Rauðhöfðakolla með þrjá stóra dúnunga á Hústjörn í Vatnsmýri 9. júlí 2023. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.
Árlega kemur út skýrslan Fuglalíf Tjarnarinnar á vegum Reykjavíkurborgar sem að Fuglavernd fær að birta með góðfúslegu leyfi. Tveir fyrrum formenn Fuglaverndar. Ólafur Karl Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson, rannsaka fuglalífið og taka saman í skýrslu fyrir borgina. Fuglavernd hvetur alla vini Tjarnarinnar í Reykjavík að lesa skýrsluna.
„Fuglafána Tjarnarinnar hefur verið vöktuð meira og minna samfellt frá 1973 eða í 51 ár. Fimm andategundir hafa verið árvissir varpfuglar lengstum á þessu tímabili: stokkönd, gargönd, duggönd, skúfönd og æður. Varpstofnum stokkandar, gargandar og duggandar hefur hnignað verulega og æðurin er horfin. Einn æðarbliki sást reyndar í vor, en síðasta æðarkollan sást vorið 2021 og síðast varð vart við æðarunga sumarið 2014. Það er aðeins skúfandastofninn sem ekki hefur gefið eftir til lengri tíma litið. Rauðhöfðaönd, nýr varpfugl, bættist við 2013, og svo urtönd 2015, toppönd er óreglulegur varpfugl. Langvarandi viðkomubrestur stendur andastofnunum fyrir þrifum. Þrjár meginskýringar eru á lélegri afkomu andarunga: (1) fæðuskortur; (2) afrán; og (3) hnignun búsvæða.”
Hér er hægt að opna og lesa skýrsluna; Fuglalíf Tjarnarinnar árið 2023