Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.
Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.
Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00