Köttur með kattakraga

Af fuglum og köttum – ákall Fuglaverndar til kattaeigenda

Vor og farfuglar

Flestir hafa eflaust tekið eftir því að vorhugur er kominn í fugla landsins. Farfuglum sem verpa á Íslandi fjölgar með hverjum deginum og staðfuglar eru komnir í æxlunargír. Heillandi tilhugalíf fuglanna getur gefið hversdagsleika okkar ánægjulega fyllingu, taki menn sér tíma til að njóta fuglasöngsins og fylgjast með varphegðun fiðraðra vina okkar. Þetta tímabil í æviskeiði fuglanna er jafnan mjög krefjandi fyrir þá. Þar reynir bæði á líkamsástand og atferli fuglanna við að koma næstu kynslóð á legg og getur truflun af ýmsum orsökum haft afdrifaríkar afleiðingar. Farfuglarnir eiga að baki langt og strembið ferðalag og staðfuglanir hafa þraukað erfiðan vetur með takmörkuðu aðgengi að fæðu. Allir eiga þeir skilið að geta hugað að varpi án teljandi hindrana að hálfu okkar mannanna.

Kettir og útivera

Margir kettir eru einnig hækkandi sól fegnir og njóta útiverunnar eftir langan og kaldan vetur. Þeir eru flestir forvitnir um fuglana ekki síður en við. Þótt sumir kettir láti sér nægja að fylgjast með annríki fuglanna úr fjarlægð sækja aðrir mjög í að veiða þá. Afrán katta á fuglum og truflun sem þeir valda á varptíma getur aukið verulega á raunir fuglanna á þessu viðkvæma tímabili og gætu haft í senn neikvæð áhrif á einstaklinga og á stofna. Kettir á Íslandi voru fluttir hingað af mönnum og geta veiðar þeirra á fuglum hérlendis því ekki talist náttúrulegar, heldur verður að líta svo á að þær séu á ábyrgð manna. Þær eru þess vegna einn af fjölmörgum þáttum í nútímasamfélagi manna sem hefur neikvæð áhrif á fuglalíf og bætast ofan á neikvæð áhrif vegna búsvæðaeyðingar, loftslagsbreytinga, mengunar og ósjálfbærra veiða svo eitthvað sé nefnt.

Þúfutittlingur á hvönn. Ljósmynd © Árni Árnason
Þúfutittlingur á hvönn. Ljósmynd © Árni Árnason

Kattaeigendur eru stundum óviðbúnir ef í ljós kemur að skemmtilega og gæfa gæludýrið þeirra sé veiðikló. Margir vilja þó leggja sitt af mörkum til að draga verulega úr eða hindra alfarið veiðar kattanna sinna og truflun sem þeir kunna að valda. Til allrar lukku eru ýmis góð ráð til þess.

Fuglavernd hvetur eindregið alla kattaeigendur til að standa vörð um öryggi og velferð villtra fugla með því að:

1) Stýra útivistartíma kattarins. Á varptíma fugla ætti að halda ketti inni eins mikið og unnt er, en helst a.m.k. frá kl. 17 til kl. 9 næsta morgun. Gott er að gefa köttum sem fara út eitthvað sérlega girnilegt að éta hvern dag um það leyti sem þeir eiga að koma inn, til að venja þá við að koma heim á réttum tíma.

2) Nota hjálpartæki til að draga úr veiðum. Fái köttur að fara út ætti fuglakragi (t.d. Birdsbesafe®) að vera staðalbúnaður, en rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þeirra. Í einhverjum tilfellum er æskilegt að bæta við bjöllu líka. Á meðan fuglar liggja á eggjum og þangað til ungar eru orðnir vel fleygir gæti verið nauðsynlegt að setja kattasvuntu (t.d. CatBib®) á sérlega veiðiglaða ketti og þá sem eiga til að klifra í trjám til að komast í hreiður. Kattaeigendur gætu þurft að prófa sig áfram til að finna þá lausn sem virkar best á sinn kött.

3) Sjá til þess að kötturinn fái góða örvun og fæðugjafir við hæfi heima fyrir. Sé köttur saddur og sæll og fær að eltast við leikföng hjá fólkinu sínu er ólíklegra (en þó ekki útilokað) að hann sæki í þá fyrirhöfn og spennu sem fylgir veiðum.

4) Gelda köttinn eigi hann að fá að vera úti. Geldir kettir fara að jafnaði yfir minna svæði þegar þeir eru úti og hafa minni áhuga á veiðum. Þá er gelding útikatta mjög mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir myndun villikattastofna, en slíkir stofnar geta haft verulega neikvæð áhrif á fuglalíf.

Kattakragar

Hægt er að kaupa kattakraga á vef Fuglaverndar, hjá dýralæknum og víðar. Áhugasömum um áhrif katta á fugla er bent á nýlega og efnismikla yfirlitsgrein um viðfangsefnið á íslensku, sem finna má hér: https://fuglavernd.is/wp-content/uploads/2022/03/FUGAR-12-Heimiliskotturinn-besti-vinur-mannsins-en-ogn-vid-fuglalif-.pdf