Formaður Fuglaverndar birti um helgina perónulega hugleiðingu um skógræktarmálið í Saltvík, nærri Húsavík, sem má lesa hér.

“Stundum skil ég bara alls ekki ákvarðanir sem eru teknar í stjórnsýslunni þegar kemur að náttúruvernd og dýravelferð. Aðfarir Ísafjarðabæjar gegn kríum og Garðabæjar gegn sílamáfum eru dæmi um þetta. Nýjasta dæmið er hins vegar leyfisveiting Norðurþings til Yggdrasill Carbon til jarðvinnslu vegna skógræktar. Nærri Húsavík var í sumar plægt upp fallegt og vel gróið búsvæði margra fuglategunda sem verpa á opnum svæðum Á MIÐJUM VARPTÍMA!!

Nógu slæmt er að fara svona fram með offorsi gegn náttúrunni undir því yfirskini að vilja binda kolefni, en þessi tímasetning aðgerða er gjörsamlega galin. Samkvæmt vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar (https://vistgerdakort.ni.is/) er ríkjandi vistgerð á svæðinu sem um ræðir fjalldrapamóavist. Einnig má finna þarna aðrar vistgerðir í minna mæli samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunar, en nefna má starungsmýravist og víðikjarrvist. Í þessum vistgerðum má finna ríkulegt fuglalíf og algengt er að t.d. þúfutittlingur, hrossagaukur, spói, heiðlóa, lóuþræll, rjúpa, jaðrakan, stelkur, skógarþröstur og grágæs verpi þar. Allar þessar tegundir nema rjúpa og grágæs eru alfriðaðar, en rjúpa og grágæs eru veiðitegundir sem þó að sjálfsögðu eru friðaðar á varptíma. Fjalldrapamóavist, starungsmýravist og víðikjarrvist eru allar á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Eyðilögð gróðurþekja Saltvík, Húsavík. Ljsm. Áskell Jónsson

 

Hér er því rétt að staldra við.

Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994) (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994064.html) kemur fram að „Villt dýr, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins, eru friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum“ (6. grein). Þá er friðun skilgreind sem „bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.“ (1. grein). Ljóst er að afföll urðu á eggjum og ungum friðaðra tegunda í sumar er umrætt land var plægt upp á varptíma.

Í lögum um velferð dýra (nr. 55/2013) (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013055.html) kemur fram að skylt sé að hjálpa dýrum í neyð (væntanlega hefur fjöldi fugla lent þarna í neyð á meðan á þessum aðgerðum stóð), sbr. „Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum (7. grein). Væntanlega hafa fuglaungar drepist þarna, en í 21. grein um aflífun kemur fram að „Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör. Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu.“ Ljóst er að ekki hefur verið farið eftir þessu.

Í 17. grein laga um náttúruvernd (nr. 60/2013) varðandi réttindi og skyldur almennings kemur fram að „Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði“ (sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013060.html). Hvaða sérstaka aðgát var viðhöfð er varplönd fugla voru plægð upp við Húsavík á varptíma?

Það má því spyrja sig: Voru lög brotin við þessar aðfarir Yggdrasill Carbon í sumar? Ef ekki, er ljóst að löggjöfin okkar varðandi náttúruvernd og dýravelferð eru allt of vanmáttug til að koma í veg fyrir náttúruspjöll og dýraníð!
Langstærsta náttúruverndarmál samtímans er varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni. Einhverra hluta vegna hefur umræðan í samfélaginu einblínt á nauðsyn þess að koma í veg fyrir hamfarahlýnun með loftlagsaðgerðum. Það er auðvitað mikilvægt, en fólk virðist gleyma því að þær aðgerðir eru einmitt m.a. TIL ÞESS AÐ VARÐVEITA LÍFFRÆÐILEGA FJÖLBREYTNI. Að fórna friðuðum tegundum og vistgerðum sem ber að vernda í nafni loftslagsaðgerða er því svo sannarlega að fleygja barninu út með baðvatninu. Vissulega verðum við að grípa til loftslagsaðgerða en við það verður að vanda til verka og fara leiðir sem eyðileggja ekki meira en þær bjarga.