Lundi. Ljósm. Jóhann Óli Hilmarsson

Samantekt frá BirdLife Europe um stöðu sjófugla í Evrópu

Brynja Davíðsdóttir, starfsmaður hjá Fuglavernd tók saman.

Í sumar kom út samantekt frá BirdLife Europe um stöðu sjófugla í Evrópu, sem nálgast má hér: https://www.birdlife.org/wp-content/uploads/2024/07/Seabird_Report-2024-July_-Final-Digital-Spreads-compressed.pdf Árið 2021 mat BirdLife International stöðu evrópskra varpfugla og vetrargesta á válista og uppfærði fyrir árabilið 2013-2018. Helstu niðurstöður eru þær að meðal sjófugla, anda og gæsa, vaðfugla og ránfugla, eru hlutfallslega flestar tegundir metnar í hættuflokkunum, í bráðri hættu (CR), í hættu (EN), í nokkurri hættu (VU) eða í yfirvofandi hættu (NT) en miðað var við hættuflokka Alþjóða náttúruverndarsambandsins (IUCN). 

Helstu ógnir sem steðja að sjófuglastofnum eru meðafli í veiðarfærum, ofveiði fiskitegunda, ágengar innfluttar tegundir, veiði, mengun, hnattræn hlýnun, orkumannvirki og fuglaflensa. Margar tegundir þurfa að kljást við flestar af þessum ógnum samtímis. Að að auki hafa bæst við nýlegri ógnir svo sem plastmengun í hafi og bein truflun af mannavöldum vegna frístundaiðkunar og náttúruferðamennsku. Þá eru stórfelld áform um byggingu víðfeðmra vindmyllugarða bein ógn ef ekki verður gætt sérstaklega vel að því að finna og hlífa svæðum sem eru mikilvæg fyrir sjófugla á einn eða annan hátt.

 Evrópskir sjófuglar telja einn fjórða allra sjófuglategunda í heiminum en stofnmat þeirra veldur áhyggjum því 32% evróskra sjófuglategunda eru í hættuflokkum. 

Kjói (Stercorarius parasiticus) og æðarfugl (Somateria mollissima) hafa verið færð upp um hættuflokk því kjói hefur sýnt mjög bratt fall í stofnstærð innan Evrópu og er líklegt að sú þróun haldi áfram í nánustu framtíð og gert er ráð fyrir að hnignun æðarstofnsins verði yfir 50% í náinni framtíð (77% evrópska æðarfuglsstofnsins er að finna í löndum utan Evrópusambandsins).

Staða Lunda (Fratercula arctica) veldur sérstökum áhyggjum vegna hnignandi stofnþróunar. Langstærstur hluti lundastofnsins eða 85% verpur utan Evrópusambandsins, þar af 47% á Íslandi, 31% í Noregi og 10% í Færeyjum. Lundi hefur verið flokkaður hér á landi sem tegund í bráðri hættu (CR) frá 2018. Meðalstofnvöxtur íslenska lundastofnsins hefur verðið undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum að mestu leiti frá árinu 1995 en þessi samdráttur stafar af svæðisbundnum viðkomubresti hjá lunda sökum fæðuskorts, auk veiða (skýrsla Náttúrustofu Suðurlands, Stofnvöktun lunda 2020-2022 https://nattsud.is/wp-content/uploads/2023/10/2020-2022-Stofnvoktun-lunda-Lokaskyrsla-11.okt_.pdf ).

Ýmis jákvæð teikn eru á lofti um að brugðist verði við þessari þróun, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Vinna er í gangi hjá Umhverfisstofnun við gerð verndaráætlunar fyrir lunda (https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2023/08/22/Vinna-vid-stjornunar-og-verndaraaetlun-lunda-/ ). Einnig vinnur Ríkisstjórn Íslands að aukinni vernd viðkvæmra hafsvæða sem eru mikilvæg fyrir lífríkið samkvæmt Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework samningsins (COP15: Final text of Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework | Convention on Biological Diversity (cbd.int) ) sem gerður var í lok árs 2022, en í honum er kveðið á um að ríki skuli vernda 30% haf- og landsvæða fyrir árið 2030. Sá samningur hefur verið undirritaður af fleiri en 200 ríkjum. „Meginmarkmið Kumning-Montreal samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni sem minnkar nú mun hraðar en áður á þekktum jarðsögulegum tíma“ (segir í afstöðu Hafró hér Úthafssáttmáli Sameinuðu þjóðanna | Hafrannsóknastofnun (hafogvatn.is).

Í stefnuskýrslu Matvælaráðuneytisins Auðlindin okkar -Sjálfbær sjávarútvegur, frá 2023 (sem nálgast má hér https://www.stjornarradid.is/library/01—Frettatengt—myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/230819%20Matvaelaraduneytid%20Audlindin%20okkar%20Rit%201%20WEB.pdf ) segir meðal annars:

Setja þarf stefnu um verndun hafsvæða þar sem tekið er tillit til fleiri þátta en fiskveiðistjórnunar. Ísland hefur samþykkt alþjóðamarkmið um að vernda 30% af haffletinum fyrir 2030 á grundvelli OSPAR-samningsins um verndun NA-Atlantshafsins. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu þar sem tilnefnd voru hafsvæði til verndunar en einungis var um að ræða viðkvæm botnsvæði út frá fiski en ekki út frá öðru lífríki eða vistkerfum hafsins. Vernda þarf svæði út frá fleiru en viðkvæmum botnsvæðum. Nefna má sjófuglabyggðir og sellátur í því samhengi.

Er þetta í góðu samræmi við mikla þörf og mikilvægt að eftirfylgni verði skjót og árangursrík.