Kettir og fugladráp þeirra – hvað er til ráða?

Áskorun til kattaeigenda á varptíma

Nú er vorið komið og með hækkandi hitastigi og meiri birtu fara dýr af flestum tegundum að huga að vorverkum og eru meira á ferðinni en yfir vetrartímann. Fuglar af öllum stærðum og gerðum hafa mikið að gera á þessum tíma. Sumir hafa haft mikið fyrir því að koma sér til landsins. Þeir parast, gera sér hreiður og liggja á eggjum í marga sólarhringa áður en ungarnir skríða út. Fjölmörg höfum við gaman af að fylgjast með öllu ferlinu.
Heimiliskettir hrista líka af sér vetrarslenið og eru oft meira úti við. Kettir eru rándýr og geta valdið miklum afföllum hjá fuglum, sér í lagi á varptíma. Til eru nokkur ráð fyrir ábyrga kattaeigendur til að reyna að minnka þann skaða sem þeirra kettir mögulega valda. Til dæmis er hægt að halda köttum inni yfir varptímann en hafa þarf í huga að kettir þurfa þá meiri leik og athygli á þeim tíma. Hægt er að halda köttunum inni ákveðinn tíma sólarhrings og þá helst yfir kvöld og nótt (u.þ.b. frá kl. 17:00 til kl. 09:00). Til að venja ketti á að koma inn seinni partinn má prófa að gefa þeim eitthvað sem eigandinn veit að kisu finnst gott. Æskilegt er að setja bjöllur á hálsólar og einnig hafa kattakragar sem settir eru á ólarnar gefið góða raun.

Samkvæmt grein á heimasíðu Fuglaverndar  drepa kettir með litríka kraga mun færri fugla en kettir með engan kraga en hér eru nokkrar greinar um veiðar katta, kraga og annað tengt því. Kragana er hægt að fá á allnokkrum stöðum svo sem hjá Fuglavernd, , Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, gæludýraverslunum og hjá dýralæknum.

 

Í vor vilja Fuglavernd – BirdLife Iceland, Kattavinafélag Íslands, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og Dýraþjónusta Reykjavíkur í sameiginlegu átaki skora á kattaeigendur að gæta katta sinna vel og reyna að lágmarka fugladráp þeirra.