Verkefnið sem um ræðir ber heitið Peatland LIFEline og miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Áhersla verður m.a. lögð á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi. Það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll. Auk þessa verður mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar. Verkefnið er formlega hafið og mun standa yfir til byrjun árs 2031.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið og starfsemi Fuglaverndar hjá Báru Huld í síma 697-3469 og í gegnum tölvupóstfangið barahuld hjá fuglavernd.is.
Við hjá Fuglavernd bjóðum Báru Huld velkomna til starfa.