Glæsileg og fróðleg heimasíða Rannsóknarseturs HÍ á Suðurlandi.
Öll landnotkun hefur í för með sér breytingar á lífsskilyrðum þeirra lífvera sem reiða sig á landið sem á að nýta. Áhrif landnotkunar á lífverur ráðast af umfangi notkuninnar, lífsháttum tegunda og á hversu stóran hluta stofns breytingar verka. Til að lágmarka neikvæð áhrif landnotkunar á lífbreytileika er mikilvægt að huga að þessum þáttum.
Áhrif landnotkunar á lífverur eru breytileg eftir eðli og umfangi. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem Íslendingar eru aðilar að, er sérstök áhersla á að þjóðir viðhafi varúð við uppbyggingu atvinnuvega og innviða sem eru þekktir að því að hafa mikil áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þær gerðir landnotkunar sem þar eru sértaklega tilgreindar eru ræktað land, skógrækt, orkuöflun, flutningskerfi og skipulag þéttbýlis.
Hérlendis er ræktað land umsvifamesta landnotkunin en einnig eru stór svæði nýtt undir byggð og önnur mannvirki, svo sem vegi, sumarhús og raforkumannvirki. Einnig er land í auknum mæli nýtt til skógræktar og undir íþrótta- og útivistarsvæði.