Fuglavernd sendi 5. nóvember 2022 erindi til Umhverfisstofnunar vegna tillagna stofnunarinnar sem hún sendi umhverfisráðuneytinu í vikunni, erindið er svohljóðandi:
Í tillögum Umhverfisstofnunar til ráðherra umhverfis- og auðlindamála frá 4. október varðandi veiðifyrirkomulag á rjúpu er lagt til að fjölga veiðidögum rjúpu frá því í fyrra.
Fuglavernd mótmælir þessu harðlega og félagið vill benda á eftirfarandi:
• Viðkomubrestur var hjá rjúpu á Norðausturlandi og viðkoman var léleg á Vesturlandi. Ástandið í öðrum landshlutum er óþekkt. Hér á varúðarreglan að gilda (e. precautionary principle) við alla ákvarðanatöku.
• Miðað við nýlega greiningu á stofnstærð rjúpu og veiðiafföllum, þá hefur stofnstærð rjúpu verið ofmetin og veiðiafföll vanmetin með þeim aðferðum sem NÍ hefur beitt frá 2005 (Rit LbhÍ 141 sjá https://www.lbhi.is/skolinn/rannsoknir/utgefid-efni). Veiðiafföllin samkvæmt þessu nýja mati eru við eða vel ofan við þau mörk sem t.d. Norðmenn meta sem ásættanleg.
Í ljósi þessa ætti frekar að fækka leyfilegum veiðidögum en að fjölga þeim líkt og tillögur UST gera.