Dagurinn er orðinn lengri en nóttin og vorið skríður hægt áfram. Farfuglar eru farnir að koma til landins og það styttist í að loftin fyllast af söngi friðlara og ungatísti úr hreiðrum. Í kjölfarið fylgir aukin veiði katta.
Fuglavernd hefur í nokkur ár selt kattakraga frá fyrirtækinu BirdsBeSafe, Vermont, Bandaríkjunum. Kannanir hafa sýnt að kragarnir virka betur heldur en bjöllur á hálsólum til að vara fugla við aðvífandi hættu; köttur. Aftur á móti hafa kettir lært að þekkja að hljóð úr bjöllu þýðir að köttur sé í næsta nágrenni og þá er best fyrir köttinn að undribúa sig undir kattafund eða koma sér í öruggt skjól.
Í greininni sem er hlekkjuð hér kemur fram að þegar kettir fengu kraga þá fækkaði skiptunum þegar þeir komu heim með bráð. Einnig kemur fram að flestum köttum var alveg sama þó að kraganum hefði verið bætt við utanum hálsól þeirra. Aftur á móti var hluti katta mjög ósáttur við þessa viðbót og sýndu kettirnir það í verki m.a. með því að tosa kragann af sér.
Á heimasíðu Fuglaverndar má lesa ýmislegt um veiðar katta.
Í tímaritinu Fuglar nr.12 2019 var birt grein eftir Menju Von Schmalensee um efnið kettir “Heimiliskötturinn, besti vinur mannsins en ógn við fuglalíf?”