Árlega er Fuglavernd ásamt öðrum hagsmunaaðilum boðið á fund um ástand rjúpnastofnsins á Náttúrufræðistofnun. Viðkoma rjúpnastofnsins er því miður mjög slök í ár og fáir ungar hafa lifað af sumarið. Auðvitað eru það vonbrigði því talningar í vor sýndu að stofninn væri nærri hámarki á Norð-vesturlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum, en nú hefur þessi lélegi varpárangur aldeilis breytt þeirri stöðu.
Það er ekki einfalt mál að áætla veiðiþol stofnsins og ekki alltaf þakklátt verkefni en það er nú eitt af því sem þessi vöktun snýst um. Alltaf eru uppi háværar raddir um að ekki sé hægt að fullyrða um stofnstærðina vegna skorts á vöktun eða að sveiflna í stofni. En svokölluð stofnvísitala rjúpunnar sýnir að til lengri tíma litið hefur rjúpnastofninum okkar hrakað og það sama má segja um varpárangur fuglanna. Mikilvægt er þó að við gefum rjúpnastofninum rými til að vaxa þegar svona stendur á, og drögum úr veiði eða jafnvel hættum henni alveg, gefum fuglinum frí. Við þökkum samráðið og vonum að rjúpan fái að njóta vafans ef einhver er.
Nánar er hægt að lesa um veiðiþol rjúpnastofnsins hér
Meira hér um viðkomubrest hjá rjúpunni í sumar.