Þetta vor hefur verið farið í þrígang í Friðland í Flóa til að sinna viðhaldi mannvirkja. Sumardaginn fyrsta mættu þrír sjálfboðaliðar á vettvang og skröpuðu og grunnuðu allt fuglaskoðunarhúsið að utan. Enn fremur var borið á rampinn sem leiðir að húsinu og pallinn við húsið. Veðuir var þurrt og gott en það vor 10-15 metrar allan daginn. Þurftum að ríghalda í dúkinn þegar hádegisverður var snæddur. Það var ánægjulegt að sjá að einhver hafði skipt út hlerunum á vestur- og austurglugga hússins, en þeir voru illa farnir af veðrun. Það er verst að við vitum ekki hver gerði það og auglýsum við eftir hlerasmiðnum hér með.
Fyrsta maí mættu sex manns í Friðlandið til að halda áfram viðhaldi. Þetta var veðurfarslega sérkennilegur dagur. Þegar sjálfboðaliðar vöknuðu þann morgun á Suðvesturlandi, rigndi og enn rigndi þegar ekið var austur um Þrengslin. Fuglavernd hafði fengið að geyma málningardótið á Eyrarbakka og sá er afhenti okkur það hafði vaknað í úrkomu á Selfossi og hugsað að ekki yrði gott að mála í dag. En viti menn, það var þurrt og frábært málunarveður allan daginn í Flóanum. Það gekk á með skúrum allan daginn á Hellisheiði og austan við Flóann. Uppsveitirnar héngu þurrar líka.
Báðir þessir vinnudagar voru frábærir að öllu leyti. Mannskapurinn kom miklu í verk og aðalmarkmiðinu var náð: Að grunna og mála húsið. Einnig náðist að bera á stiga, hlið og smá á kamarinn. Gönguleiðið í Friðlandinu var stikuð og var það lokaverk dagsins.
Nú lítur húsið vel út með heilum hlerum fyrir glugga. Pallurinn er olíuborinn sem og bekkir og borðið sem standa á honum. Rampurinn er að mestu olíuborinn, svona 3 metrar eftir. Næsta verkefni í sambandi við húsið er að mála aðra umferð. Það þarf einnig að klára að bera á rampinn.
Tveir sjálfboðliðar fóru í Friðlandið 12. maí til að sinna brúarviðhaldi. Á stikuðu gönguleiðinni um Friðlandið eru fjórar brýr. Þær voru settar niður fyrir 2 árum þegar langur frostakafli var að vetri. Þær eru á fótum en eru einnig festar niður með járnstaurum og vír. Þrátt fyrir öflugar festingar höfðu tvær brýr farið á flot á stórstreymi og í lægð, að öllum líkindum þeirri sem innihélt þrumur og eldingar í vetur. Önnur brúin er orðin undin en skilar sínu hlutverki sem brú og hin er í lagi en var færð á sinn stað og fest niður að nýju.
Af ofangreindu má sjá að því fylgir viðhald að vera með mannvirki og sjálfboðaliðar Fuglaverndar eru ómetaleg auðlind félagsins hvað varðar slíkt. Við hvetjum sem flesta félaga Fuglaverndar að taka þátt í starfi okkar. Viðhaldsvinna í Friðlandinu er ekki aðeins að tína rusl, munda pensil og skröpu heldur er er þetta líka vettvangur til að hitta fólk sem hefur áhuga á fuglum. Það er engu líkt að mála og hlusta á söng lóma allt í kring sem og söng annar fugla eins og lóuþræla, þúfutittlinga, tjalda, jaðrakana og þar fram eftir götunum, í Friðlandi í Flóa.
Í júní verður Fuglavernd með fuglaskoðunargöngur í Friðlandi. Fylgist með á viðburðardagatalinu.